Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:52:54 (4661)

1998-03-12 14:52:54# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi það í ræðu sinni að stjórnarandstaðan flytti þetta frv. og minn ágæti flokkur bæri ábyrgð á þessum vanskapnaði öllum sem fjármálamarkaðurinn er og þar með bæri ég ábyrgð á því o.s.frv. Þetta eru ummæli sem eyðileggja gott mál og er það mjög miður. Mér þætti mikið betra að menn ræddu til framtíðar. Við erum að breyta framtíðinni. Við breytum ekki fortíðinni og segja kannski sumir því miður. Við getum breytt framtíðinni og það sem hv. þingmenn eiga að gera er að breyta framtíðinni.

Hér er allt of mikið um það að þingmenn fari í einhvern sandkassaslag um einhver fortíðarverkefni og það er eins og ég eigi að bera ábyrgð á því sem Sjálfstfl. gerði 1930 eða 1920. Ég var ekki einu sinni fæddur þá. Ég áskil mér þann rétt að bera ekki ábyrgð á öðrum gerðum en mínum eigin. Ég ber sem sagt ekki ábyrgð á óhæfuverkum kristinna manna í nafni trúarinnar þó að ég sé kristinn. (ÖS: Er það öruggt?) Ég tel mig ekki bera ábyrgð á því, já. Menn geta fallist á ákveðna skoðun og verið í ákveðnum flokki án þess að gangast undir allt sem gert hefur verið í nafni þess flokks af einhverju fólki. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. vilji heldur ekki bera persónulega ábyrgð á öllu sem gert hefur verið í nafni hans ágæta flokks.