Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:25:12 (4579)

1998-03-11 14:25:12# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég hef varpað fram tveimur fyrirspurnum til hæstv. félmrh. hvað varðar áformaðan yfirflutning verkefna á sviði málefna fatlaðra til sveitarfélaga og spyr:

Hefur nýverið komið til álita af hálfu ráðherra að fresta yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga vegna ónógs undirbúnings?

Frá því að þessari fyrirspurn var dreift hef ég lesið það í blöðum að ráðherrann sjálfur hafi þegar tekið þessa ákvörðun. Að vísu hefur Alþingi ekki komið að þeirri ákvörðun en við búum auðvitað við tiltekna lagasetningu í þeim efnum og væntanlega verður þessu ekki frestað án atbeina þingsins.

Það breytir því ekki að önnur spurning á þingskjalinu lýtur að stöðu undirbúnings framkvæmda. Í fréttum hefur hæstv. ráðherra látið þau orð falla að það hafi verið fyrir sérstaka beiðni borgaryfirvalda og samtaka sveitarfélaga sem hann hafi, að því er virðist upp á sitt eindæmi, tekið ákvörðun um það að fresta þessari yfirfærslu sem fram átti að fara um næstu áramót. Hæstv. ráðherra hefur borið því við að sveitarstjórnarkosningarnar skekki myndina. Mat mitt er eindregið það, virðulegi forseti, að hér sé auðvitað um allt aðrar ástæður að ræða og þær eru þessar: Undirbúningstíminn hefur ekki verið nýttur sem skyldi frá því að formleg ákvörðun var tekin um þetta frá 1996 og það er ljóst að í fjölmennum umdæmum eins og í Reykjavík og Reykjanesi eru stór verkefni fram undan sem er alveg ljóst að verður ekki skilað í hendur sveitarfélaganna fyrr en úr þeim hefur verið bætt að hluta eða a.m.k. ríkisvaldið hafi tekið um það ákvörðun með hvaða hætti fjárframlag fylgdi til sveitarfélaganna til þess að sinna þeim verkefnum sem ráðast þarf í.

Ég vil því strax núna, virðulegi forseti, í ljósi þess að ráðherra hefur kosið að upplýsa þessi mál í fjölmiðlum spyrja hann um það hvort hin raunverulega ástæða frestunar sé ekki einmitt sú að ráðuneyti hans hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessum nauðsynlega undirbúningi og einnig hitt að nauðsynlegir samningar við viðkomandi sveitarfélög í verkefnastjórn hans hafi ekki verið komnir nægilega langt og að uppi sé ágreiningur um það hvaða fjármunir eigi að fylgja. Það þýðir ekkert að bjóða mér upp á það, virðulegi forseti, að bera við einhverjum sveitarstjórnarkosningum. Menn vissu fyrir tveimur árum að þeirra var að vænta núna í vor.