Samningar með tilkomu evrunnar

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 21:41:41 (4792)

1998-03-17 21:41:41# 122. lþ. 89.10 fundur 556. mál: #A samningar með tilkomu evrunnar# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[21:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 945 sem er 556. mál þingsins um áframhaldandi gildi samninga með tilkomu evrunnar.

Samkvæmt ákvæðum Maastricht-sáttmála Evrópusambandsríkja er gert ráð fyrir að myntbandalag verði að veruleika 1. jan. 1999 með þátttöku þeirra ríkja sem uppfylla skilyrði sáttmálans um efnahagslegan stöðugleika. Fastlega er búist við því að ellefu ríki uppfylli efnahagsskilyrði sáttmálans en lokaákvörðun um þátttökuríki verði tekin á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í byrjun maí.

Myntbandalagið mun fela í sér að núverandi gjaldmiðill aðildarríkja þess hverfa en í staðinn kemur ein mynt, evra, og einn seðlabanki, Seðlabanki Evrópu, sem mótar og framfylgir peningastefnu bandalagsins.

Frv. það sem hér liggur fyrir miðar að því að eyða lagalegri óvissu um áhrif mynstskiptanna.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að taka af allan vafa um að upptaka evrunnar muni ekki leiða til ógildingar samninga í ekum eða einstökum myntum aðildarríkja EMU.

Um þessi mál hefur nokkuð verið fjallað á alþjóðlegum vettvangi og þar hefur niðurstaðan almennt verið að ekki sé grundvöllur fyrir einhliða uppsögn samninga með tilkomu EMU og því að þjóðlegar myntir aðildarríkja verða ekki lengur gjaldgengar til að efna samninga. Sama á við þar sem samningar eru í eku. Þessi afstaða byggist á því að markaðsaðilar hafa vitað undanfarin 6--7 ár að hverju stefndi og geti því ekki í góðri trú einhliða sagt upp slíkum samningum af þeirri ástæðu að samningsmynt sé ekki lengur fyrir hendi.

Hér á landi er nokkuð um samninga þar sem skuldari hefur lofað að greiða í mynt aðildarríkja EMU eða eku. Nefna má sem dæmi innlenda gjaldeyrisreikninga innlánsstofnana, ECU-tengd spariskírteini ríkissjóðs, krónureikninga tengda ECU auk ýmissa samninga utan stofnana milli innlendra og erlendra aðila.

Nú hafa nokkur ríki þegar sett lög sem fjalla um áframhaldandi gildi samninga og skuldbindinga eftir tilkomu evrunnar. Lög þessi hafa að markmiði að koma í veg fyrir að samningsaðili geti haft í frammi ágreining um að annars bindandi samningur sé ekki skuldbindandi, þar sem greiðslu sé ekki hægt að inna af hendi í áður umsaminni, þjóðlegri, mynt.

Herra forseti. Að lokinn þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.