Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:28:58 (4955)

1998-03-19 16:28:58# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:28]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra hvað það varðar að að sjálfsögðu er mikilvægt að við reynum að auka okkar framlag á öllum þessum sviðum sem undir þetta falla, þ.e. allt frá neyðaraðstoð og fyrstu hjálp gegnum hjálparstarf og aðstoð af því tagi sem er kannski á ákveðnu millibilsstigi, eins og nú er háttað í Bosníu, og síðan yfir í þróunaraðstoð þegar mesta neyðin er að baki en fram undan er það verkefni að byggja upp og skapa mannsæmandi aðstæður á nýjan leik í löndunum. Þetta er auðvitað nátengt og ekki alltaf auðvelt að greina þarna á milli. Ég fagna því auðvitað að Íslendingar hafa verið að gerast virkari þátttakendur á ýmsum sviðum þar sem við getum að sjálfsögðu lagt heilmikið af mörkum. Við eigum vel menntað fólk í heilbrigðisstéttum og við höfum á einstökum sviðum, eins og t.d. í gerð og framleiðslu hjálpartækja, sérstaklega gervilima í gegnum brautryðjandastarf fyrirtækisins Össurar, náð mjög langt og getum lagt heilmikið af mörkum.

[16:30]

Og að allra síðustu, herra forseti, af því ég hef stundum lent í að gagnrýna hæstv. utanrrh. fyrir ferðalög, fyrirhuguð a.m.k., þá vil ég hrósa því sem vel er gert. Mér fannst vænt um að hæstv. ráðherra skyldi fara til Bosníu og kynna sér þar af eigin raun það ástand sem þar er við að glíma. Það er einmitt frammistaða af því tagi sem ég vil sjá íslenska ráðamenn verða þekkta fyrir, þ.e. að hafa enga minnimáttarkennd gagnvart því að við eigum auðvitað að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu á því formi að við kynnum okkur málin og séum á vettvangi þar sem tilefni eru til og reynum að leggja okkar af mörkum og mér fannst það ánægjulegt og rétt ákvörðun af hæstv. ráðherra að fara þangað, þótt ég hafi stundum leyft mér að gagnrýna önnur ferðaplön sem ég taldi ekki jafnskynsamleg.