Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:39:44 (4767)

1998-03-17 18:39:44# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:39]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. forsrh. talaði fyrir á að hluta til fyrirmynd í löggjöf nágrannalandanna en meginefni þess er að hægt er að óska eftir bindandi áliti í skattamálum. Grunnhugsunin er sú að með því eru réttindi skattborgaranna betur tryggð á þann hátt að úrskurður fáist fyrr en venja hefur verið hér á landi. Það er mjög brýnt að mínu mati að hraða afgreiðslu mála í skattkerfinu og ganga tryggilega frá réttindum skattborgaranna. Hins vegar gerir þetta frv. það ekki. Það er ljóst að óánægja ríkir með framkvæmd fjölmargra þátta í íslensku skattkerfi. Eitt af því er hve lengi mál hafa dregist hjá ríkisskattstjóra eða hjá yfirskattanefnd sérstaklega. Menn hafa búið við ákveðið óöryggi vegna dráttar á málum.

Við þekkjum einnig umræður um einstaka skattstjóra, gagnrýni fólks á skattstjóra eins og var nú nýverið í fjölmiðlum, þ.e. á skattyfirvöld á Ísafirði. Við höfum heyrt slíka umræðu um skattyfirvöld á Akureyri svo fátt eitt sé nefnt. Sömuleiðis má vekja athygli á nýlegum hæstaréttardómi þar sem maður sem var kærður fyrir misferli tengdu skattamálum og hafði setið inni, var sýknaður. Vitaskuld sýnir allur þessi málatilbúnaður og umræður í þjóðfélaginu að við þurfum að vanda betur lagaumgerð um samskipti skattborgara og skattyfirvalda.

Það hefur einnig verið gagnrýnt töluvert í fyrirtækjaumhverfi að skatteftirlit sé ekki nógu markvisst. Við þekkjum, herra forseti, tölur um að 11 milljarðar tapist vegna skattundandráttar. Hvort sú tala er nákvæm læt ég liggja á milli hluta en það er ljóst að skattundandráttur er töluverður og vafalítið eitthvað í nálægð við þetta. Þess vegna er mjög brýnt að eftirlit sé markvisst og nægjanlegt. Stundum er sagt að eftirlitið beinist einkum að þeim sem hafa sína hluti bókhaldslega í lagi. Auðveldara sé að hafa eftirlit með þeim og sjá hvort allt sé rétt fært og hvort rétt sé farið með frádráttarliði eða ekki. Hins vegar eru þeir sem hafa allt sitt bókhald í skókössum sagðir sleppa við opinbert eftirlit. Ekki er gott að segja hvort eitthvað sé hæft í þessari gagnrýni en vafalítið má finna eitthvert sannleikskorn í þessu.

Ein af ástæðunum fyrir því að skatteftirlit og öll sú umgjörð er ekki nægjanlega traust hjá okkur er m.a. fólgin í því að ekki er nægjanlegur mannafli settur til verka og ekki eru nægjanleg laun greidd þeim sem vinna að þessum málum. Skattstofur hafa oft og tíðum verið hálfgerðar uppeldisstöðvar fyrir fært fólk sem síðan hefur horfið til annarra starfa, ekki hvað síst á sviði lögfræði og endurskoðunar. Þetta er vitaskuld áhyggjuefni og tengist að vísu almennt launastefnu ríkisins sem er svo sem ekki hér til umræðu, en það er ekkert að því, herra forseti, að þessi mál séu rædd öðru hverju í víðara samhengi.

Spurningin er hvort þetta frv. leysi eitthvað af þeim vandamálum sem er við að glíma, þ.e. drátt í kerfinu og skapi meira réttaröryggi. Ég tel svo ekki vera einfaldlega vegna þess að frv. er illa úr garði gert. Ekki er tekið á tveimur mjög mikilvægum þáttum sem eru að setja fresti í frv. og standa við þá. Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri skal láta uppi bindandi álit samkvæmt lögum þessum svo fljótt sem unnt er.``

Ekki eru sett tímamörk hvað þennan þátt varðar. Síðan er málskotsréttur vitaskuld bæði til yfirskattanefndar og til almennra dómstóla en ekki er tekið neitt á vandkvæðum gagnvart yfirskattanefnd, en í 8. gr. laga um yfirskattanefnd segir:

,,Yfirskattanefnd skal hafa lagt úrskurði á kærur þremur mánuðum eftir að henni hefur borist umsögn og greinargerð ríkisskattstjóra.``

[18:45]

Það er vitað, herra forseti, að ákvæði laganna eru margbrotin og ekki hefur verið látið reyna á nein úrræði hvað þann þátt varðar. Í þeirri löggjöf get ég ekki séð í fljótu bragði að gert sé ráð fyrir hvernig fara skuli með ef hið opinbera brýtur þá fresti sem þar eru en einmitt það hefur gerst. Ástæðan fyrir því að yfirskattanefnd lýkur ekki málum sínum innan tilskilins frests er einfaldlega að ekki er nægjanlega vel að umgjörð starfsins staðið, þ.e. það þarf fleira fólk til að klára þau mál í tíma. Það er alveg augljóst, herra forseti, að frv. mun væntanlega búa til nýja stíflu. Það verður lengi verið að koma fram með bindandi álit nema menn setji fresti og gefi yfirlýsingar um að menn ætli að ráðstafa nægjanlega fjármunum til að tryggja öryggi skattborgaranna. Það er reyndar sagt í athugasemdum við frv., þ.e. umsögn fjmrn., að það þurfi að ráða tvo til þrjá nýja starfsmenn til að reyndari starfsmenn geti tekið að sér umsjón með þessu verkefni, þ.e. að gefa þessi bindandi álit.

Hins vegar er á móti gert ráð fyrir að hægt sé að spara hjá yfirskattanefnd. Það er verið að leggja upp með hugmynd sem er alls ekki slæm, þ.e. að koma með bindandi álit og reyna að stytta fresti en það er ekki gert á þann máta að eitthvert gagn verði að þessu. Til að svo hefði orðið hefði t.d. þurft að setja inn í 3. gr. að úrskurður yrði að liggja fyrir innan tiltekins tíma og ganga náttúrlega eftir því að ákvæði 8. gr. um yfirskattanefnd verði virk. Til þess þarf fjármagn. Að vísu er sumt í skattalögum ekki einungis tengt fjármunum í sambandi við úrslit og úrskurði heldur er það einnig háð reglunum sjálfum. Þar hafa menn hins vegar verið að bæta sig á undanförnum missirum, t.d. með stöðluðum framtölum og öðru slíku, og er það allt vel.

Hér finnst mér hins vegar, herra forseti, vera kastað til höndum. Hugmynd er gripin á lofti, hæstv. forsrh. gerði það nú svo að það passar ágætlega að hæstv. forsrh. tali fyrir máli hæstv. fjmrh. Forsrh. greip á lofti hugmynd fyrir nokkru um að það þurfi að gera eitthvað fyrir skattborgarana í landinu, það þurfi að koma með umboðsmann skattborgara. Þetta var svona endurómur af umræðu sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum og er í sjálfu sér ekki í fyrsta skipti sem hæstv. forsrh. grípur eitthvað á lofti og kemur inn í íslenska umræðu en oftast er það þá ekki hugsað í neinni mótaðri mynd heldur einungis slegið fram í fyrirsögnum. Þetta er alveg sígilt mál hvað það varðar, sérstaklega þegar útfærsla á frv. er skoðuð.

Hins vegar væri vafalítið hægt að betrumbæta frv. í nefnd, þ.e. að setja í þetta fresti, taka upp lögin um yfirskattanefnd samhliða skoðun á málinu, skoða hvernig hægt er að tryggja betur réttarstöðu skattborgara í landinu því að það er brýnt og við jafnaðarmenn höfum margoft talað um að réttaröryggi þurfi að ríkja hjá þeim einstaklingum sem standa undir skatttekjum landsmanna. Það verður hins vegar ekki gert með því að kasta til höndunum við útfærslu á þessu frv. og benda má á að réttlætið í þessu kostar sitt því ef ég sé hér rétt er gert ráð fyrir því að sá sem biður um slíkt bindandi álit verði að greiða fyrir það 50 þúsund, þ.e. aldrei hærri fjárhæð en 50 þúsund, sem á væntanlega að vera hluti af þeim kostnaði sem slíkt álit hefur í för með sér. Hér er nokkuð há tala en það er vitaskuld atriði sem verður skoðað betur í nefnd.

Meginniðurstaða mín varðandi frv. er að það er ekki hugsað til enda, það hefði verið sjálfsagt að leggja til að bindandi álit ríkisskattstjóra þegar óskað er eftir, það hefði gert meira réttaröryggi. Það þarf hins vegar að vera gert innan tiltekinna tímamarka og það þarf að liggja fyrir viljayfirlýsing að bæði ríkisskattstjóra og ekki hvað síst yfirskattanefnd verði tryggður starfslegur og fjárhagslegur rammi til að uppfylla þau lagaákvæði sem í gildi eru. Því að það er satt best að segja, herra forseti, til vansa fyrir Alþingi að horfa upp á 8. gr. laganna, um yfirskattanefnd, vitandi að þetta er brotið vegna þess að ekki er séð nægjanlega fyrir umgjörð að starfi yfirskattanefndar. Það er mjög mikilvægt að borgarar í landinu séu ekki háðir því að þurfa að bíða mjög lengi eftir úrskurðum til þess bærra yfirvalda. Allar breytingar í löggjöf okkar á undanförnum missirum hafa miðað að því að einfalda og bæta réttarstöðu einstaklinga gagnvart kerfinu og brýnt er að halda því áfram gagnvart skattyfirvöldum. Það verður hins vegar ekki gert með þessu frv. eins og það er lagt fram. Hins vegar, herra forseti, get ég sagt það fyrir hönd okkar jafnaðarmanna að við erum fús til þess að vinna að því að betrumbæta frv. þannig að hægt væri að vinna eftir því og að það mundi skapa virkilega réttarbót fyrir einstaklinga sem greiða skatt í landinu.