Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:46:32 (4670)

1998-03-12 15:46:32# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:46]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er svo sem hv. þm. segir að þetta frv. sé of seint fram komið, þ.e. fjórum árum of seint, þá kemur það væntanlega í ljós í því lögfræðiáliti sem viðskrh. hefur nú þegar látið vinna hjá Háskóla Íslands og verður afhent efh.- og viðskn. þingsins þegar hún hefur fengið málið til meðferðar. Þess vegna, herra forseti, komu fram efasemdir sumra flutningsmanna við umræðu þessa máls á síðasta þingi hvort það væri yfirleitt löglegt að slíta félaginu og hvort það væri löglegt að flytja frv. sem slíkt. Það kom fram. Einnig komu fram efasemdir í umræðunum um það hvort löggjafinn hafi staðið rétt að málum með lögum nr. 68/1994. Vegna þessara efasemda fór efh.- og viðskn. þingsins fram á það við hæstv. viðskrh. að hann léti gera slíka lögfræðilega úttekt til þess að við færum ekki í neinar grafgötur með það hvort rétt væri staðið að hlutum hér og hvort rétt hefði verið staðið að hlutum þá.

Hæstv. viðskrh. hefur tjáð okkur í nefndinni að strax og við fáum þetta mál til meðferðar þá muni hann afhenda okkur þessa álitsgerð, en hefur ógjarnan viljað gera það fyrr. Ég vil líka taka það fram, herra forseti, að í lögunum um eignarhaldsfélagið stendur: ,,Tilgangur og starfssvið félagsins er einkum:`` og það er ekki tæmandi.

Ég reyndi að gera grein fyrir því hér áðan að alla öldina hefur Brunabótafélag Íslands starfað sem gagnkvæmt ábyrgðarfélag í tryggingum. Þegar eignarhaldsfélagið seldi hlut sinn í VÍS voru það endanlega hætt þeim störfum. Það er alveg ljóst í núgildandi lögum að hinir réttu sameigendur, sameigendurnir, eru óvirkir þar til slit eiga sér stað.