Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:02:14 (4626)

1998-03-12 11:02:14# 122. lþ. 86.4 fundur 544. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (heildarlög) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:02]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir undir meginefni frv. Þetta frv. kveður ekki beint á um ákvörðun um vottun eins og rætt hefur verið um, grænar merkingar á sjávarafurðum, en það er hins vegar mjög mikilsverður þáttur í því að tryggja hér öruggt eftirlit og örugga meðferð á sjávarafurðum og það ásamt skilvirkri og ábyrgri fiskveiðistjórnun er forsenda fyrir því að við getum á alþjóðavettvangi tekið upp slíkar merkingar eða upplýsingakerfi af því tagi.

Það hefur komið fram áður af minni hálfu að ráðuneytið er með í undirbúningi athugun á því að koma upp eins konar upplýsingaveitu þar sem neytendur og kaupendur á fiski geta gengið að þeim upplýsingum sem óskað er eftir. Ég er sammála hv. þm. um að þær kröfur verða æ háværari og það er eðlilegt að framleiðendur sjávarafurða mæti þeim óskum neytendanna. Það hljóta að vera þeir sem setja fram slíkar kröfur og framleiðendurnir þurfa að leggja sig fram í því efni og við höfum góðan málstað að verja. Að því leyti er þetta frv. og það eftirlit sem við höfum með framleiðslu sjávarafurða og sú stjórnun sem við höfum á veiðunum forsenda fyrir því að unnt sé að takast á við slík viðfangsefni.

Við höfum verið að þróa eftirlitsiðnaðinn sem svo hefur verið kallaður, en á þessu sviði hefur hann verið einkavæddur. Við höfum lagt niður opinbera eftirlitsstofnun og einkavætt eftirlitsiðnaðinn. Nú er verið að stíga það skref að þau sjálfstæðu einkafyrirtæki sem hafa tekið að sér að framkvæma eftirlitið þurfa að hafa fengið faggildingu. Þetta hefur gerst á einu öðru sviði, þ.e. varðandi bifreiðaskoðun sem heyrir undir dómsmrn. Á báðum þessum sviðum hefur eftirlitsiðnaðurinn verið einkavæddur og nú er það að gerast að eftirlitsfyrirtækin eru að renna saman og taka að sér verkefni á ólíkum sviðum hvort heldur það er skoðun bifreiða, skipa eða fiskvinnslustöðva. Ég er sannfærður um að þróunin verður þessi og hægt er að gera eftirlitsiðnaðinn miklu hagkvæmari, ódýrari og einfaldari ef eftirlitsaðilar á öðrum sviðum ríkiskerfisins mundu vera reiðubúnir að færa starfsemi sína út til einkafyrirtækja með þessum sama hætti inn í faggiltar skoðunarstofur sem geta þá tekið á verkefnum á mörgum sviðum og atvinnufyrirtækin geta þá snúið sér til eins eftirlitsaðila með allt eftirlit. Þetta held ég að yrði til mikilla bóta og það sem er að gerast í eftirliti á þessu sviði er mikilvægt framlag til þeirrar þróunar.