Seðlabanki Íslands

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 19:25:37 (5061)

1998-03-23 19:25:37# 122. lþ. 92.21 fundur 581. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankaeftirlit, EES-reglur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[19:25]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það væri vissulega tilefni til að ræða löggjöf um Seðlabanka Íslands. Ég kýs hins vegar að gera það ekki núna. Þetta frv. er náttúrlega hvorki fugl né fiskur en hins vegar fylgifrv. með öðru frv. sem tengist eftirliti á fjármagnsmarkaði og örfáar aðrar greinar sem verða leiðréttar hér. Þetta er auðvitað ekki sú nauðsynlega heildarendurskoðun sem þyrfti að eiga sér stað um löggjöf um Seðlabanka Íslands en sú umræða verður að bíða betra tækifæri.

Hins vegar vildi ég spyrja hæstv. ráðherra í tilefni af umræðu sem varð fyrir nokkrum dögum um vaxtamál. Þá spurði hv. þm. Svavar Gestsson ráðherra hvort hann mundi vilja stuðla að því að það yrði aðeins einn bankastjóri Seðlabankans. Tilefnið var það að bankaeftirlitið yrði fært frá Seðlabankanum og það yrði komið að skipun nýrra manna og hæstv. ráðherra svaraði því til að ekki stæði til að breyta seðlabankalögum. Það væri kveðið á um fjölda bankastjóra í seðlabankalögum sem er vissulega rétt.

Úr því að komið er fram frv. um löggjöfina um Seðlabankann, þ.e. búið að opna hana þar sem kveðið er líka á um fjölda bankastjóra, mun hæstv. ráðherra vilja stuðla þá að því og er þá reiðubúinn til að standa að tillögu um að fækka bankastjórum Seðlabanka Íslands í einn ef sú tillaga kemur fram? Spurning mín er: Kemur hún fram af hálfu hæstv. ráðherra? Ef hún kemur fram frá öðrum þingmönnum, sem ég á vafalítið von á, hvaða afstöðu mun hæstv. ráðherra hafa til slíkrar tillögu?