Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:34:36 (5237)

1998-03-30 15:34:36# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að hefja þessa umræðu. Ég hef enga sérþekkingu í þessum málum frekar en mörg okkar hér og veit t.d. lítið um hvernig á málum er haldið í nágrannalöndum okkar en einhvern veginn finnst manni að í þessu sem öðru höfum við ýmsa möguleika til þess að halda sæmilega á málum ef vilji er fyrir hendi. Um það verður því miður að efast þegar litið er til ástandsins eins og það er og við komumst auðvitað ekki lönd né strönd ef vettlingatökin verða áfram viðhöfð. Við erum að tala um mannréttindi. Við erum að tala um velferð og hag einstaklinga og fjölskyldna og við erum að tala um þjóðarhag.

Stærsti vandinn sem við er að fást nú er neysla fíkniefna af ýmsu tagi, hvort sem um er að ræða áfengi eða önnur vímuefni sem oft og tíðum breyta ósköp venjulegri manneskju í afbrotamanneskju. Þar liggur stærsti vandinn sem umturnar lífi og aðstæðum einstaklinga og fjölskyldna sem fá alls ekki næga aðstoð til að vinna úr sínum málum. Þau eru sorglega mörg dæmin um ungt fólk sem lendir á villigötum, lendir í klóm vímuefna og leiðist út í afbrot í tengslum við neyslu og fær ekki þá meðferð og þá aðstoð sem það þarfnast. Meðhöndlunin er stundum jafnvel verri en engin. Fólk er tekið fyrir afbrot og það er dæmt til refsingar en síðan líður tíminn og sumum tekst að rétta kúrsinn. Þeir fá aðstoð fjölskyldna til að skapa sér nýja stöðu í lífinu. En svo kemur skellurinn því að nú á að afplána dóminn sem féll kannski fyrir mörgum mánuðum.

Ég þekki skelfileg dæmi þessa þar sem lögð hefur verið í rúst sú veröld sem hefur tekist að byggja upp þar sem grunnur var lagður að góðu heimili og jafnvel barn komið til sögunnar. Slík dæmi eru því miður alltaf að gerast og enga miskunn er að hafa hjá yfirvöldum þó að á sama tíma sé séð til þess að hvítflibbaglæpamönnum sé gert kleift að afplána sína refsingu þannig að sem minnst röskun verði á lífi þeirra. Um það eru dæmi.

Herra forseti. Margt má betur fara í þessum efnum og ekki tjóar að bera við fjárskorti vegna þess að dýrara er að láta allt danka eins og það er. Það verður að taka faglega á þessu máli og stefna að betrun en ekki forherðingu þeirra sem rata í þessa ógæfu. Það á ekki að líðast að ungir afbrotamenn séu dæmdir til refsingar og gert að taka hana út löngu síðar. Það á ekki að vista unga afbrotamenn með eldri síbrotaföngum. Það á að gefa þeim tækifæri til að bæta ráð sitt og verða að manni eins og við segjum.

Herra forseti. Viðbrögð og svör hæstvirtra ráðherra ollu vonbrigðum. Mér heyrðust þeir hafna algerlega hugmyndum um lokaða meðferðarstofnun eins og hér var spurt um. Ég tel brýnt að koma á lokaðri meðferðarstofnun fyrir unga afbrotamenn þar sem þeir fá fræðslu, meðferð og uppbyggingu við hæfi. Það þarf að tryggja að þeir hafi að einhverju að hverfa en lendi ekki á nýjan leik í sömu aðstæðum og urðu þeim að falli. Íslenskt þjóðfélag hefur efni á slíkri stofnun en það hefur ekki efni á að loka augunum fyrir neyð þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem eiga um sárt að binda vegna tímabundinna erfiðleika sem má bæta úr.

Herra forseti. Ég vil enda mál mitt með tilvitnun í niðurlag bréfs frá móður sem talar af reynslu og leggur einmitt áherslu á nauðsyn lokaðrar meðferðarstofnunar fyrir einstaklinga sem lenda í slíkri ógæfu sem hér um ræðir. Hún segir, með leyfi forseta:

,,Opin meðferðarstofnun hefur ekkert að segja því að flestir þessa hóps`` --- þ.e. fíkniefnaneytenda sem lenda í afbrotum --- ,,eru komnir of langt til að vistast þar sem þeir geta gengið út daginn eftir. Ég segi þetta vegna þess að ég hef upplifað þetta sjálf og ég vil engum svo illt að ætla honum að ganga í gegnum slíkt helvíti þar sem allt blandast saman, ástin á afkvæminu, sjálfsblekkingin, lygin og vonleysið, reiðin út í eiturlyfjasalana og ekki síst reiðin út í kerfi sem frekar slær á hverja veika tilraun til sjálfsbjargar en að vera til hjálpar reiðubúið.``