Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:48:47 (4614)

1998-03-11 15:48:47# 122. lþ. 85.6 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 122. lþ.

[15:48]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom alveg skýrlega fram í minni ræðu að aldur þeirra sem í hlut eiga verður misjafnlega hár eftir alvarleika brotanna þannig að þar var ekki um neinar villandi upplýsingar að ræða. Þetta mat byggir á yfirvegun. Það eru ekki til neinar vísindalegar aðferðir til þess að finna niðurstöðu sem þessa. Það má alveg eins spyrja: Hvers vegna að miða við 18 ára aldur? Það er ekki hægt að nota vísindalegar aðferðir til þess að segja að sá aldur sé heppilegri viðmiðun en 14 ára aldur. Þar með er ég ekki að segja að ekki geti verið rök fyrir því. Ég er ekki að hafna því. Í báðum tilvikum byggist niðurstaðan á mati á aðstæðum og mati á þessum gagnstæðu viðhorfum sem þarna hljóta alltaf að togast á í refsiréttinum, samkvæmt eðli máls. Við þurfum að finna meðalhóf með hliðsjón af aðstæðum. En um þetta mun hv. allshn. auðvitað fjalla og fara nánar yfir.