Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:49:19 (4892)

1998-03-19 10:49:19# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að margt hefur færst til hins betra í störfum þingsins og störfin eru betur skipulögð en áður. Það verður hins vegar ekkert hjá því komist að mál komi fram á síðustu stundu fyrir þær dagsetningar sem hafa verið settar fram í sambandi við þingstörfin, og það hefur verið gert núna. Hér áður fyrr var þetta mun verra.

Ég ætla ekki að fara í neinn samanburð í þeim efnum en það er hins vegar nauðsynlegt að mönnum sé það ljóst að ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að koma fram með mál á ýmsum tímum, þó að ég taki undir að auðvitað væri það æskilegt og í reynd nauðsynlegt að þau komi fram sem allra fyrst. En það er nú einu sinni svo að stjórnsýsla landsins er fremur smá að vöxtum og það gengur oft illa að ljúka málum á tilsettum tíma, hvort sem það er nú eða áður.

Það er fullur vilji af hálfu ríkisstjórnar og ásetningur hennar að vinna að því að þingstörfum geti lokið á þeim degi sem tilnefndur hefur verið. En það er jafnframt ásetningur ríkisstjórnarinnar að ljúka þeim málum sem ríkisstjórnin telur algjörlega nauðsynlegt að ljúka fyrir vorið. (Gripið fram í: Hver eru þau?) Þau eru allmörg og ég reikna með því að við förum ekki að ræða það í þingsalnum. Það er nauðsynlegt að fara yfir það af formönnum þingflokka. Þar á meðal eru húsnæðismál. Þar á meðal eru skattamál sem eru ekki mjög flókin mál. Þau frv. sem liggja nú fyrir um skattamál eru tiltölulega mjög einföld.