Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:48:32 (4740)

1998-03-17 16:48:32# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að fram að þessu hefur það ekki gerst að nokkurs staðar hafi menn verið að ginna tekjulágt fólk til að kaupa of dýrt með því að úthluta því íbúðum úr félagslega kerfinu.

Ég kom upp til að bregðast við þremur atriðum. Í fyrsta lagi er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að rangt var að orði komist hjá mér þegar ég talaði um að viðkomandi tæki lánin með sér. Það sem ég var að reyna að setja í orð var að fólk fer ekki á sama hátt út úr kerfinu og áður með innlausn beinlínis á íbúð byggðri í félagslegu kerfi heldur er um það að ræða að ef sá valkostur hefur verið tekinn sem ráðherrann talar oft um, að fólk hafi fundið sér íbúð og kannski byrjað í einhverri lítilli íbúð fyrst með húsbréfaláni og viðbótarláni frá Íbúðalánasjóði, að þegar viðkomandi ætlar að stækka við sig fær hann leyfi til að selja þá íbúð og finnur sér aðra stærri og fær væntanlega aftur húsbréfalán og lán úr Íbúðalánasjóði sé hann í þeirri stöðu að hafa haldið í horfinu, en þá er líka áþekk greiðslubyrði hjá viðkomandi. Það var nú það sem ég átti við.

Í öðru lagi var fjallað um stöðu Byggingarsjóðs verkamanna og hvernig menn hefðu staðið við greiðslur í hann. Það er athyglisvert að í skýrslu fjmrn. um starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna þar sem farið er yfir framlög til Byggingarsjóðs verkamanna frá árinu 1993 og fram til 1997 segir í niðurlagi: ,,Niðurstaðan er engu að síður sú að eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna hefur styrkst um allt að 1 milljarð kr. á þessu tímabili. Það er því ljóst að þær aðgerðir sem gripið var til á árunum 1992 og 1993 hafa skilað tilætluðum árangri.``

Að lokum þetta. Ráðherrann leggur áherslu á að nú séu samtöl í gangi milli félmrn. og verkalýðshreyfingarinnar og það sé í mesta bróðerni og menn séu að fara yfir útreikninga. Það má því skilja þau orð þannig að þær viðræður geti leitt til einhvers. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að afskaplega hefði verið gott að þær viðræður hefðu átt sér stað áður og verið búið að taka á málum áður en frv. komu inn í þingið.