Brunamótstaða húsgagna

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:10:08 (4841)

1998-03-18 14:10:08# 122. lþ. 90.5 fundur 515. mál: #A brunamótstaða húsgagna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. er vel kunnugt hefur umhvrn. nýlega tekið við þessum málaflokki, sem fjallar um brunamál og brunavarnir, frá félmrn. Ráðuneytið hefur í sjálfu sér ekki enn þá haft mikinn tíma til að fjalla ítarlega um hin ýmsu mál er undir stofnunina heyra og hin ýmsu mál sem varða málaflokkinn í heild, en er nú unnið að því. Því leitaði umhvrn. til Brunamálastofnunar ríkisins um upplýsingar vegna fyrirspurnar hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Í svari eða samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar segir að engar sértækar stjórnvaldsreglur séu til á Íslandi um brunamótstöðu húsgagna, hvorki vegna þeirra sem flutt eru til landsins né þeirra sem framleidd eru innan lands, eins og reyndar mátti kannski skilja á framsögu hv. þm. vegna fyrirspurnarinnar.

Hins vegar tóku gildi hér á landi 1. maí 1994 og 1. júní 1995 evrópskir staðlar er taka til mótstöðu húsgagna við bruna út frá sígarettum. Hér er löng upptalning á númerum þessara staðla, ÍST EN 597-1:1994 og ÍST EN 597-2:1994, ÍST EN 1021-1:93 og ÍST EN 1021-2:93. Ég verð auðvitað að játa það að ég hef ekki fyrir framan mig miklar upplýsingar um hvað í þessum staðlanúmerum felst. En staðlar hafa leiðbeinandi gildi á Íslandi og til þeirra skal vísa ef gerðar eru lágmarkskröfur, t.d. í opinberum útboðum.

Brunamálastofnun hefur haft lítil afskipti af húsgögnum þó svo að húsgögnin séu stór þáttur í útbreiðslu elds í byggingum, sérstaklega í íbúðarhúsum, eins og einnig kom fram hjá hv. þm. Þó hefur stofnunin veitt ráðleggingar um val á húsgögnum, t.d. rúmdýnum fyrir sjúkrastofur og fangelsi svo dæmi sé tekið. Að mati brunamálastjóra væri æskilegt að auka eftirlit með brunamótstöðu húsgagna sem seld eru hér á landi, og ráðuneytið sem tók við málaflokknum hinn 1. jan. sl. mun óska eftir nánari tillögum frá brunamálastjóra um það hvernig hentugast er að auka brunaöryggi húsgana hér á landi og á markaði hér, svo og hvort ástæða sé til að setja sérstaka reglugerð um brunamótstöðu húsgagna. Það er líka óásættanlegt, eins og fram kom hjá hv. þm., ef hér gilda allt aðrar reglur en eru í nágrannalöndunum og að við séum að flytja inn eða heimila að hér séu flutt inn húsgögn eða framleiðsla leyfð á húsgögnum sem bannað er að flytja inn eða framleiða í nágrannalöndunum sem við berum okkur nú gjarnan saman við og vafalaust einhverjar reglur til sem við getum sótt upplýsingar í til að setja skýrari ákvæði um þetta hjá okkur og framfylgja þeim síðan að sjálfsögðu.