Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:51:20 (4672)

1998-03-12 15:51:20# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:51]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í 5. gr. laganna um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands er nákvæmlega tiltekið hverjir séu eigendur þess félags. Þar segir:

1. Þeir sem hafa brunatryggingu fasteignar hjá Brunabótafélagi Íslands þegar lög þessi taka gildi og fluttir eru til Vátryggingafélags Íslands hf., sbr. 4. gr.

2. Þeir sem vátryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi tryggingamálaráðherra til Vátryggingarfélags Íslands ...

3. Sameignarsjóðir ...

Það liggur alveg fyrir í lögunum hverjir eigendurnir eru. Það segir líka nákvæmlega fyrir um það í þessum lögum hvernig skuli með fara við slit félagsins þannig að eigendurnir fái sinn hlut. Svo geta menn hins vegar deilt um það, herra forseti, hvort rétt sé að slíta félaginu. Það er bara afstaða hvers og eins. En það liggur alveg fyrir frá hendi okkar flutningsmanna að við teljum einsýnt að hætt var þeirri starfsemi þess gagnkvæma tryggingarfélag sem hinn beini og eini tilgangur félagsins áratugum saman sagði til um. Því þurfum við ekkert að spyrja að því lengur hvort það eigi að slíta því. Hins vegar hefur aldrei komið fram hjá okkur flutningsmönnum þessa frv. að við höfum verið að væna eignarhaldsfélagið um einhverja varasama hluti. Við erum alveg vissir um að alltaf hafi allt verið gert samkvæmt lögum. Þeir hafa alveg nákvæmlega haft rétt til að gera það sem þeir gerðu. Engin slík sjónarmið hafa nokkurn tíma komið fram. Við höfum hins vegar talið að það beri að slíta félaginu, hinu gagnkvæma tryggingarfélagi, þegar það hefur augljóslega hætt störfum.