Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:27:03 (4630)

1998-03-12 11:27:03# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að ég hafi skilið það rétt og hv. þm. hafi í raun tekið undir meginmarkmið þessa frv. Ég vil þó vara við því að flækja málið of mikið. Ég tek undir öll þau meginsjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. um að þetta tengist einni allsherjarumhverfisumræðu og stöðu okkar í umhverfismálum. Ég get sömuleiðis tekið undir það og ég trúi því að áður en langt um líður muni þjóðir heims bregðast við með einhvers konar mengunarskatti á bensín og olíu. En ég vara við því að draga frv. að svo stöddu inn í of flókna umræðu vegna þess að frv. er raunar afskaplega einfalt.

Ég vil líka, eins og reyndar var vikið að í framsöguræðu fyrir tveimur dögum, en þá taldi ég mig fara nokkuð ítarlega yfir þessa þætti, vekja athygli á 3. gr. frv. Hún segir að ákvæði þessa frv., ef að lögum verður, skuli endurskoðuð í síðasta lagi 1. júlí 2003. Þetta er með öðrum orðum tímabundið afnám. Ég tel afskaplega mikilvægt að stíga nú þegar fyrstu skrefin. Það er aðkallandi vegna þess að fyrstu rafbílarnir eru komnir til landsins. Fleiri eru á leiðinni og mér er kunnugt um að fjölmargir hafa áhuga á þessum bílum. Hér hefur til allrar hamingju orðið mikil umhverfisvakning meðal almennings. Almenningur er áhugasamur um að geta ekið vistvænum ökutækjum. Við þurfum að gera þau samkeppnisfær við bensínbílinn og forsenda þess er að stíga þessi mikilvægu skref. Fyrstu skrefin eru oft erfiðust og ég vil því hvetja hv. þm. til að styðja þetta frv. af þeim krafti sem hann á til í hv. efh.- og viðskn. Ef ég þekki rétt þá situr hv. þm. í þeirri nefnd.