Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:39:47 (5045)

1998-03-23 18:39:47# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hefja umræðu um þetta mál yfirleitt, vegna þess að það hefur orðið til þess að ýmislegt hefur afhjúpast í tengslum við þetta frv. sem lá í þagnargildi í framsögu hæstv. ráðherra, kannski af eðlilegum ástæðum, og ekki hægt að ætlast til þess að hann græfi undan eigin málflutningi með því að rekja þau vandamál sem eru í farvatni þessa máls sem bersýnilega liggja núna fyrir. Það sem kemur fram með öðrum orðum, herra forseti, er náttúrlega í fyrsta lagi það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson á sæti í endurskoðunarnefnd á Samábyrgðinni. Það kemur í ljós að þrátt fyrir það heyrir hann í útvarpi að verið sé að vinna í málinu með tilteknum hætti. Og svo er því lýst yfir af sjálfum ráðherranum úr ræðustól á Alþingi að hv. þm. hafi ekki verið í nefndinni og ekki komið nálægt þessu frv. sökum anna. Einhvern tíma hefði þetta nú verið kallað brottrekstur úr ræðustól á Alþingi, og ég held að þannig verði að líta á að hv. þm. hafi bara --- eða geti litið þannig á að hann hafi verið leystur frá störfum með þessari sérkennilegu ræðu hæstv. ráðherra áðan.

Í öðru lagi er þetta þeim mun furðulegra þegar fyrir liggur að einn af þingmönnum stjórnarliðsins, þessi sami þingmaður, er formaður stærsta bátaábyrgðarfélagsins og er þar af leiðandi lykilmaður í þessu máli, algjör lykilmaður í málinu. Út af fyrir sig veltir maður því fyrir sér hvernig mál eru afgreidd á þingflokksfundum Sjálfstfl., ekki bara af þessu tilefni heldur mörgum öðrum. Þar hlýtur margt að vera skrýtið, ég verð að segja það, þegar kemur upp mál af þessu tagi þar sem það er alveg ljóst að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er lykilmaður úr tveimur áttum á þessu stóra máli.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að rifja það upp, herra forseti, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði áðan, að Samábyrgð Íslands á fiskiskipunum, sem á sér mjög merka sögu, er í raun og veru ákaflega heppilegt samstarf á endurtryggingarkerfi bátaútvegsins á Íslandi. Við höfum haft þá stefnu um árabil og áratuga skeið að viðhalda þessu kerfi fyrir bátaábyrgðarfélögin, nema þá þau sjálf hafi tekið ákvörðun um annað. Þannig minnir mig að það hafi verið með bátaábyrgðarfélagið í Vestamannaeyjum að það hafi í raun og veru sjálft óskað eftir því að verða leyst upp og gekk síðan inn í annað tryggingafélag, þ.e. Tryggingamiðstöðina, er mér tjáð.

En hér er í raun og veru farin allt önnur leið. Ég hygg að skýringin á þessu sé upphaflega kannski að einhverju leyti í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég man ekki betur en að lagt hafi verið fyrir Alþingi frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem beinlínis hafi verið gert ráð fyrir, að ég held 150 eða 200 millj. kr. kæmu í tekjur af því að selja Samábyrgðina með þeim hætti sem hér er lagt til. (Gripið fram í.) Þetta frv. var lagt fyrir í lok nóvember eða byrjun desember á sínum tíma og það var í raun stjórnarandstaðan á þeim tíma sem stöðvaði það og taldi ófært að ganga frá þessu máli á svona stuttum tíma. Og það endaði með því að samábyrgðarkaflinn, sem var dálítill kafli í þessu frv., var tekinn út. Hann var tekinn út og þetta mál var ekki afgreitt.

Síðan gengur þessi draugur aftur á þennan hátt og verður að segja alveg eins og er að það er ákaflega sérkennilegt. Og auðvitað hef ég hæstv. ráðherra grunaðan um það að menn ætlist ekki endilega til þess að málinu verði lokið hér af því að stutt er eftir af þinginu, ég held að menn séu kannski að uppfylla einhverja samninga innan ríkisstjórnarinnar án þess að menn meini allt of mikið með því að leggja þetta fyrir þingið með þeim hætti sem hér er gert.

Hitt er síðan umhugsunarefni, herra forseti, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gagnrýndi sérstaklega áðan, og það er að tekið skuli vera fram fyrir hendurnar á bátaábyrgðarfélögunum á þennan hátt. Það eru miðstýrðar ákvarðanir ofan frá sem í rauninni eru teknar með þeim hætti sem hér er gert og er auðvitað sérstaklega gagnrýnivert. Þetta minnir mann í rauninni ekki á neitt annað en frv. um að slíta Brunabótafélaginu. Því að það eru nákvæmlega sömu aðfarirnar, að Alþingi eigi í raun og veru að rifta fyrirkomulagi sem fólk er tiltölulega mjög sátt við að hafa. En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem kann að meta gildi samstöðunnar að því er varðar bátaábyrgðarfélögin, flytur síðan annað frv. um að rjúfa samstöðuna að því er varðar Brunabótafélagið og er þar með ekki sjálfum sér samkvæmur, að beita ofríki valdsins gagnvart þeim sem eiga Brunabótafélagið. En það mál er á dagskrá á eftir eins og hv. þm. hefur nefnt.

Þess vegna fagna ég ummælum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í þessu máli og fylgi honum í málinu og ég vona að þetta frv. verði ekki að lögum. Þetta er vitleysa eins og það er, og það er illa að því staðið, herra forseti.