Starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:46:41 (5399)

1998-04-06 15:46:41# 122. lþ. 102.6 fundur 523. mál: #A starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þm. ætlaði að bæta því við að hún ætti síðan von á að leifarnar af ráðherranum fyndust hjá Sölunefnd varnarliðseigna, hann yrði til sölu þar. En sem betur fer mín vegna kom það nú ekki, heldur árnaðaróskir. Sannleikurinn er samt sá að engar kveðjuveislur hafa verið haldnar, þvert á móti hefur verið efnt til mannfagnaðar (Gripið fram í: Það var í fréttum.) Já, ég heyrði það nefnilega líka í fréttum, en ég vil hér og nú segja frá því að um afskaplega eðlilega hluti er að ræða sem ég veit að hv. þm. þekkja og það er að nokkrum sinnum á kjörtímabili kemur það fyrir að menn hittast og fara yfir mál, kannski undir öðrum kringumstæðum, það er almennast að segja það, heldur en gerist á hefðbundnum nefndafundum þingmanna og þingnefnda (Gripið fram í.) Já, já.

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir í skriflegu svari frá utanrrn. að ráðuneytið sé að undirbúa breytingar á reglugerðum um Umsýslustofnun varnarmála og muni að því loknu taka ákvörðun um hvort flytja eigi stofnunina. Ég tel ekkert óeðlilegt við að hv. þm. ræði hvort þetta sé eina fyrirkomulagið sem eigi að gilda þegar verið er að selja vöru sem kemur til landsins og ekki eru lögð viðkomandi gjöld á vöruna. Þetta á ekki eingöngu við um varnarliðið á Keflavíkurflugvelli heldur einnig þegar um er að ræða t.d. verktakastarfsemi sem fer fram innan vallarins. Það kann vel að vera að tími sé kominn til að endurskoða þetta fyrirkomulag og ég tel fyllilega eðlilegt að leitað sé leiða til að framkvæma þetta eins og eðlilegast er að sé á hverjum tíma.