Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 10:37:18 (4620)

1998-03-12 10:37:18# 122. lþ. 86.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[10:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar kosningar fóru fram um sameiningu Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps gengu forráðamenn þessarar sameiningar og þeir sem töluðu fyrir henni út frá því að byggðarlögin yrðu eftir breytinguna í sama kjördæmi. Það var talað þannig. Meðal annars af þeim ástæðum vorum við þingmenn Reykvíkinga kallaðir til á fundi sem haldnir voru á Kjalarnesi í tengslum við samninginn. Þetta segi ég ekki til þess að rengja niðurstöðu nefndarinnar. Ég held að það þýði ekki neitt. Það er alveg ljóst að menn hafa legið yfir þessu og ég met mikils þá lögmenn sem þarna er stuðst við.

Ég hef reyndar verið lengi þeirrar skoðunar að það yrði ekkert hlaupið yfir stjórnarskrána í lögum af þessu tagi. Ég hef alltaf haft vissar efasemdir um að þær forsendur sem menn gáfu sér við sameininguna væru að því er þetta varðaði réttar.

Hins vegar segir þetta það sem er ástæðan til þess að ég kem upp að eftir þetta eru bersýnilega engin vandkvæði á því að sama sveitarfélagið sé í tveimur eða fleiri kjördæmum. Þetta nefni ég vegna þess að það er til umræðu sums staðar að sameina sveitarfélög yfir kjördæmamörk. Mér er ofarlega í huga og vafalaust einnig hv. frsm. Reykhólasveit og Dalabyggð sem nú er verið að ræða um og Saurbæjarhreppur í Dalasýslu.

Það hefur einnig komið til tals að Flatey sem er hluti Reykhólahrepps eins og nú er muni verða flutt undir Stykkishólm eða flytji sig undir Stykkishólm að eigin vali. Hvort sem það verður eða ekki þá er alveg ljóst að við erum komin í dálitlar ógöngur að ég held með umdæmamarkamálin. Ég held að það sé skynsamlegt að að jafnaði fylgi sveitarfélög kjördæmum þannig að menn kljúfi ekki sveitarfélög í fleiri en eitt kjördæmi. Hins vegar ef það verður ofan á að þetta gerist svona hér og jafnvel fyrir vestan líka þá eru menn komnir þarna á nýjar slóðir og ég vek bara á þessu athygli vegna þess að þetta getur auðvitað haft áhrif á þá umræðu sem nú stendur yfir varðandi hugsanlegar breytingar á kjördæmaskipaninni í landinu. Ég vildi koma því á framfæri, herra forseti.