Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:02:43 (5233)

1998-03-30 15:02:43# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir u.þ.b. hálfum mánuði var haldin á vegum foreldrahóps Vímulausrar æsku ráðstefna um vímuefnavandann. Þar sögðu fimm mæður í fyrsta skipti opinberlega frá reynslu sinni og baráttu vegna neyslu barna þeirra á áfengi og öðrum vímuefnum. Þessar sögur létu engan sem á hlýddu ósnortinn. Það kom berlega í ljós að þau meðferðar- og vistunarúrræði sem við höfum fullnægja hvergi nærri þeirri þörf sem er til staðar. Sérstaklega virðist ástandið slæmt hvað varðar vistun, meðferð og endurhæfingu ungra afbrotamanna, einkum þeirra sem ánetjast hafa fíkniefnum.

Kerfið sem við búum við virðist alls ekki búa yfir þeim úrræðum sem þarf til þess að taka á þeim vandamálum sem fylgja þeim börnum og ungmennum sem brotið hafa af sér og hlotið hafa dóm. Fangelsiskerfið býður ekki upp á þá kosti sem þurfa að vera til staðar og þjónusta heilbrigðiskerfisins vegna þessara einstaklinga er vægast sagt í molum.

Eðli og aðdragandi afbrota hefur breyst á undanförnum árum. Langflestir sem brjóta af sér eiga að baki feril sem eiturlyfjaneytendur og eru oft á tíðum í neyslu þegar brotið er framið. Þá eru afbrotin í mörgum tilvikum til komin vegna fjármögnunar á eiturlyfjakaupum. Þetta á ekki síst við um unga afbrotamenn enda hefur neysla eiturlyfja aukist verulega og aldur þeirra sem neyta hefur færst niður, jafnvel er um að ræða börn í neyslu.

Fíkniefnaneyslu fylgir aukið ofbeldi á heimilum og utan þeirra, dauðsföll bein eða óbein afleiðing fíkniefnaneyslu, vændi er stundað, hætta er á smitsjúkdómum hvers konar, hætta á alvarlegum sálrænum vandamálum, aukin hætta á geðsjúkdómum, upplausn fjölskyldna og auknum afbrotum.

Ýmislegt hefur verið gert til þess að mæta þessum vanda, meðal annars með auknu forvarna- og meðferðarstarfi. Mikið vantar þó á að boðið sé upp á nægjanlega fjölbreytt úrræði í þessum efnum.

Skýringin er að mínu mati sú að við höfum ekki skoðað vandann frá öllum hliðum og samræmt aðgerðir hjá öllum þeim aðilum sem koma að málum og heyra undir mismunandi ráðuneyti. Um markvissar aðgerðir er því ekki að ræða og fjármunir sem fara til þessara mála nýtast illa. Sérstaklega er ástandið slæmt hvað varðar vistun, meðferð og endurhæfingu ungra afbrotamanna og á það við um afbrotaungmenni undir og yfir sakhæfisaldri sem er 15 ára. Þetta á við um alla meðferð mála hjá ungum afbrotamönnum sem eru í eiturlyfjaneyslu og hinna sem ekki eru í neyslu.

Engin sérstök vistun er til fyrir þetta unga fólk nema þá sem eru undir sakhæfisaldri en ég tel þó að þar þurfi einnig að gera mun betur því að í flestum tilvikum er um að ræða fársjúka einstaklinga sem brotið hafa af sér, í sumum tilvikum mjög alvarlega og hljóta refsingu fyrir.

Börnum og ungmennum sem hljóta þann dóm að taka út refsingu í lokaðri vistun er nauðsynlegt að fá meðferð vegna eiturlyfja og/eða áfengisneyslu. Þá er stöðug og markviss endurhæfing nauðsynleg þar sem þeim er kennt að horfast í augu við brot sitt og takast á við lífið á nýjan leik. Margir þessara einstaklinga hafa jafnvel týnt niður ýmsu því sem okkur finnst eðlilegur þáttur í daglegu lífi, svo sem þrifnaður á eigin líkama og samskipti við annað fólk. Munurinn á réttu og röngu er ekki skýr í þeirra huga eða skiptir ekki svo miklu máli.

Flestir þeir sem brjóta af sér hafa lifað mjög lengi í sýndarveruleika eiturlyfjaneyslunnar. Síendurtekin afbrot og eiturlyfjaneysla í brengluðu umhverfi með fársjúkum fíklum er heimur þessara barna og ungmenna, þessara ungu síbrotamanna. Kerfið tekur ekki á vanda þeirra, hvorki þegar þau hefja neyslu eða afbrotaferil. Þess eru dæmi að ungur fíkniefnaneytandi hafi tugi brota á málaskrá lögreglu þegar mál hans voru tekin til dóms. Á þeim tíma sem leið frá því hann fyrst braut af sér og þar til dómur féll sökk þessi ungi maður æ dýpra í eiturlyfjaneyslu, brotunum fjölgaði svo hann gæti fjármagnað eiturlyfjakaupin. Við höfum brugðist þessum dreng og mörgum hans líkum með því að takast ekki á við vandann og það breytta umhverfi sem við búum við og fylgir aukinni fíkniefnaneyslu.

Ég hef dreift í hólf allra þingmanna greinargerð frá starfsmanni barnaverndarnefndar sem vinnur með unga síbrotamenn og er viðstaddur yfirheyrslur yfir þeim. Hann óskaði sérstaklega eftir því að greinargerðin kæmi fyrir augu og eyru þingmanna. En þar sem tíminn í umræðunum er stuttur er of langt mál að lesa það upp. En ég bið hv. þm. að kynna sér innihald bréfsins. Þarna er um raunveruleg dæmi að ræða.

Þessi starfsmaður barnaverndarnefndar og aðrir starfsmenn sem fara með málefni ungra afbrotamanna sem og aðstandendur barnanna og unglinganna hafa bent á að taka verður á málefnum þessa hóps með allt öðrum hætti en gert er í dag.

Í fyrsta lagi þarf að taka strax á málum þegar unglingur hefur brotið af sér. Helst að það líði ekki nema sólarhringur þar til hann hefur fengið dóm. Þetta ætti í flestum tilvikum að vera hægt þar sem unglingurinn er oftast tekinn á vettvangi afbrotsins og þarf því ekki langan rannsóknarferil.

Núverandi kerfi varðandi skilorðsdóma hentar ekki fyrir unga síbrotaunglinga eða fíkniefnaneytanda sem brýtur af sér. Skilorðseftirlitið verður að vera virkara og með öðru fyrirkomulagi en nú er. Á skilorði þarf að tryggja meðferð og endurhæfingu og jafnframt vinnu með foreldrum og öðrum aðstandendum, svo sem systkinum sem eru á vissan hátt þolendur í þessum tilvikum. Við höfum ekki heldur þau úrræði sem duga þegar kemur til þess að loka þarf þessa ungu afbrotamenn inni í fangelsi.

Vissulega hafa átt sér stað miklar umbætur í fangelsum landsins á undanförnum árum. En skipulag þeirra fullnægir þó engan veginn þeim kröfum sem þarf að gera varðandi unga afbrotamenn, sérstaklega þá sem eru í harðri neyslu eiturlyfja.

Ekki er boðið upp á meðferð við áfengis- eða eiturlyfjasýki þegar einstaklingur kemur til afplánunar. Ekki fyrr en í lok afplánunar. Ekki er boðið upp á virka betrun og endurhæfingu sem frá byrjun miðaði að því að gera einstaklinginn hæfari til þess að takast á við lífið og tilveruna. Ekki er um að ræða virka aðstoð við fjölskyldur þessara einstaklinga. Heilbrigðisþjónustan í fangelsunum er alls ekki í lagi eins og hún er rekin í dag. Fangaverðir og gæslumenn gera sitt besta en þeir hafa hvorki fengið þá sérhæfingu sem til þarf né eru það margir að þeir geti sinnt þessum einstaklingum eins og til þarf. Álagið á þessa starfsmenn er óhóflegt. Félagsskapurinn sem ungir afbrotamenn hafa mest af að segja er því oft á tíðum samskipti við sér eldri og reyndari afbrotamenn sem hafa ekki heldur haft nema takmarkaða möguleika til að bæta líf sitt og eru því oftar en ekki bitrir og þurfa ekki síður á félags- og/eða sálgæslu að halda.

Það er mat mitt að nauðsynlegt sé að koma á fót lokaðri vistun fyrir unga afbrotamenn þar sem meðferðar- og endurhæfingarstarf hefst strax við upphaf afplánunar dóms, meðferð og endurhæfing eigi sér stað á tveimur stöðum, það er lokaðri vistun og á síðari stigum opinni vistun þar sem foreldrar og aðrir aðstandendur taki virkan þátt í endurhæfingunni.

Kostnaður við svona vistun þarf ekki að vera miklu meiri en hann er í dag en skipulag og framkvæmd væri með allt öðrum hætti.

Mig langar til að benda á tvo staði þar sem slík starfsemi gæti átt sér stað þar sem möguleikar til vistunar, endurhæfingar, náms og vinnu eru að einhverju leyti til staðar. Ég nefni Krísuvík og Gunnarsholt í Rangárvallasýslu.

Virðulegi forseti. Við getum ekki lengur horft á það ástand sem þessi ungmenni og fjölskyldur þeirra búa við. Markmið okkar hlýtur að vera að um leið og barn eða ungmenni tekur út dóm fyrir afbrot sem hann eða hún hefur framið sé stefnt að því að gera þessa ungu einstaklinga hæfa til þess að takast á við lífið, ná tökum á tilverunni. Óbreytt ástand er okkur öllum til skammar. Því beini ég eftirfarandi spurningum til hv. dómsmálaráðherra um vistun og meðferð ungra afbrotamanna:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því að tekin verði upp sérstök lokuð og/eða opin vistun fyrir unga afbrotamenn 15--18 ára og 18--22 eða 25 ára þar sem um verði að ræða sérhæfða meðferð og endurhæfingu jafnframt meðferðarstarfi með fjölskyldum viðkomandi unglinga?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að mál ungra afbrotamanna fái sérstaka flýtimeðferð í dómskerfinu eða að hér verði komið á fót sérstökum unglingadómstóli og refsiákvæði laga endurskoðuð með tilliti til þess að taka megi sérstaklega á vanda fíkniefnaneytenda sem fá skilorðsbundna eða óskilorðsbundna dóma? Eða telur hæstv. ráðherra að til þess sé svigrúm innan þeirrar löggjafar sem við búum við í dag?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að starfsmönnum fangelsanna verði fjölgað með sérstakri áherslu á fjölgun heilbrigðisstarfsmanna innan fangelsa?

4. Mun ráðherra beita sér fyrir því að sett verði á laggirnar nefnd sem hafi það hlutverk að fara yfir og gera tillögur að samræmdu starfi allra þeirra sem koma að málefnum ungra afbrotamanna, 15--18 ára og 18--22 eða 25 ára?

Til hæstv. félmrh. beini ég eftirfarandi spurningum um sama efni:

1. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að sett verði á laggirnar lokuð og/eða opin vistun fyrir afbrotamenn undir 15 ára aldri þar sem fram fari betrun og endurhæfing ásamt öflugu meðferðarstarfi fyrir fjölskyldu þessara einstaklinga?

2. Hvaða stað telur hæstv. ráðherra ákjósanlegastan fyrir slíka starfsemi?

3. Þarf að breyta lögum vegna refsingar og vistunar ungra afbrotamanna eftir hækkun sjálfræðisaldurs? Ef svo er um hvaða lög er að ræða?

4. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að sett verði á fót nefnd sem fari yfir og geri tillögur að samræmdu starfi allra þeirra aðila sem koma að málefnum afbrotamanna undir sakhæfisaldri, þ.e. yngri en 15 ára?

5. Mun ráðherra beita sér fyrir fræðslu í grunnskólum landsins um afleiðingar afbrota?

6. Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir því að tekið verði strax á afbrotum unglinga þannig að unglingurinn og fjölskylda hans þurfi ekki um langan tíma að bíða ákvörðunar um refsingu og vistun?