Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 14:54:13 (5448)

1998-04-14 14:54:13# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka þær ágætu umræður sem hafa farið fram um þetta mál sem kemur reyndar alltaf fram um þetta leyti árs ár eftir ár og enda þótt það sé ekki alltaf nákvæmlega eins þá fjallar það oft um svipaða hluti. Ég vil segja það almennt í upphafi að ég mun í þessari ræðu ekki fara nákvæmlega ofan í allar þær fyrirspurnir og athugasemdir sem gerðar hafa verið en ég óska eftir því með öðrum að hv. nefnd fái tækifæri til þess að skoða þau atriði sem hér hafa verið nefnd til sögunnar sérstaklega og afla skýringa á þeim og það verður ekki gert í stuttri umræðu í dag.

Núna liggja fyrir bæði skýrslur Ríkisendurskoðunar og skýrsla um ríkisfjármál frá fjmrn., frá fjmrh., sem dreift var í dag. Þar er að finna ýmsar upplýsingar. Jafnframt hygg ég að óendurskoðaður ríkisreikningur fyrir sl. ár, jafnvel endurskoðaður, gæti legið fyrir innan tíðar og allt þetta hjálpar til að hv. þm. fái eðlilegar upplýsingar um stöðu ríkisfjármálanna.

Það er einu sinni þannig að margt af því sem samþykkt er í fjárlögum á hverju ári eru áætlanir og ekki nokkur lifandi leið að ætlast til þess að hægt sé að fara nákvæmlega eftir þeim áætlunum. Sífellt breytist umhverfið sem leiðir til þess að útgjöldin breytast og útgjaldahorfurnar breytast jafnvel á mjög skömmum tíma.

Ég minni á að það er alveg hárrétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., sagði í umræðunni að á fyrri hluta þessa áratugar jukust skuldir ríkissjóðs verulega vegna hallareksturs sem var þó langsamlega mestur árið 1991. Það er umræða sem við, ég og hv. þm., höfum margoft tekið hér og ég held að sé ekki neinum til gagns að rifja upp. Við gátum lært af því sem gerðist þá. Það er þó ástæða til þess að segja það --- ég er ekki að kasta rýrð á stjórn eins eða neins með því að segja það --- að klaufaskapurinn var að loka ekki lánsfjárlögunum fyrir jól. Lánsfjárlögin voru skilin eftir opin fram yfir jól eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt og lánsfjárlögin fyrir 1991 urðu eins konar fjárlög númer tvö. Það eru einhver skrautlegustu lánsfjárlög íslenska ríkisins sem hafa fæðst á síðustu áratugum og gott skólabókardæmi um það hvað getur gerst þegar menn hafa opnar fjárheimildir um of skömmu fyrir kosningar.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma en nefna að frá 1991 til 1997 hefur það gerst að árangurinn, ef við mælum hann í afkomu ríkissjóðs, er sá að 15 milljarða munur er á afkomunni 1997 og 1991 þrátt fyrir það að allar þær skuldir sem söfnuðust upp á fyrri hlutanum hafa auðvitað kostað veruleg vaxtaútgjöld allan þennan tíma.

Við skulum hins vegar ekki gleyma því sem hefur ekki komið fram og ástæða er til að halda til haga að við erum að njóta þess þessi árin að við erum sjálfsagt á besta stað í efnahagssveiflunni. Við getum ráðið því heilmikið hve þessi sveifla tekur langan tíma með því að haga okkur skynsamlega, þar á meðal í ríkisfjármálunum. Við megum ekki gleyma því að við, eða ríkissjóður réttara sagt, nærist á því nú eins og á tímum hv. þm. og fyrrv. fjmrh. Ragnars Arnalds, að innflutningur er talsvert meiri en útflutningur og við erum að skattleggja viðskiptahallann sem þýðir auðvitað að í normal árferði, þegar jafnvægi er á viðskiptum við önnur ríki, fengjum við ekki jafnmiklar tekjur og við höfum í dag. Þetta ber að hafa í huga og er auðvitað sérstök áminning til okkar allra þegar við hugum að því hvers ríkissjóður er megnugur á hverjum tíma. En mér hefur stundum sýnst að almenningur og hv. þm. hafi á stundum gert nokkuð harðar kröfur til ríkissjóðs þó ég skuli fyrstur manna viðurkenna að mér finnst að andinn í garð ríkissjóðs og skilningur á ríkisfjármálunum hafa vaxið stórkostlega á þessum áratug, ekki síst í kjölfar þess að ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, stjórnvöldum og aðilum á vinnumarkaði og fleirum, tókst að ná verðbólgunni niður sem skipti auðvitað öllu máli til að hægt væri að stýra þjóðfélaginu og hafa fjármálastjórnina í lagi.

Ég ætla ekki að fara í frekari umræður um utanrrn. en gert var þegar síðasta fjáraukalagafrv. var til umræðu. Þá urðu harðar umræður um það mál og gefnar að ég held nokkuð góðar skýringar á því hvers vegna utanrrn. eða útgjöld utanrrn. fóru fram úr heimildum. Að verulegum hluta til var þetta vegna þess að ákveðið var að fara í mjög dýrar framkvæmdir og viðgerðir á húsum sem íslenska ríkið á erlendis og ber að líta á að það er ekki rekstur heldur er verið að byggja upp eignir sem Íslendingar eiga þar.

[15:00]

Ég skal viðurkenna að heilbrigðis- og tryggingamálin er sá málaflokkur sem er langsamlega erfiðastur þegar rætt er um ríkisfjármálin. Það gildir ekki einungis hér á landi heldur víðast hvar í heiminum að sá málaflokkur tekur sífellt til sín meiri fjármuni og í öllum löndum er rætt um hvernig eigi að fjármagna þau útgjöld sem krafist er til heilbrigðismála. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hér á landi er eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi og ég held að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi séu sammála um að við eigum að reyna að viðhalda því. Hins vegar liggur ljóst fyrir að nokkuð skortir á að stjórn þessara mála sé viðunandi þegar horft er á þessi mál frá sjónarhóli þess sem situr t.d. í fjmrn. og þá er ég ekki að tala um stjórn heilbrrn. sem slíka, heldur almennt stjórn í þessum málaflokki, á sjúkrahúsum og víðar. Hér er ekki verið að saka neinar persónur um eitt eða neitt heldur að benda á að kerfið gefur því miður tilefni til að oft er lítið samræmi í því sem samþykkt er á hinu háa Alþingi og því sem síðan kemur út þegar niðurstaða fæst. Ég hygg að það verði eitt stærsta verkefnið í ríkisfjármálum á næstu árum að reyna að ná tökum á þessu vandamáli og að ná niðurstöðu um aðferð sem nokkuð víðtæk sátt er um í þjóðfélaginu þegar við ræðum um þessa hluti. Við verðum að geta fundið aðferð sem allir eru sáttir við þannig að það sé tiltrú þeirra sem eru fagmenn og starfa t.d. á dýrum spítölum að það sé rétt gefið þegar fjárlög eru samþykkt og það sé líka á hinn bóginn nokkuð ljóst að Alþingi, fjárveitingavaldið, geti treyst því að þeir sem stjórna samkvæmt lögum sem Alþingi setur virði þá löggjöf. Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma, þetta allt er þingmönnum auðvitað vel kunnugt. Ég tel að ekki þýði að leysa málið í þingsal með hávaðasömum umræðum. Þetta er eitt af því sem menn verða að einhenda sér í, ef ég má svo að orði komast, og ná lausn á á næstu árum. Það verður ekki gert nema í víðtæku samkomulagi við mjög marga aðila sem koma að málinu því að þessi málaflokkur er svo opinn, það er svo auðvelt að koma miklum útgjöldum fyrir og það eru svo miklar þarfir sem menn telja fyrir hendi og ýmis sjónarmið sem koma fram sem leiða til þess að það er mjög erfitt að stunda aðhaldsstarfsemina sem þarf að vera til staðar á hverjum tíma.

Ég vona að þessi orð um þennan mikilvæga málaflokk leiði ekki til þess að umræður í dag fari eingöngu í hann, ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á að þessi viðkvæmi málaflokkur krefst þess að hann sé skoðaður af fullri alvöru og einbeitni á næstu árum. Með því er ég engan veginn að segja að draga eigi úr fjármunum sem fara til þessa málaflokks. Ég hef trú á að útgjöld heilbr.- og trmrn. muni vaxa verulega á næstu árum en sem almennum skattgreiðanda og þjóðfélagsþegn er mér hins vegar ekki sama hvernig það gerist. Ég tel að tími sé kominn til og reyndar fyrir löngu að tekið sé viðeigandi á þessum málaflokki og ég tek skýrt fram að ekki er verið að ráðast á einn eða neinn, hér er ekki verið að gera lítið úr því starfi sem unnið hefur verið í heilbr.- og trmrn. heldur er fyrst og fremst verið að staðfesta að þessi málaflokkur er erfiðastur viðureignar í útgjaldamálaflokkum ríkisins. Það er ekkert annað sem ég er að segja.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði athugasemdir við nokkra liði sem koma fram í frv. og nefndi til sögunnar tekjuliði upp á 170 millj. kr. Frá því er að segja að hér er leiðrétting frá fjáraukalögum sem komu fram í haust og þegar tillit er tekið til þess að hér er um að ræða tekjur upp á vel á annað hundrað millj. er þetta ekki stórt. Það vill svo til að einmitt um áramótin sést ekki alveg nákvæmlega hvernig tekjustraumarnir verða og þess vegna getur það gerst að einhver mismunur komi upp. Ég hygg að ef starfsmenn fjmrn. eru spurðir finnist þeim 160--170 millj. ekki vera stór biti í þeim efnum.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að á sínum tíma kom í ljós að fjmrn. gat ekki spáð með góðu móti fyrir fram um virðisaukaskattinn. Við þekktum hann ekki nægilega vel til að sjá hvernig hann skilaði sér á vissum tímum hagsveiflunnar. Við fundum fyrir því þegar atvinnulífið byrjaði að starfa eðlilega á nýjan leik, fjárfestingar jukust, að þá dró úr virðisaukaskattskilum. Það á sér auðvitað þær skýringar að innskattur t.d. vegna byggingaframkvæmda kemur á móti útskattinum og dregur því úr skattskilum á tilteknum tíma. Hins vegar getur það leitt til þess að skatturinn skili sér betur á árunum þar á eftir. Virðisaukaskatturinn er það nýr í íslenska skattkerfinu að menn verða sjálfsagt smám saman að læra á það hvernig skattskilin verða við mismunandi aðstæður í efnahagslífinu.

Um landbrn. skal ég vera stuttorður. Uppkaupin urðu miklu minni en menn áttu von á. Ég verð að rifja upp að gerður var samningur milli ríkisstjórnarinnar annars vegar, auðvitað með fyrirvara um samþykki Alþingis, og landbúnaðarforustunnar, bændaforustunnar hins vegar um sauðfjárframleiðsluna hér á landi. Hv. Alþingi fékk samninginn og breytti honum. Sú breyting var gerð að tilhlutan hv. landbn. Það er rétt að virðulegur forseti, Guðni Ágústsson, er þar formaður og átti sjálfsagt hlut að málum. Í mjög grófum dráttum er breytingin byggð á því að ef uppkaupapeningarnir yrðu ekki notaðir til uppkaupa væri m.a. hægt að nota þá til markaðssetningar ef ég man rétt. Síðan kom í ljós að uppkaupin urðu miklum mun minni en menn óraði fyrir og sumt af fjármununum var notað til markaðssetningar en að öðru leyti var ákveðið að fresta greiðslunum í fjárlagafrv. Loks endaði það með nýjum samningi við bændaforustuna núna þar sem þessir fjármunir voru notaðir til annarra nota fyrir landbúnaðarframleiðsluna í landinu. Það er lengri saga en svo að ég sé að fara út í hana hér en eins og allir hv. þm. vita hefur það lengi verið svo að bændaforustan og landbúnaðurinn hér á landi hefur kvartað undan því að vera í spennitreyju og geta ekki endurnýjað hús og ýmislegt sem þarf til framleiðslunnar og í framhaldi af því var gerður nýr samningur. Ég vona að ég fari nokkurn veginn rétt með þessi mál en ég veit að í salnum eru menn meiri sérfræðingar en ég í þessum málum.

Ég hygg að hjá lögreglunni í Reykjavík sé það rétt sem hv. þm. sagði að launahækkunin er meiri en menn áttu von á. Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og í samningum þeirra er gert ráð fyrir að launin séu reiknuð á ákveðinn hátt. Ákveðin nefnd, sem hagstofustjóri á m.a. sæti í, reiknar laun þeirra miðað við þá hækkun sem hefur orðið hjá öðrum stéttum og það skiptir verulegu máli hvenær það er gert. Ég hygg að hækkun á launum til lögreglumanna hafi orðið meiri en menn áttu von á og fjárlög gerðu ráð fyrir þótt ég útiloki ekki heldur að þarna komi til aðrir hlutir.

Varðandi gerð kjarasamninga vil ég taka fram að í fjárlögum yfirstandandi árs ... (Forseti hringir.) Er ég búinn með tímann?

(Forseti (GÁ): Tíminn er liðinn.)

Fyrir löngu? Það kemur enginn tími fram hér.

(Forseti (GÁ): Ég bið hæstv. ráðherra afsökunar en ljósið virðist vera bilað.)

Ef ég mætti, virðulegi forseti, og ef því er ekki mótmælt, fá að segja örfá orð að allra síðustu þar sem mér var ekki ljóst hvenær tímanum lauk og enginn gerir athugasemd.

Þá eru það 17,7 millj. í venjulegu árferði. Þetta þýðir að yfirvinna og annar kostnaður sem hefur lent á samninganefndinni vegna yfir 100 samninga sem hafa verið gerðir á árinu eru þeir fjármunir sem þarna koma fram.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gagnrýndi nokkuð að ekki skyldu standast á fjárheimildir og útgjöld. Þessi umræða hefur reyndar margoft farið fram en ég minni á að það er ekki við að búast að svo gerist að fjárheimildir standist alveg á við greiðsluútgjöld viðkomandi árs. Hins vegar er ugglaust rétt sem kemur fram hjá Ríkisendurskoðun að það þyrfti að fara yfir þetta annað slagið, stokka upp og kannski slétta út. Eins og ég hef margoft sagt held ég að sá háttur sem hefur verið stundaður nokkur undanfarin ár hafi verið til mikils gagns. Á þessu ári er tekinn upp rekstrargrunnur og í tilefni af því verða breytingar á yfirstandandi áis. Varðandi það að vaxtagjöldin skuli fara 600 millj. kr. fram yfir er frá því að segja að það var ekki gerð, ef ég man rétt, nein breyting á þessu í desember heldur var ákveðið að bíða og sjá hver niðurstöðutalan yrði. Það kann að vera að við höfum lækkað vextina eitthvað en verið er að tala um tölur eins og 13--14 milljarða sem greiddir eru í vexti á hverju ári. Við vitum ekki fyrir fram hve mikið við tökum af lánum innan lands og hve mikið erlendis og eiginlega er ekki nokkur leið að áætla þetta rétt þannig að ekki skakki a.m.k. upp undir hálfum milljarði. Ég vek athygli á því að þetta er nánast eina atriðið sem Ríkisendurskoðun gerir einhverja athugasemd við, þ.e. að vextirnir skyldu vera 600 millj. kr. lægri en við gerðum ráð fyrir í upphafi árs og það varð til þess að skýrsla Ríkisendurskoðunar varð ekkert fréttaefni í blöðum. Ég er gjörsamlega sammála öllu því sem kemur fram í skýrslunni og get tekið undir að það er eðlilegt að litið sé á þetta tiltekna atriði sérstaklega í framhaldi af því.

Aðalatriðið finnst mér vera það, virðulegi forseti, að bilið á milli áætlunar fjárlaga og niðurstöðutalnanna er sífellt að minnka. Ef við skoðum þetta núna yfir heilan áratug kemur sífellt betur í ljós að við erum að ná tökum á áætlanagerðinni og það skiptir auðvitað mestu máli.

Virðulegi forseti. Ég veit að ég er að misnota aðstöðu mína og tala umfram það sem ég má. Ég vil að lokum þakka fyrir þau góðu orð sem fallið hafa í minn garð í umræðunni og vonast til að þetta sé ekki síðasta ræða mín á þingi því ég á heilmikið eftir að gera, flytja annað frv., en vil nota tækifærið til að þakka hv. alþm., sem töluðu í umræðunni og hafa gert ár eftir ár, kærlega fyrir samstarfið og málefnalegt framlag þeirra þegar þessi mál hafa verið til umræðu.