Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:08:47 (5180)

1998-03-25 21:08:47# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:08]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Við erum að ræða um frumvörp sem eru afleiðing af vandamálum. Þessi vandamál snúa að samningsgerð og vinnubrögðum við samningsgerð í sjávarútvegi. Frumvörpin eru ekki lausn á þessum vandamálum heldur er einungis tekið á tilteknum afleiðingum atburðarásar sem á sér miklu dýpri rætur en endurspeglast við samningsgerðina.

Mjög illa hefur horft í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna um nokkuð langan tíma. Hin síðari ár hefur oft og tíðum komið til verkfalla og menn hafa ekki náð kjarasamningum. Þetta er ekki fyrsta verkfallið sem verið er að binda enda á á síðustu árum. Ýmislegt bendir til þess að þegar samningstíma lýkur samkvæmt þessu frv. að þessi erfiðu samskipti haldi áfram.

Í þeim lögum sem eru sett núna og í þessum fjórum frumvörpum er vitaskuld mjög slæm niðurstaða. Í sjálfu sér skiptir engu máli, herra forseti, hvert væri efni laganna. Það hlýtur alltaf að vera mjög vond niðurstaða að það þurfi að kveða upp úr um samninga um kaup og kjör í lögum í stað þess að aðilar gangi frá málum sínum í kjarasamningi. Hins vegar er athyglisvert við frumvörpin að ríkisstjórn Íslands hefur ekki góða stöðu í þessari atburðarás. Einu afskipti ríkisstjórnarinnar af þessu máli hafa verið til vandræða við lausn kjaradeilunnar.

Menn muna glöggt eftir í þessum sal þegar varla var skollið á verkfallsaðgerð, sem er fyllilega lögmætt vopn í kjarabaráttu, að þá vildi ríkisstjórnin setja lög og banna það verkfall sama dag. Stjórnarandstaðan náði að stöðva framgang þess máls ásamt sjómannaforustunni og því máli var frestað en samur var vilji ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar, sama hvaða ríkisstjórnar það er, að höggva á hnúta í kjaradeilu. Það hlýtur ávallt að vera neyðarúrræði, það mikið neyðarúrræði að ekki má grípa til þess nema við mjög sérstakar aðstæður. Ég efast um það, herra forseti, að þær sérstöku aðstæður hafi verið hér uppi þó svo þessir aðilar hafi ekki náð saman um stund. Bæði hafa menn séð verkfallsaðgerðir lengur, bæði í sjávarútvegi og í öðrum atvinnugreinum, og samt náð niðurstöðu í kjarasamningi. Ef til vill er ástæða þess að öll þessi frumvörp komi fram og allt vonleysið í umræðunni um að menn nái niðurstöðu í kjarasamningum meira bundið því andrúmslofti sem ríkir í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna en efnislegum rökum.

Sjávarútvegurinn hefur einnig verið mjög mikið í umræðunni, ekki einungis hvað varðar samskipti útgerðarmanna og sjómanna, heldur einnig samskipti eða umgengni eða afnotarétt útgerðarmanna yfir auðlindinni, veiðiheimildunum. Við þekkjum vel þá umræðu í þessum sal, umræðuna sem tengist veiðileyfagjaldi og óbilgirni útgerðarmanna hvað þann þátt varðar í allri umræðu. Verjendur núverandi kerfis, gjafakvótakerfis, eru þó einmitt sömu aðilarnir og standa að þessum frumvörpum. Það eru þeir sem hafa forgöngu um að setja lög á kjarabaráttu og kjaradeilu launþega og banna verkfallsvopnið í tvö ár.

Herra forseti. Það er einnig vert að hugsa um stöðu Alþingis í þessu máli. Því hefur verið lýst yfir af hálfu hæstv. sjútvrh. að litlar breytingar verði hægt að þola á þessum frumvörpum. Þegar einstakir stjórnarþingmenn hafa jafnvel komið upp og fundið þessu ýmislegt til foráttu, einstökum atriðum í frumvörpunum, hafa aðrir stjórnarþingmenn komið jafnharðan upp og bent á að það verði ekki hægt að gera nema smávægilegar breytingar og tæknilegs eðlis.

Vitaskuld eru það slæm vinnubrögð að Alþingi Íslendinga sé sett upp við vegg á þann hátt að raunverulega er gerður samningur við tiltekna aðila á vinnumarkaðnum og Alþingi á síðan að lögfesta þann gerning meira og minna óbreyttan. Þetta er hins vegar ekkert nýtt. Þetta hefur margoft komið fram á Alþingi í sambandi við kjaradeilur og reyndar í sambandi við margvíslega aðra löggjöf þegar menn telja hagsmuni vera það brýna að framkvæmdarvaldið hafi gengið frá samningum og síðan viljað fylgja þeim eftir með lögfestingu með meiri hluta sínum. Það er vitaskuld réttur framkvæmdarvaldsins sem býr við meiri hluta á Alþingi að viðhafa þau vinnubrögð en það setur samt sem áður Alþingi, og þá sérstaklega stjórnarandstöðuna, í erfiða stöðu.

[21:15]

Öll afskipti hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar af þessari deilu voru slæm. Það var slæmt þegar ríkisstjórnin lagði upp með að banna verkfallið á fyrsta degi. Það var slæm aðferð hjá hæstv. sjútvrh. að gefa fyrirheit um að lögfesta niðurstöðu þríhöfðanefndarinnar, ásamt miðlunartillögu. Þá á ég ekki við vinnu hennar heldur fyrirheitin um lögfestingu niðurstöðu ásamt miðlunartillögu. Í mínum huga eru þetta ekki góð afskipti að koma þannig að kjaraviðræðum en ég ber fulla virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem sátu í þríhöfðanefndinni og útbjuggu frumvörpin. Allir sem til þekkja vita að þau vandamál sem þar er verið að taka á eru flókin og erfið. Í þessum frv. þríhöfðanefndarinnar er ýmislegt sem orkar tvímælis en tímaskortur hefur valdið því að ekki var hægt að útfæra betur. Nú gefst ekki tækifæri til að veita þessum frv. þá athygli og þá skoðun sem vert væri innan þingsins.

Ríkisstjórnin stefnir að því að þessi frv. verði sem allra fyrst að lögum. Fyrst var rætt um að það yrði í gær, svo í dag og loks á morgun. Ef vilji meiri hluta nær fram að ganga er þó líklegt að það verði á föstudag. Þessi fjögur frv. fá því ekki þá þinglegu meðferð sem skyldi. Efni frv. allra er þess eðlis að vitaskuld hefði þurft að leggjast betur yfir þau en það tækifæri mun Alþingi ekki fá.

Í einu af þessum frv. er t.d. eitt atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. um. Það er í frv. til laga um kjaramál fiskimanna. Meginefni þess frv. er lögfesting á kjarasamningi til tveggja ára. Í 4. gr. er refsiákvæði og þar segir:

,,Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.``

Hér er brot á kjarasamningi, sem alltaf getur átt sér stað og kemur stundum fyrir og menn skjóta málinu þá til Félagsdóms ef það er ekki þeim mun alvarlega. Hér segir hins vegar: ,,Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar ...``

Ég átta mig ekki á þeirri lögfræði sem þarna liggur að baki því að við lögfestingu þessa kjarasamnings skuli kveðið sérstaklega á um slík refsiákvæði. Forvitnilegt væri að fá á því skýringar ef þær hafa þá ekki komið fram fyrr í þessari umræðu.

Frv. um kjaramál sjómanna er vitaskuld mikið álitamál efnislega, þ.e. miðlunartillagan. Formlega hins vegar er það ómögulegt. Að setja lög með þessum hætti í kjaradeilum er að mínu mati algjörlega óásættanlegt. Við höfum hér samningafrelsi og það ber að hafa í heiðri.

Annað frv., um veiðiskylduna, þ.e. um að veiða 50% hvert ár í stað 50% annað hvert ár, styð ég, m.a. vegna þess að á síðasta þingi lagði ég, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum í þingflokki jafnaðarmanna, fram frv. um að auka veiðiskyldu. Þar var lagt til að hafa það 80% annað hvert ár. Þetta frv. gerir ráð fyrir 50% hvert ár og er alveg sambærilegt. Ég tel skynsamlegt að menn séu þá annaðhvort innan eða utan þessarar atvinnugreinar. Það á ekki að líðast að menn veiði einungis hluta af sínum veiðiheimildum og leigi hinn síðan út. Þetta er ekki síst óréttmætt meðan þessum veiðiheimildum er úthlutað ókeypis.

Hins vegar er mjög margt í þessu sem hægt væri að leysa með því að allur fiskur færi um fiskmarkaði. Það hefur heyrst áður hér í umræðunni. Nú fara rúmlega 100 þús. tonn af botnfiski um fiskmarkaði af þeim 300 þús. sem koma hér til landvinnslu. Það væri vandalítið að taka við viðbótarmagni á fiskmörkuðum. Fiskvinnslan og landvinnslan öll mundi eflast á því. Verðið væri sýnilegt og miklu af svokölluðu kvótabraski væri þar með lokið. (Gripið fram í: Það væru góðir aðalfundir hjá Framsfl.) Meira að segja mætti fyrst ræða um að allur botnfiskur færi á markað. Því mætti velta fyrir sér hvort ekki ætti láta allan þorsk að fara um fiskmarkaði. Við vitum að deilurnar í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna í sambandi við þátttöku í kvótakaupum hafa fyrst og fremst verið tengdar þorski frekar en öðrum tegundum.

Sömuleiðis kemur til álita að takmarka framsalið innan ársins, þ.e. leigukvótann. Vitaskuld er ekki auðvelt að taka á þessu, m.a. vegna þeirrar stöðu sem vel er þekkt t.d. á Suðurnesjunum, þegar kvóti er búinn og útgerðarmenn og sjómenn kaupa í sameiningu kvóta og sjómennirnir taka þátt í þessum kaupum með sérstöku verði á fiskinum. Þetta er óheimilt samkvæmt kjarasamningum. Við vitum að þetta hefur verið misnotað þannig að menn hafa leigt frá sér kvóta en síðan leigt kvóta til sín aftur og látið sjómenn taka þátt í þeim kaupum. Það er ekki einungis ólöglegt heldur versta svívirða.

Hins vegar þyrfti að finna þessum samskiptum og því hvað gera skuli þegar kvóti er uppurinn á fiskiskipi, betri samningsfarveg hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Þessi erfiðu samskipti er ekki hægt að líða né þá valdbeitingu sem oft á tíðum er beitt gagnvart einstökum sjómönnum eins og dæmi þekkjast um.

Þriðja frv., um Verðlagsstofu, tel ég vera af hinu góða. Sú upplýsingamiðlun sem þar er kveðið á um mun takmarka ólögmæt eða óeðlileg viðskipti. Það upplýsir betur um verðmyndun og stuðlar að því að þessi samskipti verði fyrir opnum tjöldum. Hér er tilraun til að gera úrskurðarnefndina, sem samið hefur verið um, virkari og ég held að ekki sé annað hægt en að taka undir þau ákvæði.

Frv. um Kvótaþing er hins vegar meira matsatriði. Vitaskuld er af hinu góða að þau viðskipti séu ljós og betri yfirsýn náist yfir verð. Hins vegar getur Kvótaþing eins og hér er gert ráð fyrir, haft miklar afleiðingar á Suðurlandi og Suðurnesjum. Það er ekki gott að sjá hvaða áhrif þetta hefur á bátaútgerð. Þessi viðskipti eru umtalsverð í leigukvóta innan ársins. Þau voru 10 milljarðar á næstsíðasta fiskveiðiári, þar af 6 milljarðar milli óskyldra aðila og á síðasta fiskveiðiári hafa þessi viðskipti verið enn meiri. Þessi viðskipti upp á 6--8 milljarða, milli óskyldra aðila, er raunverulega ekkert annað en veiðileyfagjald. Það er athyglisvert að það veiðileyfagjald það sem útgerðarmenn greiða er verulega hátt. Á fiskveiðiárinu 1996--1997 voru það 6 milljarðar sem gengu í leigu milli óskyldra aðila. Þetta eru athyglisverðar tölur frá ríkisskattstjóra og þær voru lagðar fram í þingnefnd hér fyrr í vetur.

Almennt held ég Kvótaþingið komi mismunandi út gagnvart landshlutum. Ég efast reyndar ekki um að verði þetta lögfest muni menn vinna eftir þessu og laga sig að því. Samt er rétt að hafa í huga að það sé ekki alveg ljóst hverjar afleiðingarnar verða.

Mín almenna afstaða gagnvart þessu er að leggjast gegn frv. um kjaramál, styðja frv. um aukningu á veiðskyldu, einnig frv. um verðlagningu og Verðlagsstofu og upplýsingarnar en setja spurningarmerki við útfærsluna um Kvótaþing. Ég held samt að nefndin gæti farið betur yfir það og kynnt mönnum betur afleiðingar þess máls við 2. umr.

Þessi frumvörp eru samt áfellisdómur yfir samskiptum útgerðarmanna og sjómanna. Rétturinn til kjarasamninga er einn mikilvægasti réttur samfélagsins og það er slæmt að löggjafarvaldið taki þann rétt af viðkomandi aðilum. Engu skiptir hvort rétturinn er tekinn af útgerðarmönnum eða tekinn af sjómönnum. Þeirra er rétturinn til að semja og einnig þeirra skylda. Þeir hafa brugðist þeirri skyldu sinni að leiða málin til lykta og þess vegna eru þessi frv. komin fram. Þau eru afleiðing vandamála, ekki lausn, vegna þess að afskipti ríkisstjórnarinnar af þessu máli voru ekki góð. Og það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á slæmum vinnubrögðum í því. Hún hefur öðrum fremur komið málum í þennan hnút. Það lá ljóst fyrir alveg frá upphafi, að forustumenn útgerðarmanna töluðu alltaf eins og þeir ættu von á lagasetningu í sínum anda þegar viðræður voru sigldar í strand. Vitaskuld er ekki gott að semja undir slíkum kringumstæðum.

Varðandi allt þetta mál er ánægjulegt að stjórnarandstaðan hefur staðið saman í sínum málflutningi og verið samstiga sjómannasamtökunum á öllum stigum þessa máls. Hún hefur komið í veg fyrir verri útfærslu en stefndi í með þessum frv.

Það er áhyggjuefni, herra forseti, að í sjónvarpi í kvöld mátti skilja ummæli Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ, sem hótanir um að útgerðarmenn mundu ekki senda skip sín til veiða. Það er mjög ámælisvert að lesa megi þetta úr viðbrögðum forustumanns útgerðarmanna. Ég er ekki að ætlast til þess að forustumenn útgerðarmanna eða forustumenn sjómanna lýsi sérstakri ánægju sinni varðandi alla þessa málsmeðferð. Það er áhyggjuefni þegar forustumaður útgerðarmanna tekur þannig til orða að skilja megi sem hótun um að skip fari ekki til veiða ef þessi lagasetning nær fram að ganga. Líklegast eru þessi ummæli viðbrögð reiði vegna niðurstöðu af viðræðum hans við hæstv. ríkisstjórn. Ég veit ekki hvernig þær viðræður voru en ég bið menn að gæta allrar sanngirni varðandi það að löggjafinn og ríkisstjórnin hefur vitaskuld rétt til að reyna að höggva á þennan hnút þótt ég sé ósammála, bæði því að málið sé borið fram á þann hátt sem hér er gert og einnig að kveðið sé á um kjaramál sjómanna í frv. til laga.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi með aðkomu sinni allan tímann stefnt þessu í þann hnút sem núna er verið að reyna að leysa. Þessi niðurstaða, þessi fjögur frv., eru öllum vonbrigði. Það getur ekki verið neinum ánægjuefni, jafnvel þó endi sé bundinn á verkfall. Verkfall er réttur manna í kjaradeilu. Það getur varla orðið nokkrum til ánægju að lög þurfi að setja í kjaradeilu. Þar með er rétturinn til kjarasamninga tekinn úr höndum þeirra sem hafa þann rétt og þær skyldur.

Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki lagst gegn því að þessi mál verði rædd á málefnalegan hátt. Við höfum stuðlað að því að 1. umræðu geti lokið í kvöld þannig að nefnd geti í fyrramálið tekið til starfa við að fjalla um þessi mál af ábyrgð. Það er hins vegar erfitt fyrir þingnefnd og þingið allt að búa við þau fyrirmæli eða óskir frá ríkisstjórn um að allra minnstu megi breyta í löggjöfinni. Þessi frumvörp og vinnubrögð eiga að vera okkur víti til varnaðar í framtíðinni að jafnerfiðum kjaradeilum og þessari kemur.