Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:31:18 (4933)

1998-03-19 14:31:18# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Össur Skarphéðinsson varaformaður utanrmn. var talsmaður okkar jafnaðarmanna í þessari umræðu og hélt sína ágætu ræðu í morgun. Ég kem hér til þess að taka þátt í umræðu um mjög mikilvægt mál, en vel sjálf að koma með hugleiðingar varðandi umræðuna um Atlantshafsbandalagið og hvað það stendur fyrir í hugum fólks.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er ekkert hissa á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar miðað við viðhorf hans og hans flokks. Auðvitað er sterkt að tefla fram kostnaðinum við NATO og kostnaðinum við stækkun þess og bera það saman við aðgerðir til að bæta lífskjör hjá bágstöddum þjóðum. Það er ekkert hægt að bregðast við þannig málflutningi vegna þess að þegar nefndir eru milljarðar dollara og maður sér þá fyrir sér í hjálparstarfi þá getur maður ekki annað en viðurkennt að hver milljarður dollara í hjálparstarfi væri afskaplega þýðingarmikill. En þessa umræðu þekkjum við frá öðrum samanburði okkur nær af ýsmum toga þegar við sjálf segjum: ,,Væri ekki nær að nota þetta fyrir einhverja hér heima``, þegar við af veikum mætti leggjum eitthvað af mörkum til annarra þjóða.

Það má líka spyrja hvort þingmenn hér telji að svo sé komið að við getum lagt niður Atlantshafsbandalagið í ljósi einhvers stöðugleika þrátt fyrir yfirlýsingar um óstöðugleika í okkar heimshluta og jafnvel ógnarástands sums staðar eins og komið hefur fram í þessari umræðu í morgun.

Mig langar líka aðeins, um leið og ég ræði um stöðu Atlantshafsbandalagsins í dag, að ræða um þetta nafn sem hefur fylgt því. Það hefur auðvitað oftast nær verið nefnt NATO bæði hér hjá okkur og nágrannaþjóðunum, almennt í Evrópu og annars staðar. Orðið NATO hefur í gegnum tíðina verið bundið átökum og kaldastríðsjafnvægi í Evrópu. Orðið NATO hefur verið bundið varnarbandalagi og stríðsbandalagi, vissulega með þátttöku Bandaríkjanna sem með aðild sinni gáfu samtökunum mikla þungavigt.

Nú er alveg ljóst að viðhorfið til vægis í Evrópu hefur verið að breytast. Fólk horfir ekki lengur á Evrópu eina heldur er heimurinn allur undir, ekki heimshlutar heldur heimurinn. Og þróunin í Evrópu frá 1989 þegar múrinn féll hefur verið eftirtektarverð og það er alveg ljóst að múrinn er í raun að falla í gleymsku og verða partur sögunnar aðeins átta til níu árum síðar.

En við skulum spyrja okkur að því hvað felist í því að skapa öryggi fyrir einn heimshluta. Er það að skapa öryggi fyrir einn heimshluta eitthvað sem veldur óöryggi fyrir önnur svæði? Þessi umræða kom m.a. fram á málþingi forsætisnefndar Norðurlandaráðs fyrir skömmu og í þessari mjög athyglisverðu umræðu tóku þátt tveir gestir frá Svíþjóð og Noregi, sérfræðingar í öryggismálum.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í morgun hvað væri að gerast í öðrum heimshlutum og hann varpaði fram ýmsum spurningum og fróðlegt væri að reyna að átta sig á því hvernig starf Atlantshafsbandalagsins snýr að öðrum heimshlutum í dag.

Það er alveg ljóst að bandalagið hefur verið að breytast. Þar má nefna Partnership for Peace, eða Friðarsamstarfið sem er orðið mjög mikilvægur þáttur í breyttri starfsemi bandalagsins. Ég hlýt að spyrja: Þorum við að trúa því að sá þáttur eigi eftir að verða ráðandi en vígbúnaðarþáttur víkjandi hjá þessu bandalagi þjóða sem vilja láta gott af sér leiða? Þetta hefur verið varnarbandalag til að afstýra því að sú ógn komi yfir okkur sem við sjáum sífellt hvolfast yfir aðrar þjóðir og við getum horft á það róleg heima í stofu í okkar sófa.

Ég vil trúa því að smátt og smátt þróist friðarsamstarfið og verði hið vaxandi afl í þessu samstarfi. Það er athyglisvert að t.d. í Svíþjóð hefur það verið svo í gegnum árin að varla hefur verið minnst á NATO öðruvísi en í neikvæðri umræðu. Þetta vitum við sem fylgjumst með í gegnum fjölmiðla. Í dag á sér stað opin umræða í Svíþjóð um NATO og starfsemi þess. Þetta er gífurleg breyting og hvers vegna nefni ég hana? Jú, vegna þess með hvaða viðhorfi Svíþjóð hefur þróað sín varnarmál. Svíþjóð hefur viljað standa eitt og sér, hlutlaust og utan við slíkt varnarsamstarf.

Því var líka velt upp á þessari ráðstefnu sem ég var að vísa til, einmitt varðandi breytingarnar á Atlantshafsbandalaginu og væntingar til þess í dag, hvort þessi breyting og viðhorfið til bandalagsins væri e.t.v. orðið enn jákvæðara ef nafni þess hefði verið breytt 1990. Þetta er mjög áhugavert sjónarmið. Gæti verið að neikvæðni felist í orðinu NATO? Hefði e.t.v. verið sterkt að breyta nafninu þegar menn fóru að snúa sér að öðrum verkefnum árið 1990, breyta eðli samstarfsins og þróa það? Hefði viðhorfið til þess í mörgum löndum þá orðið enn jákvæðara?

NATO hefur í auknum mæli tekið þátt í friðaraðgerðum og þær hafa skipt máli, en svo er annað mál hvort sumar friðaraðgerðir beri það nafn með réttu, t.d. aðgerðirnar í Bosníu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að í mörgum löndum starfa friðarsveitir. Friðarsveitir eru sendar á vettvang til hjálpar, stundum af Sameinuðu þjóðunum og stundum af öðrum, á staði þar sem ástandið er ótryggt. Fólk sér að þessar sveitir, skipaðar ungu fólki úr löndum sem ekki heyja stríð, fara ekki á vettvang til að miða byssu á mann. Þrátt fyrir það blasir sú mynd við þegar við horfum á friðarsveitirnar að störfum að allir einstaklingarnir verða að bera byssu um öxl. Stundum ríkir því nokkur tvöfeldni í huga okkar í afstöðunni til þeirra sem eru að störfum á þessum vettvangi.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að nefna Sameinuðu þjóðirnar sem eru viðurkennd friðarsamtök þjóða og ætlað að auka skilning á milli og efla samkennd þjóða um allan heim. Frá þessum sterku þjóðarsamtökum eru bönd bæði til NATO og ÖSE og þessi friðarsamtök hafa fengið NATO í hendur verkefni eða aðgerðir til að varðveita frið í ýmsum löndum. Þetta er mjög athyglisvert og við eigum ekki að líta fram hjá þessu, en þetta hefur reyndar sums staðar verið gagnrýnt.

Utanrrh. velti upp spurningu hér áðan í sinni framsögu og spurði hvort stækkun mundi veikja bandalagið. Hann nefndi neikvæða afstöðu Rússlands en jafnframt að Rússland væri aðili að Sameinuðu þjóðunum og ÖSE og fleiri alþjóðastofnunum sem NATO-starfseminni tengjast. Ég held að okkur beri skylda til að líta til þess að NATO stendur ekki eitt og sér eins og eyja í einhverju starfi heldur tengist NATO þýðingarmiklum samtökum eins og Sameinuðu þjóðunum og ÖSE, samtökum sem t.d. Rússland er tengt. Það er reyndar alveg óráðið í dag hvernig samskipti NATO og Rússlandsráðsins þróast, þ.e. samstarfsráði Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Eigum við ekki að vona og vinna að því að það samstarf geti orðið sterkt friðar- og uppbyggingarafl?

Á árum áður var talað um Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið og jafnvægið þar á milli sem hin tvö stóru öfl. Sá tími er liðinn. Nú fyllumst við skelfingu og stöndum vanmáttug gagnvart átökum og ástandi í fjarlægum heimshlutum. Nú síðast í Írak. Reyndar var athyglisvert að á síðustu stundu tókst stórþjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Frakklandi og fleirum að ná árangri eftir diplómatískum leiðum.

Össur Skarphéðinsson talaði í morgun og eins og ég hef þegar nefnt var hann talsmaður þingflokks jafnaðarmanna. Hann talaði um stöðuna á Balkanskaga og að við í Evrópu vorum hjálparþurfi til að ráða við átökin þar. Það er svo auðvelt að gleyma fljótt að Evrópa ræður ekki við svona stór mál ein og sér. Ég tek undir orð Össurar Skarphéðinssonar að við erum stuðningsmenn og málsvarar smáþjóða. Það er farsælt að þrjár smáþjóðir, sem kusu það, fá nú aðild að Atlantshafsbandalaginu, jafnvel þó að aðrar þjóðir sem kusu það líka fái ekki aðild nú. Þetta er skref sem ber að styðja þó að ég hefði viljað sjá fleiri komast að í þessari umferð. Við Íslendingar eigum að beita okkur í þágu Eystrasaltsþjóðanna eins og gert var í Madrid. Þó að stuðningur okkar dygði ekki til að þau fengju aðild þá eigum við að halda áfram stuðningi við þessi lönd og aðrar smáþjóðir. Ég spyr þingmenn hvað þeim finnst um það að aðild Eystrasaltsþjóðanna að Atlantshafsbandalaginu nú réðst ekki af vilja þessara þriggja landa, eins og rætt var hérna í morgun, heldur af vilja stóra nágrannans í austri sem beitti sér gegn þeim.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt hvort samstarf í Evrópu almennt geri hættu á átökum minni og það er líka sannfæring mín, en jafnframt að vinasambönd milli þjóða af öllu tagi eru mjög þýðingarmikil og sérstaklega öll ungmennasamskipti á milli þjóða, bæði í Evrópu og víðar. Ég á von á að samhliða því að þau samskipti aukast, og Evrópusambandið leggur mikla áherslu á slík samskipti, þá eigum við eftir að efla þennan skilning út fyrir okkar heimshluta.

Ég spyr líka, virðulegi forseti, vegna umræðunnar hér: Af hverju erum við ekki komin lengra? Af hverju náum við því ekki núna þegar aldamótin 2000 nálgast, að leysa árekstra eftir diplómatískum leiðum? Við getum spurt okkur að því og mörg okkar hefðu trúað því að við værum betur stödd á þessu sviði áður en t.d. hið erfiða ástand á Balkanskaga varð staðreynd. Vígbúnaður kostar mikið fé og erfitt er að sjá, eins og hér hefur verið bent á, hvar vopnaiðnaðurinn kemur inn í myndina og hverju hann ræður. Þó að ég sé stuðningsmaður NATO, þá tek ég hiklaust undir það að ég hef áhyggjur af því að vald vopnaiðnaðarins sé nokkurt. Ég held að við eigum þora að ræða það alveg opið til að reyna að minnka það vald sem vopnaiðnaðurinn hugsanlega hefur.

Nú er verið að hervæða hópa hér og þar á vegum ólíkra aðila, hópa sem ekki er ætlað að verja sitt heimasvæði eins og við þekktum að var pólitíkin áður og fyrr. Hið hefðbundna í gamla daga var að ríki vörðu sig, landsvæði stóðu saman til að verja sig gagnvart öðru stærra eða sterkara afli.

[14:45]

Nei, þessa hópa á að senda á vettvang annað þegar svo ber undir og við gerum okkur ekki alveg grein fyrir því hverjir munu hafa það vald til að senda hópa annað og hverjir eiga að stjórna því hvenær hópur er sendur annað. Hver hefði tekið ákvörðun um það að slíkur hópur hefði verið sendur inn í Írak t.d.?

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók það fram að jafnaðarmenn styðja þessa tillögu um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Ég staðfesti og tek undir það. Það eru 12 ríki sem sækjast núna eftir aðild og við hljótum að virða að þau lönd vilja eiga skjól í stofnsáttmála sem segir að árás á einn sé árás á alla, að þjóðir telja að betra sé fyrir þær að vera með í þessum hópi en utan hans. Við skulum líka muna að varnarbandalag er með tilveru sinni vörn í sjálfu sér og við verðum líka að þorfa að horfast í augu við það.

Í Norðurlandasamstarfinu er mjög litið til Eystrasaltslanda og landanna í suðaustri. Okkur í vestnorðri finnst stundum nóg um en vandamálin þar eru mörg og stór, ekki síst í umhverfismálum sem í dag eru stærstu utanríkismál samtímans.

Eystrasaltslöndin horfa til Norðurlandanna. Þau leita stuðnings þar og náið samstarf hefur þróast milli Norðurlandaráðs og baltneska ráðsins. Hér hefur verið talað um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að sumar þeirra fái ekki þó þær vilji. Það á við um Eystrasaltslöndin og ég er leið yfir því að við ráðum ekki sem skyldi í stuðningi við þau.

Það hefur líka verið rætt, virðulegi forseti, að kostnaðurinn við stækkun NATO sé 1,5 milljarðar Bandaríkjadala. Ég tek undir að þetta eru miklir peningar. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvað sá kostnaður miðist við mörg lönd. Á þessi kostnaður einkum við stækkunina með þessum þremur löndum eða er verið að tala þarna um stækkun í framtíðinni af því að þó að ákvörðunin eigi við þrjú lönd, þá er líka komin ákvörðun um að ræða við fleiri og stækkunin verði meiri. Þetta er há fjárhæð þó segja megi að ekkert sé of dýrt ef tekst að afstýra hörmulegum stríðsleikjum valdablokka og tryggja frið. Mínar væntingar eru að friðarsamstarfið verði æ meira ráðandi og í framtíðinni takist að ná árangri fyrst og fremst eftir diplómatískum leiðum og án átaka.