Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:51:10 (4878)

1998-03-18 15:51:10# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:51]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Vegna þess sem hefur komið fram taldi ég nauðsynlegt að taka aftur til máls en hér var látið að því liggja að nú bæri sveitarstjórn Reykholtsdalshrepps að hefja vinnu við aðalskipulag til þess að hægt væri að ljúka málinu lögformlega með gerð aðalskipulags.

Ég hef verið í þeirri trú og ég held að það hafi einnig átt við um sveitarstjórnarmenn að menn væru að vinna að undirbúningi málsins með gerð svæðisskipulags og það komi mjög aftan að mönnum ef nú er gerð sú krafa úr umhvrn. að menn byrji algerlega upp á nýtt og undirbúi aðalskipulag eins sem hér var látið að liggja. Ég tel að það vanti hvorki skipulagsvinnu, rannsóknir né undirbúning í sambandi við málið. Það þarf ákvörðun. Það þarf að kveða upp salómonsdóm þannig að málið verði leyst.

Við þekkjum hverjir hafa það í höndum sínum að kveða upp úrskurð og hafa forgöngu um að hægt sé að kveða upp úr og leysa málið. Það er gert í Stjórnarráðinu og ég tel mjög ósanngjarnt að segja núna að þetta mál eigi að fara heim í sveit aftur. Það hefur verið unnið svo lengi og vel að málinu að það liggur allt á borðinu annað en það að taka ákvörðun um að hefja framkvæmdir.