Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:47:56 (4589)

1998-03-11 14:47:56# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:47]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þsk. 807 spyr hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir um smíði varðskips. Í fyrsta lagi spyr hv. þm.:

Hafa stjórnvöld ákveðið að nýta þann möguleika að nýtt varðskip verði smíðað innan lands á þeim forsendum að um sé að ræða skip sem jafna megi við þau verkefni annarra þjóða sem ekki fara í opið útboð með rökum um hernaðarleynd?

Því er fyrst til að svara að stjórnvöld hafa ekki ákveðið enn hvar nýtt varðskip verði byggt. Mér er þó kunnugt um að víða erlendis er sá háttur hafður á að smíði þeirra skipa sem notuð eru til að verja lögsögu landanna eru unnin af innlendum skipasmíðastöðvum. Til grundvallar þeirri ákvörðun liggur fyrst og fremst sú forsenda að um svo mikilvægt þjóðaröryggismál sé að ræða að ekki sé unnt að leyfa öðrum þjóðum aðgang að þeim viðkvæmu upplýsingum sem meðhöndla þarf. Þessi skoðun er á vissan hátt viðurkennd í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði því þar segir í 123. gr. að ekkert í samningnum skuli hindra samningsaðila í að gera ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum sínum. Á þessari stundu treysti ég mér nú samt ekki til þess að kveða upp með óyggjandi hætti hvort smíði nýs varðskips fari fram hér á landi á grundvelli umræddrar 123. gr. EES-samningsins. Ég vil hins vegar að á það verði látið reyna af fullum þunga hvort við getum ekki gert þetta og vil ég þá vísa til bréfs sem ég hef undir höndum frá Danmörku, en þar segir að skip sem ætluð eru til að sinna strandgæslu falli undir undanþáguákvæði 123. gr. Því er ótvírætt um mjög sambærilegt skip að ræða og íslenskt varðskip. Og meira en það, slík skip eru ekki einungis undanþegin almennum innkaupareglum EES-samningsins, því sé dönskum yfirvöldum í lófa lagið við hverja þeir semja um slík skip og það hefur heldur ekki verið þannig að þau séu boðin út á alþjóðlegum markaði heldur ákveðið að smíða þau í dönskum skipasmíðastöðvum. Því er alveg samsvörun, að mínu viti, milli varðskips hér og slíkra skipa í Danmörku. En endanlegt svar við þessari spurningu hlýtur að vera eitt af þeim úrlausnarefnum sem smíðanefnd varðskipsins sem dómsmrh. skipaði í desember þarf að glíma við.

Hv. þm. spyr í öðru lagi:

Ef stjórnvöld hafa ekki mótað þá stefnu, hver eru þá viðhorf ráðherra til þessa og hvaða veganesti fékk nýskipuð smíðanefnd í þessu efni?

Í smíðanefnd varðskipsins sitja fimm valinkunnir menn. Af minni hálfu var Aðalheiður Eiríksdóttir, fjármálastjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, tilnefnd til setu í nefndinni. Þar sem hún, eftir að hafa tekið sæti í nefndinni, taldi sér ekki fært að sitja í nefndinni vegna mögulegs vanhæfis síns ef Slippstöðin tæki þátt í útboðinu tilnefndi ég Ingólf Sverrisson, deildarstjóra hjá Samtökum iðnaðarins, til setu í nefndinni. Ingólfur hefur fengið sérstakt veganesti frá mér vegna starfa sinna þar, þ.e. að skipið verði smíðað hér heima sé þess nokkur kostur. Þessa skoðun mína byggi ég á því að smíði varðskips er tæknilega þess eðlis að hún ætti að nýtast íslenskum málmiðnaði einkar vel til að bæta verklag og efla kunnáttu og hæfni sem eru mikilvægir þættir í að bæta samkeppnisstöðu greinarinnar. Í því sambandi get ég séð fyrir mér að verkefnið verði notað sem þróunarverkefni til að innleiða margvíslegar tæknilegar nýjungar og framleiðsluhætti sem nýst geta innlendum málmiðnaði í efldri sókn á ný mið í kjölfar þess. Fram hjá þeim mikilvæga þætti vil ég ekki líta og tel að smíðanefndin geti heldur ekki litið fram hjá því. Hvernig þetta sjónarmið verður síðan útfært verð ég að láta smíðanefndinni eftir en ég vænti þess þó að smíðanefndin sjái sér unnt að nota þetta tækifæri til að hrinda úr vör metnaðarfullu þróunarverkefni um bæði hönnun og smíði varðskipsins. Í slíku verkefni gætu sérfræðingar á sviði hönnunar, smíðatækni, auk sérfræðinga Landhelgisgæslunnar með sína veigamiklu notendareynslu lagst saman á eitt til verulegrar hagsbótar fyrir atvinnuþróun hér á landi og ekki þá síst fyrir þá mikilvægu iðngrein sem málmsmíðin er.