Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:16:00 (5262)

1998-03-30 17:16:00# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú úttekt sem embætti ríkislögreglustjóra gerði og birt hefur verið og leitt hefur í ljós tilteknar staðreyndir um fíkniefni sem vantar í fíkniefnageymslu lögreglunnar í Reykjavík fól ekki í sér grunsemdir um brot einstakra lögreglumanna. Þess vegna var nauðsynlegt að skipa sérstakan ríkislögreglustjóra til að fara með rannsókn málsins. Hún miðar að því að kalla fram hvort grunsemdir séu fyrir hendi um brot einstakra manna varðandi hegningarlög í þessu tilviki, og hvort einstakir lögreglumenn hafi gerst brotlegir við starfsmannalög eða vanrækt skyldur sínar sem opinberir starfsmenn. Ég tek það mjög skýrt fram í þessu sambandi að fyrirmæli ráðuneytisins til setts ríkislögreglustjóra lúta hvort tveggja að því að kanna þetta hjá einstökum lögreglumönnum og eins hjá yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík. Það hefur enginn verið dreginn undan ábyrgð í því efni en þá fyrst kemur málið samkvæmt lögum til meðferðar hjá ríkissaksóknara þegar ljóst er hvort grunsemdir eru fyrir hendi. Það er verkefni setts ríkislögreglustjóra og þessi háttur var á hafður í fullu samráði við ríkissaksóknara.

Varðandi spurninguna um hvort ástæða er til að veita yfirmönnum lögreglunnar tímabundna lausn, þá ræðst það eða kemur sú spurning fyrst upp þegar ljóst er hvort þessar grunsemdir eru fyrir hendi sem kalla á raunverulega rannsókn af hálfu ríkissaksóknara.