Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:32:42 (5006)

1998-03-23 15:32:42# 122. lþ. 92.1 fundur 270#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég gleðst yfir að hv. þm. skuli rifja upp alla þá hagsæld sem hlýst af framkvæmdum í Hvalfirði en ætla ekki að hafa fleiri orð um það, heldur snúa mér beint að því að svara þeim spurningum sem hv. þm. bar fram. Í fyrsta lagi hvað varðar umhverfismat þá er það ljóst og hefur legið fyrir frá upphafi og frá því málið var hér fyrst til umræðu, að í upphaflegum aðalsamningi um byggingu járnblendiverksmiðju á Grundartanga er gert ráð fyrir að verksmiðjan geti orðið þrír til fjórir ofnar að stærð. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum, bráðabirgðaákvæði með þeim lögum, er gert ráð fyrir að ekki þurfi að fara fram umhverfismat á þeim framkvæmdum sem tekin hefur verið ákvörðun um eða gefin fyrirheit um að ráðist skyldi í. Stjórnendur verksmiðjunnar á Grundartanga eru með bréf frá umhvrh. um að ekki þurfi að fara fram umhverfismat á þessum ofnum.

Þá spurði hv. þm. hvað liði útgáfu starfsleyfis. Tillaga að starfsleyfi liggur núna tilbúin í Hollustuvernd ríkisins og mun fara til kynningar eða auglýsingar samkvæmt því sem lög um það gera ráð fyrir, á næstu dögum eftir því sem ég best veit.

Þriðja spurningin sneri að samráði við samtök í Hvalfirði sem kalla sig Sól í Hvalfirði. Ég veit að ekki þarf að minna hv. þm. á að við hátíðlega athöfn ekki alls fyrir löngu gengu fulltrúar Sólar, sveitarfélaganna við Hvalfjörð, Járnblendifélagsins og Norðuráls á Grundartanga ásamt iðnrh. og umhvrh. frá víðtæku samkomulagi um umhverfismál í Hvalfirði. Að þessu stóðu allir þeir sem höfðu hæst um stór slys sem menn töldu að gætu hlotist af stækkun álvers. Ekkert af þessu er núna í umræðunni sem betur fer og þeir aðilar sem hæst höfðu hafa nú gengið fram fyrir skjöldu um að gera þetta samkomulag. Ánægjan er svo mikil í þessu að halda á sérstakan umhverfisdag Sólar í Hvalfirði og þeirra aðila sem að þessu standa.