Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:38:29 (5355)

1998-03-31 19:38:29# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Ögmund Jónasson um starf Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reyndar Sameinuðu þjóðanna jafnframt. Það er alveg ljóst að við Íslendingar störfum á vettvangi þessara stofnana og styðjum þær og við teljum þær vera mikilvægustu stofnanir sem geta gert átak í þróunarmálum og í mannréttindamálum og þá er ég sérstaklega að tala um Sameinuðu þjóðirnar.

Ég veit ekki á hvaða vettvangi hv. þm. vill starfa, ég geri mér það ekki ljóst eða hvort hann vill almennt standa utan allra alþjóðasamtaka. Ég skil hann þannig. Hann vill ekki viðurkenna starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Íraksmálum. Hann telur að við séum að ganga gegn öðrum ríkjum innan Sameinuðu þjóðanna að því er varðar Írak. Það kom fram í umræðum á Alþingi. Hann telur að það eigi alls ekki að stuðla að því að einkafjármagn komi inn í þróunarríkin sem skipta þessi ríki grundvallarmáli. Mér heyrist að hann vilji fyrst og fremst byggja þessi ríki upp á grundvelli sósíalisma og lánsfé þannig að ekki er ljóst hvort þau geti borgað þetta til baka.

Það er alveg rétt að við teljum vera mjög mikilvægt að einkafjármagn komi inn í þróunarríkin þar til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Við Íslendingar höfum rekið okkur á það í sambandi við þróunarhjálp í Afríku að það skiptir sköpum ef atvinnufyrirtæki eru tilbúin til að koma inn í kjölfar þróunarhjálpar og fjárfesta í þessum löndum með innlendum aðilum eins og hefur t.d. gerst í samstarfi í sjávarútvegi í Afríku. Þar hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest með þarlendum fyrirtækjum og þetta hefur skapað mörgum vinnu og er leið sem markar framfarir í þessum löndum.