Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:54:39 (4880)

1998-03-18 15:54:39# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Í þessu máli er mikið talað um málsmeðferð, staðfestingar eða ekki staðfestingar og að byrja þurfi upp á nýtt. En það er tvennt sem mér finnst gleymast í umræðunni. Það er í fyrsta lagi réttur einstaklingsins, í þessu tilfelli bóndans, sem á von á því að fá veginn um hlaðið hjá sér. Hversu langt má hið opinbera ganga á hlut þessa einstaklings, þessa einstaklings sérstaklega og einstaklinganna almennt?

Í öðru lagi: Hver er staða fáliðans gagnvart meiri hlutanum, sem í þessu tilfelli eru íbúar Flókadals sem eiga samgöngur sínar undir legu þessa vegar? Það verður mjög athyglisvert fyrir okkur þingmenn þéttbýlisins, þingmenn meiri hluta þjóðarinnar, að fylgjast með því hvernig íbúar í dreifbýlinu taka á vandanum, hvernig meiri hluti í sveitarfélagi í dreifbýlinu tekur á vanda minni hlutans, vanda fáliðans, íbúa Flókadals sem eiga samgöngur sínar undir þessum veg.