Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 21:43:58 (4509)

1998-03-09 21:43:58# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[21:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Byggingar félagslegs húsnæðis eiga sér 70 ára sögu hér á landi og eru einhver mikilvægasta kjarabót sem íslenskt láglaunafólk hefur nokkru sinni fengið. Ég hef lesið frásagnir fólks sem bjó við ömurlegar aðstæður í húsnæðismálum á þriðja áratugnum og fékk svo úthlutað íbúð í fyrstu verkamannabústöðunum. Allt þess líf gjörbreyttist þótt þrengslin í þessum íbúðum væru mikil miðað við það sem við nú eigum að venjast. Ég varð sjálf vitni að gríðarlegum húsnæðisskorti sem var hér í Reykjavík á árunum eftir 1950. Þá bjó fólk m.a. í lélegum bröggum, eða hraktist búferlaflutningum vor og haust úr einni kjallaraskonsunni upp á annan hanabjálkann. Þegar byrjað var á framkvæmdum í framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, fyrsta áfanga í Breiðholti, varð gjörbylting á högum margs þessa fólks.

[21:45]

Þarna áttu ýmsir kunningjar mínir í fyrsta sinn því láni að fagna að fjölskyldur þeirra ættu öruggt húsnæði sem stóðst kröfur um aðbúnað sem okkur þykir sjálfsagður núna. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og eitt það gleðilegasta sem gerst hefur fyrir tilstilli þessa kerfis er að tekjulægsta fólkið sem enga möguleika átti á að eignast húsnæði á almennum markaði átti þarna skjól. Fatlaðir einstaklingar hafa hundruðum saman getað eignast sjálfstætt fjölskyldulíf fyrir tilstilli þessa ágæta kerfis og þá ekki síður aldraðir, en kerfið hefur lánað mikið á undanförnum árum til að þeir gætu eignast skjól á efri árum sem hentaði þeim og gæti gert þeim kleift að búa sjálfstætt án þess að þurfa að fara inn á elliheimili sem margir þeirra vilja ekki gera fyrr en í síðustu forvöð og er þjóðhagslega hagkvæmt þar að auki.

Auðvitað voru nokkrir hnökrar á þessu kerfi sem ákveðnir aðilar gerðu mikið úr og þurfti að lagfæra. En þó vonast hafi verið eftir frv. sem tæki á þeim hnökrum áttu menn síst von á því að lítill hópur útvalinna trúnaðarvina hæstv. félmrh. hefði setið á leynifundum og komið saman frv. eins og hér er snarað fram sem m.a. virðist innihalda helstu áhugamál Sjálfstfl. til margra ára og kannski þau fyrst og fremst. En hann, eins og menn vita, ályktaði m.a. á síðasta landsfundi flokksins um að leggja byggingarsjóðina niður og sameina þá í eina sjálfstæða lánastofnun sem síðan yrði einkavædd fyrir aldamót. Einnig var í þeirri samþykkt lögð áhersla á að Húsnæðisstofnun yrði lögð niður í núverandi mynd. Þetta er allt inni í frv. sem hæstv. félmrh. snarar inn í þingsali og minnir helst á Gilitrutt með vaðmálssekkinn sinn forðum, nema ekki er minnst á einkavæðinguna. En sporin hræða.

Auðvitað hlýtur maður að líta til ferils hæstv. ríkisstjórnar í einkavæðingarmálum og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er ætlan a.m.k. Sjálfstfl. að standa við það að einkavæða stofnunina fyrir aldamót, ef ekki fyrr. Mig undrar að hæstv. félmrh. skuli sækja það með slíku offorsi að keyra þetta frv. í gegnum þingið nú þegar mjög naumur tími er til að vinna málið í þinginu þar sem þinglok hafa nú þegar verið ákveðin mun fyrr en ætlað var samkvæmt fyrri starfsáætlun. Manni dettur helst í hug að hæstv. ráðherra sé knúinn áfram af einhverjum alvarlegum hótunum frá samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Hefur kannski verið hótað að skipta um félmrh. ef frv. nær ekki fram að ganga? Það er eins og einhver ógnun liggi í loftinu því að hæstv. ráðherrann er þingmaður flokks sem í aðdraganda síðustu kosninga rakaði að sér fylgi vegna loforða um stórfellda greiðsluaðlögun fyrir skulduga einstaklinga. Og eftir þá kosningabaráttu trúði ég þó ég væri í framboði fyrir annan flokk að Framsfl. vildi lægst launaða fólkinu í landinu allt hið besta og þeim sem höllum fæti stóðu.

Það hefur gengið ákaflega brösuglega fyrir hæstv. ráðherrann að efna þessi háleitu kosningaloforð. Það sem þó hefur verið reynt hefur reynst mjög gagnslítið. Og nú bætir hæstv. ráðherrann gráu ofan á svart með því að kasta fyrir borð þeim möguleikum sem tekjulægsta fólkið hafði til að eignast eigið húsnæði. Hæstv. ráðherrann hefur að vísu lýst því yfir að í staðinn muni þessi hópur eiga kost á leiguhúsnæði sem sé miklu skynsamlegri kostur fyrir þá sem minnstar tekjur hafa. Ég get að vísu deilt því sjónarmiði með hæstv. ráðherranum, en þessar leiguíbúðir eru bara ekki í boði. Þær hafa ekki verið það nema að örlitlu leyti og ekki batnar það með samþykkt þessa frv. þar sem aðeins er gert ráð fyrir 50 íbúðum á ári næstu tvö árin og eftir það er allt opið og háð geðþóttaákvörðunum sveitarfélaga sem sum hver hafa ekki getað hugsað sér hingað til að byggja svo mikið sem eina félagslega íbúð og lítið útlit fyrir að það sjónarmið þeirra sumra hverra muni breytast til muna. Þetta er skuldsetning á sveitarfélaginu til afskaplega langs tíma og svoleiðis er ekki vinsælt að gera fyrir fátækt fólk. Það er annað mál ef verktakar á staðnum þurfa á verkefnum að halda, þá er kannski hægt að slá til.

Það er alvarlegt mál að hæstv. ráðherra félagsmála skuli voga sér með þetta mál hér fram, þar sem í raun er slegin af öll félagsleg aðstoð við láglaunafólk í húsnæðiskerfinu, án þess að hafa reynt að hafa nokkurt samráð við launaþegahreyfinguna í landinu. Á sínum tíma var það launþegahreyfingin sem knúði fram þær félagslegu umbætur sem leiddu til stofnunar húsnæðiskerfisins, leit á það sem hluta af kjarasamningum og sló í staðinn af öðrum kröfum. En nú þegar ríkisstjórninni dettur í hug að slá þetta kerfi af kemur verkalýðshreyfingunni það bara ekki við. Hún er ekki virt viðlits.

Hæstv. félmrh. las hér upp þingsamþykktir frá ASÍ og taldi sig hafa verið að framfylgja þeim með þessu frv. Ég er ansi hrædd um að ASÍ-menn líti málið öðrum augum og hefði nú auðvitað verið ráðlegt hjá hæstv. ráðherranum, ef hann var að semja þetta frv. til að framfylgja ályktunum Alþýðusambandsins, að hafa samráð við þá um samningu frv., leyfa þeim að sitja í nefndunum með ráðuneytisstjórunum og öðrum nánustu ráðgjöfum hæstv. ráðherrans því mér virðist að þeir hafi misskilið ályktanir ASÍ sem hæstv. ráðherrann ætlaði þó að hafa að leiðarljósi í þessu máli að eigin sögn. Það eitt gæti virst næg ástæða fyrir hæstv. ráðherrann til að taka frv. af dagskrá og láta endurvinna það fyrir þing á hausti komanda.

Hæstv. ráðherrann hefur fært fram nokkrar ástæður til að réttlæta það að þetta frv. þurfi að samþykkja nú og helst í gær. M.a. hefur mikið verið gert úr því að íbúðir stæðu auðar, að fjöldi íbúða úti um allt land sem sveitarfélögin hefðu neyðst til að innleysa. En hverjar eru staðreyndir málsins? Í október 1996 höfðu 34 íbúðir af 11 þúsund sem þá höfðu verið byggðar staðið auðar í eitt ár eða lengur. Og þá var ástæðan oftast sú að sveitarfélögin höfðu gefið upp rangar forsendur um þörf fyrir húsnæðið þegar bygging var leyfð þó að auðvitað væri í nokkrum tilfellum um byggðaröskun vegna tilflutninga á atvinnutækifærum að ræða. Ég held að það blasi við öllum að hér hefur svo sannarlega verið gerður úlfaldi úr mýflugu. Auðvitað þurfti einhvern veginn að leysa þau mál sem hér var um að ræða. En til þess þurfti ekki að leggja húsnæðiskerfið í rúst.

Einnig hefur verið gert mikið úr því að vanskil í kerfinu væru mikil svo það er best að skoða það dæmi sérstaklega. Fyrir liggur að á árunum 1990--94 voru útlánatöp byggingarsjóðanna beggja upp á 65 millj. kr. En á sama tíma voru útlánatöp í ríkisviðskiptabönkum og fjárfestingarsjóðum atvinnulífsins upp á 22 milljarða kr. Einhverjum mundi nú kannski detta í hug þegar litið er til þessara talna að sitthvað þyrfti að endurskoða áður en gengið yrði milli bols og höfuðs á húsnæðiskerfinu sérstaklega í þessu ljósi.

Þriðja atriðið sem sérstaklega hefur verið fundið félagslega húsnæðiskerfinu til foráttu er að íbúðir í því kerfi væru dýrari en á almennum íbúðamarkaði. Það væri verið að neyða fátækasta fólkið til kaupa húsnæði sem væri yfir markaðsverði. Þetta kann að vera rétt á einstökum stöðum þar sem markaðsverð fasteigna er mjög lágt. En ef ég tek minn heimabæ t.d., Reykjanesbæ, þá hafa íbúðir sem byggðar hafa verið undanfarin ár í félagslega kerfinu þar verið langt undir markaðsverði. Og í Reykjavík hefur verið reiknað út að félagslegar íbúðir væru að meðaltali 10% undir markaðsverði. Nú leggjast slíkar framkvæmdir af. Og hvað verður þá um þá tækniþekkingu og allar þær tæknilegu framfarir t.d. sem höfðu orðið í skjóli þessa kerfis? Ég hef áhyggjur af því. Einnig bætist við að þessi verðmunur mun leggjast ofan á verðið sem fólkið þarf að greiða fyrir slíkar íbúðir. Auk þess liggur fyrir t.d. að einstæð móðir sem er að kaupa sér litla íbúð á 5,5 milljónir í dag þarf að greiða 57 þús. kr. fyrir að komast inn. En eftir samþykkt þessa frv. þarf hún að greiða 135 þús. kr. fyrir að komast inn í sömu íbúð, m.a. vegna hækkaðra lántökugjalda. Bara þetta getur riðið áformum þessarar láglaunakonu með börn á sínu framfæri að fullu þannig hún getur ekki komist inn í húsnæðið þó að það byðist því að þarna er um að ræða hækkun um heil mánaðarlaun slíkrar konu auk þess sem hún þarf svo til strax að greiða af lánunum.

Viðbótarlánin sem áður voru veitt þeim sem verst voru settir voru að sögn ekki réttlætanleg vegna mikilla vanskila. En þegar flett var upp í þessu í Húsnæðistofnun kom í ljós að aðeins 17% þessara lána voru í vanskilum sem nam þremur mánuðum eða lengri tíma. Og þetta voru lán sem voru aðeins veitt þeim sem allra verst höfðu staðið. Þetta eru ekki umtalsverð vanskil skoðuð í því ljósi.

Þetta stóra frv. sem hér hefur verið lagt fram er ekki alvont. Í því er að finna ýmsar tillögur sem eru til bóta og má þar t.d. benda á áform um flýtingu vaxtabóta og aukið valfrelsi í kerfinu sem oft hafa komið ábendingar um að gætu orðið til bóta. En það er engin svo stór réttarbót fólgin í þessu frv. að hún geti réttlætt þá skerðingu á möguleikum hinna tekjulægstu til félagslegrar fyrirgreiðslu við kaup á íbúðarhúsnæði sem felst í frv. Auk þess má nefna að fyrrnefnt valfrelsi kann að hafa í för með sér að verð á íbúðamarkaði hækki og við blasir að mikil breyting verður á því hverjir komast inn í kerfið.

Því miður er margt sem vantar skýrari ákvæði um í þessu frv. eins og t.d. að viðgerðalánaflokkur er ekki nefndur í frv. en hann hefur oft skipt þá miklu sem standa frammi fyrir dýrum viðgerðum á húsnæði og eru tekjulágir.

Það versta við þetta frv. er þó það tillitsleysi sem ráðherrann sýnir fulltrúum launafólks og annarra viðskiptavina kerfisins með því að bjóða þeim ekki upp á neitt samráð við samningu frv. en leggja það svo fram undir því yfirskini að verið sé að framkvæma vilja þeirra. Þetta er forsjárhyggja af alversta tagi. Slík vinnubrögð eru okkur ekki lengur framandi. Það er ekki langt síðan frv. um stéttarfélög og vinnudeilur var keyrt í gegnum þingið á svipaðan hátt. Það frv. varðaði einnig grundvallarréttindi launafólks sem höfðu mörg áunnist með áratuga baráttu og reynt var að afnema eða skerða stórlega með frv. Í meðferð þingsins tókst að ná fram umtalsverðum breytingum á því frv. og vonandi tekst líka að ná fram breytingum á því frv. sem hér liggur fyrir.

Það er von mín og trú að þeir launamenn sem kunna að hafa kosið hæstv. félmrh. og hans fólk í síðustu alþingiskosningum muni nú hafa lært sína lexíu og Framsfl. muni nú þurfa að leita á ný mið eftir atkvæðum. Þeir geta kannski með þessu hafa unnið sér inn prik hjá atvinnurekendum og fjármagnseigendum. Við heyrðum nú í hv. þm. Pétri Blöndal hér fyrr í dag. En mér finnst ólíklegt að launþegar komi til með að treysta á bjargráð félmrh. og þeirra framsóknarmanna í komandi kosningum eins og síðast. Þeir munu láta sér þetta að kenningu verða.