Staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:16:46 (5023)

1998-03-23 16:16:46# 122. lþ. 92.93 fundur 277#B staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Mér sýnist einsýnt að deiluaðilar nái ekki saman og þegar til þess er litið að nú er nærri 19 eða 20 mánaða ferli lokið, og ný lög um stéttarfélög og vinnudeilur hafa tekið gildi, að svo langur aðdragandi skuli vera að svokallaðri viðræðuáætlun sem engan árangur hefur borið. Þótt ég sé ekki talsmaður laga þá sýnist mér einsýnt að að því stefni að nú þurfi að grípa til þeirrar óvenjulegu málsmeðferðar að setja lög á útgerðarmenn.

En hvernig skyldi það nú verða gert? Það þarf auðvitað að fara fram með þeim hætti að það sem nú þegar hefur á unnist og á undan er komið í þessum kjarasamningum verði þar inni ásamt því að þær eðlilegu grunnkaups- og kjarahækkanir sem almennt hafa gerst í landinu á umliðnum árum en ekki hafa náð til sjómanna séu auðvitað þar inni. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta mál er nokkuð flókið og margsnúið.

En vandinn er nákvæmlega sá sami sem blasir við þjóðfélaginu hvort sem það eru útgerðarmenn eða sjómenn sem stoppa flotann, eins og réttilega var komið inn á áðan. Þarna er á jöfnu. Virðulegi forseti. Mér sýnist að það verði verk að vinna fyrir Alþingi á næstu sólarhringum.