Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:43:17 (5280)

1998-03-30 18:43:17# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:43]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. um loftferðir er mjög viðamikill lagabálkur með fjöldamörgum lagfæringum á ýmsum sviðum, snyrtingar hér og þar, og um margt athyglisverður hvað tæknilegar breytingar varðar. Hins vegar er ótvírætt verulegur galli á frv. eins og hefur komið fram í máli frsm. minni hluta samgn. en minni hluti samgn. er einróma um það álit sitt að frv. sé stórgallað og ekki sé unnt að afgreiða það eins og það liggur fyrir.

Það er hvort tveggja sem við gagnrýnum, annars vegar skipun flugráðsins og hlutverk þess og hins vegar sú óútfyllta ávísun til Flugmálastjórnar og samgrh. sem finna má í 7. gr. frv.

Við meðferð málsins í nefnd hefur vissulega margt athyglisvert komið fram og ég vildi gjarnan mega nefna það sem kom fram í samgn. og ég hafði ekki áttað mig á fyrr að einkaflugfloti landsmanna er orðinn mjög aldraður. Fullyrt er að allar verksmiðjuframleiddar einkaflugvélar í landinu séu a.m.k. 17--18 ára gamlar og þaðan af eldri, allar verksmiðjuframleiddar einkaflugvélar, en nokkrar sérsmíðaðar vélar munu vera yngri. Því er ljóst að floti einkaflugvéla er orðinn ótrúlega gamall og úreltur og alls ekki góðs viti og óneitanlega nokkurt áhyggjuefni að svona skuli komið.

[18:45]

Hvað varðar ágreining minni hluta nefndarinnar við ríkisstjórnarflokkana og hæstv. ráðherra um flugráðið þá verður það mál allt að skoðast í því ljósi að þegar frv. var lagt fram var það bersýnilega ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. samgrh. að gera flugráð algerlega valdalaust. Hæstv. samgrh. átti að fá heimild til þess að skipa allt ráðið til fjögurra ára í senn og átti embættistími ráðsins að miðast við skipunartíma eða embættistíma þess ráðherra sem það skipaði. Það átti sem sagt að skipa fimm menn í ráð og hæstv. samgrh. átti að ráða skipan þeirra allra. Þetta taldi samgn. algjörlega fráleitt og einsetti sér að gera á þessu breytingar. Ég tel hins vegar að tillögur meiri hluta nefndarinnar gangi alls ekki nægilega langt í leiðréttingarátt. Ég tel að það skipulag sem hér er gerð tillaga um, að Alþingi kjósi þrjá af fimm flugráðsmönnum en ráðherra skipi síðan formann og varaformann ráðsins, sé stjórnunarómynd sem ekki eigi sér neitt fordæmi í okkar stjórnskipulagi. Satt að segja undrast ég þá hugkvæmni sem lýsir sér í þessari málamiðlunarlendingu sem felur það í sér að ráðherra skipi forustuna, formanninn og varaformanninn, en Alþingi skipi síðan á móti þrjá flugráðsmenn. Ég næ því ekki af hverju ekki er hægt að hafa þetta eins og oft er þegar um alþingisskipaðar stjórnir eða ráð er að ræða, að Alþingi velji mennina en ráðherra eigi kost á því að skipa formanninn. Það er nokkuð langt gengið að hann skuli eiga að skipa tvo af fimm mönnum og þar á meðal bæði formann og varaformann og ekki í neinu samræmi við það sem annars staðar tíðkast.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir að það sé stefna síðari ára að fækka stjórnum opinberra stofnana og það eiga að heita einhver rök fyrir þessu sérkennilega fyrirkomulagi. En ég veit ekki betur en hæstv. samgrh. hafi einmitt sett stjórn yfir Póst og síma á sínum tíma og menn hafi einmitt verið að setja upp stjórnir til eftirlits og ráðgjafar í ríkisfyrirtækjum hér og hvar þannig að þessi stefna er nokkuð loðin að ekki sé meira sagt, að það eigi endilega að svipta stjórnir og ráð öllum völdum og gera þær að einhverjum leikbrúðum í höndum viðkomandi ráðherra. Ég tel að stjórnir og ráð í ríkisstofnunum hafi mikilvægu hlutverki að gegna. Þær eiga að gegna eftirlitshlutverki. Þær eiga að hafa eftirlit með gjörðum framkvæmdarvaldsins af hálfu Alþingis ef Alþingi hefur kosið slíkar stjórnir og ég held að það veiti ekkert af því hvort heldur er á sviði samgöngumála eða heilbrigðismála eða mörgum öðrum sviðum að menn séu skipaðir í slík ráð og slíkar stjórnir til að hafa eftirlit með viðkomandi stofnunum. Ég veit hins vegar að ráðherrar og forstjórar eru kannski ekki allt of hrifnir af slíkum stjórnum og ráðum. Það þarf engum að koma á óvart. En frá lýðræðislegu sjónarmiði og frá sjónarmiði Alþingis er hér um hreina afturför að ræða.

Ég vil líka segja það um 7. gr. að það kemur mér mjög á óvart að henni skuli vera hleypt í gegn af hálfu meiri hluta samgn. án þess að nein tilraun sé gerð til þess að skýra hvað í þessari grein felst en þar er, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, lagt til að Flugmálastjórn geti átt aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, að hún megi stofna og eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög og, svo ég bæti við, með leyfi herra forseta:

,,... önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfeignarstofnanir með það að markmiði að vinna að rannsókn og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.

Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.``

Hér er verið að fara inn á alveg nýja braut í ríkisrekstri og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort menn ætli virkilega að taka slíkar ákvarðanir án þess að einhver prinsippumræða fari fram um það hvort þetta eigi að gerast eins og hér er lagt til. Ég veit vel að í lögum um Póst og síma sem samþykkt voru þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi, var hliðstætt ákvæði sem vissulega var mjög gagnrýnt vegna þess að menn sáu að þar var ákveðin aðferð til einkavæðingar. En það er þó reginmunur á hvort slík heimild er gefin hlutafélagi, væntanlegu hlutafélagi eins og Pósti og síma, eða hvort ríkisstofnun í A-hluta fjárlaga er veitt slík heimild. Ég er satt að segja ekki alveg viss um það að slíkt standist stjórnarskrá lýðveldisins þó ég vilji ekki kannski fullyrða neitt um það á þessu augnabliki vegna þess að ég tel að það þurfi að skoða svolítið nánar. En auðvitað geta A-hluta stofnanir ríkisins og ríkisstjórn ekki skuldbundið ríkið eða látið fasteignir af hendi eða greitt fé inn í ný hlutafélög án þess að það sé gert með heimildum í fjárlögum. Það er skilyrðið samkvæmt stjórnarskránni. Lagaheimild sem stjórnarskráin kveður á um verður að vera afmörkuð og það verður að vera ljóst af lagaheimildinni hver takmörk heimildarinnar eru. Það er t.d. ekki hægt að gefa ríkisstjórninni blankóumboð til þess að selja allar ríkisjarðir eða allar fasteignir ríkisins eftir eigin geðþótta. Það verður að skilgreina það í fjárlögum eða lögum hvernig heimildin er afmörkuð. Það sem ég gagnrýni í þessu samhengi er að hér er sett inn í lagafrv. heimild til Flugmálastjórnar með samþykki samgrh. til að stofna hlutafélög án þess að heimildin sé á nokkurn hátt afmörkuð hvað fjármuni snertir eða hvað tilganginn varðar að öðru leyti.

Ég tel að þessi heimild sé allt of opin og allt of óljós til þess að hún geti staðist sem slík í einföldum lögum. Ég minni enn á það sem ég sagði áðan að hér erum við að tala um A-hluta stofnun. Það er t.d. alveg ljóst að venjuleg A-hluta stofnun eins og Vegagerð ríkisins getur ekki staðið í einkarekstri öðruvísi en sérstakar heimildir séu til þess í fjárlögum og það sama mundi auðvitað gilda um Flugmálastjórn. Menn verða því að gera sér grein fyrir því að þegar slíkar heimildir eru veittar í væntanlegum lögum um loftferðir þá standast þær ekki án einhverra frekari heimilda af hálfu Alþingis. Þær eru eiginlega marklausar öðruvísi en að þær séu betur skilgreindar og ákveðnar í fjárlögum og lögum.

Ég tel að hæstv. samgrh. þurfi ekkert að vera undrandi á þeim fyrirspurnum sem fram komu áðan af hálfu hv. 9. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar. En hann fékk svör við nokkrum spurningum, m.a. að það stæði ekki til að breyta flugvöllum í hlutafélög og það er auðvitað gott að fá að vita það. En það væri í raun og veru miklu mikilvægara að fá svör við því frá hæstv. samgrh. hvort hann telji að heimildin sem hér er verið að veita í 7. gr. laganna gæti rúmað slíka ákvörðun að breyta flugvöllum í hlutafélög. Spurningin er auðvitað ekki um það hvað hæstv. ráðherra hefur í sínum huga, hvað hann ætlar sér eða hvað Flugmálastjórn ætlar sér. Það er ekki mergurinn málsins þegar við erum að setja lög heldur hvað gæti falist í lögunum. Er hugsanlegt að með þessari lagabreytingu sem hér er verið að gera sé það mögulegt að áliti hæstv. samgrh. að seinni tíma samgrh. gæti breytt flugvöllum landsins í hlutafélög? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að þessu. Ég tel að það sé miklu mikilvægara að upplýsa hver sé skilningur hans á lagagreininni en ekki hitt, hvað hann ætlar sér persónulega, enda getur sú ætlan breyst eins og við þekkjum frá fyrri tíð.

Ég tel að með þeim áformum um einkavæðingu sem verið er að áforma í 7. gr. frv. sé verið að skapa mjög hættulegt fordæmi sem við getum ekki látið ganga í gegn án nánari umræðu þannig að við áttum okkur á hvað er verið að gera hér. Ég held að við ættum ekki að gera lítið úr áliti Samkeppnisstofnunar sem hefur sent samgn. álit sitt, en þar er ekki tekið svo smátt til orða þegar sagt er að ljóst sé að samstarf af því tagi sem hér er á ferðinni gæti skarast við eftirlitshlutverk Flugmálastjórnar og að það geti vakið tortryggni keppinauta og haft í för með sér vissa hættu á samkeppnishömlum. Er það virkilega ætlun samgrh. og meiri hluta samgn. að afgreiða þetta frv. án þess að skilgreina þessa grein það vel að slíkri gagnrýni sé endanlega svarað? Ég tel að það sé ekki forsvaranlegt og vænti þess fastlega að hæstv. ráðherra og samgn. fái tækifæri til þess að gera lagfæringar á þessum lögum sem skilgreini og takmarki þær heimildir sem felast í 7. gr. miklu betur og skýrar en gert er í greininni. Ég sem sagt tel að það verði að skilgreina réttarstöðu Flugmálastjórnar, heimildir hennar, í samræmi við þær venjur sem ríkja í ríkisrekstrinum.

Ég ítreka það sem hv. 9. þm. Reykn. sagði áðan að það vekur mikla furðu að meiri hluti samgn. skuli koma með sitt nefndarálit og að í framsöguræðu formanns nefndarinnar skuli ekki vera vikið einu einasta orði að þessu mikla álitamáli og þeim rökum sem þar eru á bak við.

Þetta mál er órætt enn og ég vænti þess fastlega að betur verði um hnútana búið áður en þetta frv. verður að lögum.