Tilkostnaður við tannréttingar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:03:54 (5428)

1998-04-06 17:03:54# 122. lþ. 102.8 fundur 610. mál: #A tilkostnaður við tannréttingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:03]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin sem að mörgu leyti voru skýr og greinargóð og ég veit að á vegum ráðuneytisins er unnið vel að þessum málum en sú vinna hefur ekki skilað því enn sem komið er að fólk fái þessa þjónustu á viðráðanlegu verði.

Tvennt fannst mér sérstaklega athyglisvert í máli hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er athyglisvert að meðaltalskostnaður sumra tannréttingasérfræðinga skuli vera 200 þús. kr. en 400 þús. kr. hjá öðrum. Þetta er vísbending um að ekki er hægt að alhæfa um þessa stétt. Sumir virðast þannig sanngjarnir í verðlagningu, aðrir okra. Fram kom í máli hæstv. ráðherra að oft gæti verið um tífaldan mun að ræða, enda veit ég dæmi þess að fólki hafi verið boðin aðgerð fyrir 30 þús. kr. hjá einum tannréttingasérfræðingi þegar annar býður meðferð upp á 300 þús. kr.

Þetta segir okkur að upplýsa verður almenning um verðlagninguna á skýran hátt ef menn á annað borð vilja ekki hreinlega beita verðlagsákvæðum gagnvart þessari starfsstétt. Alla vega þarf að upplýsa um þessi efni og allt tal sem stundum heyrist um að lög, upplýsingalög eða önnur lög, komi í veg fyrir að upplýsingar verði veittar bendir til þess að þar þurfi eitthvað að færa til í lögum því að þó við séum að ræða um kjör sérfræðinga sem einstaklinga, þá byggja kjör þeirra á útgjöldum almennings og um þau verður að upplýsa. Því kalla ég eftir upplýsingum og verðlagseftirliti gagnvart þeim sérfræðingum sem ekki hafa siðferðilega burði til að stilla ágirnd sinni í hóf. Gagnvart almannatryggingum minni ég á frv. mitt um breytingar á almannatryggingum vegna tannlækninga þar sem gert er ráð fyrir því að minni háttar tannréttingar lúti sömu lögmálum og almennar tannlækningar og fólk fái þannig viðeigandi stuðning vegna slíkra aðgerða.

Að öðru leyti vil ég lýsa ánægju með þann ásetning hæstv. heilbrrh. að færa þessi mál til betri vegar og ég hvet til þess að stórátak verði gert á þessu sviði með ströngu verðlagseftirliti og lagabreytingum í upphafi næsta þings í þá veru sem ég og aðrir þingmenn Alþb. og óháðra hafa lagt til og ég nefndi hér áður þannig að orð sem höfð voru eftir tryggingayfirtannlækni í blaðaviðtali sl. haust um að við gætum orðið heimsmeistarar á þessu sviði fái stoð í raunveruleikanum. Það er enn þá langt í land og á sviði tannréttingamála sér ekki enn til lands því miður.