Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:50:07 (4659)

1998-03-12 14:50:07# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að ég hefði sagt að gengið væri of langt í 4. gr. þá ég sagði mjög varlega að ég held eða ætlaði a.m.k. að segja það mjög varlega að hv. efh.- og viðskn. skyldi skoða hvort gengið væri of langt í þessu ákvæði. Það er nefnilega svo að flestir greiðar stjórnmálamanna eru bjarnargreiðar. Ef menn ætla sér að taka þetta ákvæði upp, þá var ég búinn að hugsa út dæmi sem leiðir til ófarnaðar. Við skulum hugsa okkur að ung dóttir manns ætlaði að fara að stofna fyrirtæki, t.d. steypustöð eða fara að steypa gangstéttarhellur og hann ætlaði að veita ábyrgð á lán sem hún ætlar að taka til að setja þetta fyrirtæki í gang. Ef þetta ákvæði væri komið inn, þá verður slík ábyrgð ekki veitt þó að hann eigi ágætis íbúð þannig að stúlkan fer ekki út í sinn rekstur, að steypa gangstéttarhellur, nema hann taki lán sjálfur og með veði í íbúð sinni. Þá er hann allt í einu orðinn skuldari, ekki dóttirin. Hann er þá kominn í fyrirtæki hennar sem hluthafi og ef illa fer hjá dótturinni þá skuldar hann peninginn en ekki hún þannig að þetta ákvæði getur orðið neikvætt fyrir þann sem það á að vernda. Það er nefnilega yfirleitt þannig að þegar við þingmenn ætlum að vera góðir við einhvern, þá erum við vondir við hann.

Ég vildi auk þess ganga lengra en hv. þm. í tveimur atriðum, þ.e. að menn fengju upplýsingar um allar lánastofnanir sem sá sem á að skrifa upp á óskar eftir og hins vegar að árlega yrðu veittar upplýsingar um ábyrgðir.

Varðandi fortíðarhyggju hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og sandkassaslaginn sem hann fór út í hérna og pólitíkina. (ÖS: Ertu í andsvari við mig eða einhvern annan?) Nei, ég bara mátti til með að koma því að. (ÖS: Þá átt þú að halda ræðu.) Já. (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að ... (Gripið fram í: Hann má þetta ekki.) Forseti vill geta þess að hér er einn fundarstjóri.)