Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:34:24 (4945)

1998-03-19 15:34:24# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski hefði mátt geta sér þess til úr hvaða flokki viðkomandi hv. þm. talaði en það mátti skilja á þingmanninum að það þyrfti að fara varlega en jafnljóst er að markmiðið, og það hafa margir tekið undir og raunar hæstv. utanrrh. einnig, væri að fjölga í hópnum, ná Eystrasaltsríkjunum sem fyrst inn, það hefur verið mikið áhersluatriði og bæta síðan við þannig að stefnan er greinilega þessi að færa Atlantshafsbandalagið sem næst ef ekki alveg á heilu línunni að landamærum Rússlands þar sem standa þá frammi hvort gegn öðru tvö kjarnorkuherveldi.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að það gæti skipt sköpum fyrir öryggismál í Evrópu ef menn veldu annan kost en þennan, þ.e. stía sundur þessum kjarnorkuherveldum og ég er ekki í vafa um að slíkt belti, kjarnorkuvopnalaust belti um álfuna þvera frá norðri til suðurs, mundi bæta andrúmsloftið til lengri tíma milli austurs og vesturs, ef við notum þau hugtök um Rússland þó gömul séu, þ.e. að draga úr tortryggni Rússlands í sambandi við þessi mál með allt öðrum hætti en verður ef þessari stefnu verður framfylgt.