Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 19:28:36 (5220)

1998-03-27 19:28:36# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[19:28]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þá er komið til 2. umr. um það vandræðamál að setja lög á kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna. Ég lýsi því yfir í annað sinn eins og við fyrri umræðu að það tekur mig sárt að þurfa að taka þátt í slíkri lagasetningu. Þau fjögur frv. sem voru lögð fram hafa tekið nokkrum breytingum í meðförum sjútvn. og get ég ekki sagt annað en að þær breytingar séu yfirleitt mjög þarfar. Ég lýsi sérstakri ánægju minni með breytingu á stjórn fiskveiða þar sem gert var ráð fyrir því að skylda öll skip til að veiða í það minnsta 50% af aflahlutdeild sinni. Þeirri reglu er breytt og einungis er gert ráð fyrir því að það verði 50% hámark á framsal sem er að sjálfsögðu mun eðlilegri krafa enda hefur styrrinn staðið fyrst og fremst um að framsalið væri of frjálst og leiddi til brasks að margra mati. Að þessu leyti hefur lagasetningin væntanlega breyst til hins betra og miklu auðveldara fyrir útgerðarmenn að lifa við það ákvæði sem hér kemur fram en áður var.

[19:30]

Aðrar breytingar sem eru gerðar eru tæknilegs eðlis að mestu leyti þannig að ég fer ekki út í þær enda hefur því verið lýst nokkuð vel sem lagt er til af framsögumönnum fyrir þessum tillögum.

Kvótaþing er ein lagasetningin sem kemur fram í frv. og eru ýmsar vangaveltur um hvaða afleiðingar slíkt muni hafa að hefta nánast allt framsal, eins og það hefur verið fram að þessu, og framsal eða sala megi ekki fara fram nema í gegnum Kvótaþing.

Viðskipti með aflaheimildir hafa á síðustu árum verið mjög stór þáttur í afkomu útgerða og sjómanna og er svo komið í dag að kvótahreyfingar eru allt að 40% af öllum úthlutuðum aflaheimildum allra tegunda. Einstök landsvæði hafa notað kvótaleiguna til að bæta sér upp kvótamissi síðustu ára, og þá sérstaklega í botnfiski, og voru viðskipti með botnfisk á síðasta fiskveiðiári um 223 þúsund tonn, sem er gríðarlega hátt hlutfall af öllum úthlutuðum botnfiskheimildum. Þessi viðskipti eru af mörgum toga, milli fyrirtækja, innan sömu eigenda, milli óskyldra aðila, svokölluð bein viðskipti, skipti á tegundum og tonn á móti tonni. Hin svokölluðu beinu viðskipti voru á síðasta fiskveiðiári um 29 þúsund tonn og hafa verið svipuð á síðustu tveimur árum. Eitt svæði landsins, Reykjaneskjördæmi, keypti til sín á síðasta fiskveiðiári um 18 þúsund tonn af botnfiski. Það eru um 62% af öllum þeim botnfiski sem seldur var beinni sölu á síðasta fiskveiðiári.

Kaupendur að þessum kvóta eru að mestu útgerðarmenn smærri skipa og áhafnir þeirra og mestur hluti af þessum kvóta hefur farið til landvinnslunnar og haldið uppi vinnu á ákveðnum svæðum þar sem landvinnsla hefur verið uppistaðan í atvinnulífinu. Þær hugmyndir sem felast í Kvótaþinginu munu því setja þessi viðskipti, eins og þau hafa verið tíðkuð, í uppnám og gera þau nánast útilokuð og ekki er séð fyrir hvernig afkoma þeirra sem hafa treyst á þessi viðskipti verður tryggð. Þar er um að ræða hundruð sjómanna og fiskvinnslufólks um mestallt land, en þó að mestu leyti í Reykjaneskjördæmi, á Suðurlandi og Vesturlandi.

Ég hef lagt mikla áherslu á það í mínum þingflokki að hægt yrði með einhverjum ráðum að bregðast við þróun sem gæti farið á versta veg og lýst hefur verið af fyrri ræðumönnum, að útgerðir einyrkja, fjölskyldna og smærri fiskvinnslufyrirtæki mundu líða svo fyrir þessa breytingu að þau mundu leggjast af eða þeim mundi fækka stórlega. Þess vegna hef ég lagt ríka áherslu á að eftirlit með Kvótaþingi og afleiðingum þess yrði tryggt í lagasetningu. Ég get fagnað því að í nál. er sérstaklega getið um það í 2. lið, nál. við frv. um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, að sjútvrh. muni í árslok 1999 gefa sérstaka skýrslu til Alþingis um hvaða áhrif frv. og breytingarnar sem í því felast muni hafa, sérstaklega á stöðu og möguleika einstaklingsútgerða, og geri ég ráð fyrir að þar verði tekið til sérstakrar skoðunar að sjálfsögðu áhrif á fiskvinnslu sömuleiðis.

Ég hef rætt þær áhyggjur mínar sérstaklega við hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. og þeir hafa báðir lýst því yfir að fylgst verði mjög vel með þróun þessarar starfsemi sem hefur treyst á þessi viðskipti á undanförnum árum, hvort hún muni leiða til þeirrar niðurstöðu að hún eigi mjög í vök að verjast eftir breytingarnar. Ef svo yrði þá hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að það yrði skoðað mjög nákvæmlega af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig væri hægt að grípa inn í þá þróun, ef hún færi á versta veg. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn muni skoða þessar breytingar mjög rækilega enda er hér um mjög miklar grundvallarbreytingar á þróun viðskipta að ræða, sem hafa í raun tíðkast að langmestu leyti á heiðarlegan hátt og var ekki í rauninni ástæða til að ætla annað en að það gæti þróast á heiðarlegan hátt áfram með minni breytingum en hér er gert ráð fyrir. En af því að hér er um að ræða samkomulag við sjómenn vegna þess að sjómenn hafa samþykkt ákveðnar hugmyndir sem hafa komið í gegnum ríkissáttasemjara gegnum tillögu frá ríkisstjórninni, þá sé í raun ekki um annað að ræða en að koma í gegn ákveðnum breytingum á kvótakerfinu og þessum framsalsmöguleikum sem í því felast svo hægt sé að halda vinnufrið í útgerð og meðal sjómanna um einhvern tíma, að þá neyðumst við á hinu háa Alþingi til að samþykkja lög sem þessi.

Ég ítreka að það er ekki að minni hyggju besta leiðin til að leysa slíkar deilur að gera það með lagasetningu. En eftir því sem ég komst næst í hv. félmn. var ekkert það í spilunum milli sjómanna og útgerðarmanna sem benti til þess að deilan væri að leysast eða að það væri eitthvað á næstu dögum eða næstu vikum sem mundi geta leitt til þess að deilan leystist. Því er það að sjálfsögðu skylda ríkisstjórnar og Alþingis vegna afkomu þjóðarbúsins og þjóðarheillar að grípa inn í deilur sem ekki virðast hafa neina lausn um langan tíma. Þetta er neyðarúrræði.

Ég ætla ekki að ræða um það sem aðrir hafa sagt um hið svokallaða kvótakerfi og stjórnun á fiskveiðum almennt. En það kemur mér samt alltaf jafnmikið á óvart að heyra það þegar hv. þm. eru að ræða um sóun í kvótakerfinu, sem hefur verið reynt í ein 14 ár, menn sem þekkja það hvernig sóunin var í því kerfi sem ríkti fyrir daga kvótakerfisins, og ætla ég að geyma þá umræðu þar til síðar. En gnostisismi sá sem Einar Oddur segir að fylgi þeim mönnum sem fylgja þessu kerfi er í mínum huga ótrúlega mikil gleymska því að allir sem stunduðu sjóinn fyrir þetta kerfi muna hvernig afla var hent, hvernig meðferð á afla var með allt öðru móti en nú tíðkast. Hefur meðferð breyst til mikilla muna í rétta átt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og vonast til þess að hægt verði að leiða þær breytingar, sem þessum frv. fylgja, þannig áfram að sem minnstur skaði verði af.