Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:28:48 (4850)

1998-03-18 14:28:48# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:28]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það væri fróðlegt fyrir okkur sem erum á okkar fyrsta kjörtímabili að fá að vita hvort það er viðurkennd venja, hér á hinu háa Alþingi, að ráðherra ákveði sjálfur hvort þær ákvarðanir sem þingið samþykkir komi til framkvæmda eða ekki. Er það viðtekið að ef ráðherra þyki óskynsamlegt að athuga mál, enda þó Alþingi hafi samþykkt svo, þá sé það ráðherrann sem ræður. Þetta hlýtur að vera einsdæmi. Þetta er mjög sérkennilegt, herra forseti.

Ég fæ ekki séð að þau rök sem ráðherrann færir fram, t.d. að til hafi staðið að breyta lögum, geti verið gild í þessu máli. Hér er einlægt verið að breyta lögum og lagaumhverfi þeirra ungmenna sem þurfa að stunda nám fjarri sinni heimabyggð, breytist árlega að ýmsu leyti. Þetta geta ekki verið frambærileg rök og við eigum ekki að samþykkja þau. Ef menn koma hér og segja: Þetta er bara allt í lagi eins og mér heyrist að stjórnarliðar hafi tilhneigingu til að gera, þá eru menn í rauninni að samþykkja það að ráðherrar fari með þau mál sem hér eru samþykkt nákvæmlega eins og þeim sýnist. Það er ekki boðlegt, herra forseti.