Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:14:33 (5041)

1998-03-23 18:14:33# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ber að skilja það svo að hæstv. ráðherra viti ekki hverjir standa að baki tilboðinu sem tveir stjórnarmenn í bátaábyrgðarfélaginu, sem hann nefndi, hafa sett fram?

[18:15]

Ég spurði hæstv. ráðherra hversu margir starfsmenn stæðu þarna að baki vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að taka ákveðið tillit til þess þegar starfsmenn gera tilboð eins og þetta. Þess vegna langar mig að vita ef hæstv. ráðherra getur svarað því, hvort þarna er um að ræða örfáa starfsmenn eða hvort þarna er um að ræða hátt hlutfall, kannski alla starfsmenn sem að málinu koma. Ég held að það skipti máli.

Í öðru lagi, herra forseti, segir hæstv. ráðherra að vikið sé frá verklagsreglum um útboð þegar um er að ræða sölu ríkiseigna, að því er ég skildi mál hæstv. ráðherra, vegna þess að þarna hefði verið gert tilboð fyrir hönd starfsmanna og það hangir aftur í fyrri athugasemd minni: Hvað er um marga starfsmenn að ræða og hvað vega þeir þungt í þessu tilboði?

Í þriðja lagi, herra forseti, sýnist mér að hér sé komið fordæmi sem ég út af fyrir sig er hlynntur. Fordæmið felst í því að ef starfsmenn hjá ríkisfyrirtæki gera tilboð um að kaupa fyrirtækið af hæstv. ríkisstjórn þá hljóti þeir hér eftir að fá a.m.k. samningaviðræður og þar með sýnist mér að ekki sé ósanngirni af mér að halda því fram að verklagsreglur og stefna hæstv. ríkisstjórnar um útboð á ríkiseignum séu fallnar um sjálfar sig samkvæmt þessu fordæmi.