1998-04-06 14:52:44# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:52]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Upp er kominn alvarlegur trúnaðarbrestur milli yfirstjórnar Landsbanka Íslands og Alþingis. Trúnaðarbrestur milli yfirstjórnar bankans og starfsfólks hans og trúnaðarbrestur milli bankans og landsmanna. Málið snýst um siðfræði og meðferð almannafjár og ljóst að það hefur skaðað bankann og viðskiptahagsmuni hans, bæði innan lands og utan. Verði ekkert að gert mun málið grafa undan tiltrú almennings á stjórnvöldum.

Stjórnendur í atvinnulífi sem lenda í því að ákvarðanir þeirra skaða orðstír fyrirtækisins með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað létta oftast eigendum að taka þær ákvarðanir hvort skipta beri um stjórnendur eða þeim falin áframhaldandi forráð rekstrar með því að taka sjálfir af skarið og bjóðast til að standa upp. Bankastjórar og bankaráð Landsbankans ættu að gefa stjórnvöldum svigrúm til að taka á málum án þess þrýstings frá almenningsálitinu sem leiðir af óbreyttri stöðu. Ráðlegging mín til bankastjórnar og bankaráðs er að þeir axli ábyrgð með því að segja störfum sínum lausum en láti þess getið að þeir séu tilbúnir að sitja áfram ef óskað er. Framhaldið er þá lagt í hendur stjórnvalda, tiltrú almennings og ábyrgð opinberra aðila bíður minni hnekki og yfirstjórn bankans heldur frekar andlitinu. Sem rökstuðning fyrir afstöðu minni vil ég nefna eftirfarandi: Upplýsingar sem Alþingi eru gefnar eru upplýsingar til þjóðþings sem almenningur hefur kosið til að gæta hagsmuna sinna. Að kasta höndunum til slíkrar upplýsingagjafar ber vott um að viðkomandi telji sig ekki eiga skyldum að gegna gagnvart almenningi og almannahagsmunum. Alþingi getur ekki látið slíkt óátalið.

Kjarni þessa máls snýst ekki um sekt eða sýknu, málið snýst um trúnaðarbrest og þann álitshnekki sem Landsbankinn hefur orðið fyrir. Koma verður í veg fyrir frekari skaða. Ég vona að stjórnendur bankans og bankaráð hafi siðferðilegan styrk til að horfast í augu við raunveruleikann.