Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:45:55 (4876)

1998-03-18 15:45:55# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:45]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur verið deilt um það í Reykholtsdalshreppi og í Borgarfjarðarhéraði hvar vegarstæði Borgarfjarðarbrautar á milli Flókadalsár og Kleppjárnsreykja skuli vera. Þetta hefur m.a. valdið því að skipulagsyfirvöld á svæðinu hafa ekki gert formlega skipulagstillögu um vegstæði sem er þó forsenda þess að framkvæmdir við vegagerðina geti hafist.

Við gerð svæðisskipulags fyrir héraðið var samstaða meðal sveitarfélaga á svæðinu um að gera ekki tillögu um vegarstæði en óska eftir staðfestingu svæðisskipulagstillögunnar á þeim grundvelli. Síðan óskaði Reykholtsdalshreppur eftir að skipulagsstjórn gerði tillögu um vegarstæði þegar svæðisskipulagið var afgreitt til umhvrh. til staðfestingar fyrir síðustu áramót eins og hefur reyndar komið fram.

Skipulagsstjórn varð við þessu og gerði tillögu um breytingar á svæðisskipulagi sem svæðisskipulagsnefndin hafði í raun hafnað og það án þess að bera undir sveitarfélögin. Hæstv. umhvrh. hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa frestað staðfestingunni á vegarstæðinu og vísað málinu heim í hérað. Að mínu mati er niðurstaða umhvrh. eðlileg enda er hún byggð á heimildum í skipulags- og byggingarlögum og eftir ráðgjöf Skipulagsstofnunar.

Á hinn bóginn geta menn deilt um niðurstöðuna enda sýnist sitt hverjum í málinu. Það sem mér finnst athyglisvert í þessu sambandi er hvernig skipulagsstjórn og síðar Skipulagsstofnun hafa komið að málinu með mjög misvísandi hætti.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er landið allt skipulagsskylt og sveitarstjórnir bera ábyrgð á að gert sé aðalskipulag þar sem m.a. skal setja fram stefnu um samgöngu- og þjónustukerfi í sveitarfélaginu. Eftir að hafa skoðað málið hefur Vegagerðin lagt til að sveitarstjórnin auglýsi aðalskipulagstillögu um veglínuna sem fyrst og hefur sveitarstjórn sem skipulagsyfirvald ákvörðunarvald um það hvernig sú tillaga lítur út. Einnig að Vegagerðin óski eftir heimild sveitarstjórnar til byggingar brúar yfir Flókadalsá og byggir það á 3. tölulið bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga.

Herra forseti. Það mál sem er til umræðu hefur margar hliðar og sú versta þeirra er deilan sem ríkir innan sveitar því hún hefur leitt af sér óæskileg áhrif á samfélagið í héraðinu. Þegar niðurstaða um vegarstæði liggur fyrir munu framkvæmdir við nauðsynlega uppbyggingu vegarins hefjast enda er gert ráð fyrir því í vegáætlun og er það von mín að það verði sem allra fyrst.