Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:28:52 (4932)

1998-03-19 14:28:52# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. er mér alveg sammála um að vestrænar aðferðir við að byggja upp efnahagslífið í Rússlandi munu virka og það er gott að hann er kominn á þá skoðun að hið rússneska alræði mun aldrei geta bjargað neinu ríki með nokkru móti þannig að ég fagna yfirlýsingum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er að sjálfsögðu eins og hann kom inn á, og ég reyndar áðan líka, við ramman reip að draga og auðvitað hafa menn ekki gert sér alveg grein fyrir því hve mikið verkefni var þarna fram undan.

[14:30]

Erfiðasta verkefnið er í dag að byggja upp rússneska herinn sem er að verða eitthvert hættulegasta fyrirbærið sem við horfum upp á í fyrrum Sovétríkjunum. Öll hertæki Rússlands eru að grotna niður. Hermenn fá ekki greidd launin sín og leiðast út í spillingu, sölu á tækjum, búnaði og jafnvel kjarnorkuvopnum til hryðjuverkasamtaka. Það sem menn eru hvað hræddastir við nú er að slík vopn gætu hugsanlega komist frá Rússlandi til hryðjuverkahópa við Miðjarðarhafið og í Evrópu sem yrðu miklu hættulegri en þau ríki og ríkisstjórnir sem við höfum verið að hafa áhyggjur af fram að þessu. Ég hygg því að þrátt fyrir að Vesturlönd hafi jafnvel gert mistök í aðstoð sinni við Rússa þá hafi þó jákvæð skref verið fleiri en skrefin aftur á bak og þau séu í rauninni forsendan fyrir því hversu þetta er þó komið langt þrátt fyrir allt og við eigum eftir að sjá miklu meira.