Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 18:00:22 (5479)

1998-04-14 18:00:22# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er að vísu vel ljóst að það er rétt að það hefur engum varanlegum veiðiréttindum verið úthlutað og verður þá ekki næstu þrjú árin ef þetta yrði gert svona. En ég veit að ég þarf ekki að útskýra fyrir hæstv. sjútvrh. að útgerðarmenn eða eigendur skipa sem hafa stundað þessar veiðar að undanförnu velta þessum hlutum mjög mikið fyrir sér. Og það er alveg ljóst að ef óvissa ríkir um það hvort einhver réttindi fylgja skipi við kaup sem eru leidd af liðnum tíma, þá verkar það sem hemill á að menn geti tekið slíkar ákvarðanir að eðlileg þróun geti orðið af þessu tagi. Ég þekki beinlínis dæmin um að deilur hafa akkúrat staðið um það hvernig með slík réttindamál ætti þá að fara. Það hefur jafnvel valdið því að viðskipti sem sýndust báðum aðilum hagkvæm og skynsamleg hafa ekki getað orðið vegna þess að menn náðu ekki niðurstöðu um það hvernig ætti að fara með yfirfærslu á hinum hugsanlegu réttindum sem þarna gætu verið á ferðinni. Þess vegna er allt grautarlag af þessu tagi mjög slæmt hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er dapurlegt fyrir hæstv. ráðherra að þurfa að svara því þannig að hæstv. ráðherra telji mikilvægt að fyrir hendi sé hvati í löggjöfinni til að menn leiti leiða við að nýta nýja stofna en mæla svo hér fyrir frv. um algjörlega hið gagnstæða því það er hæstv. ráðherra að gera. Frv. felur í sér fráhvarf frá því, er í raun ávísun á hið gagnstæða. Og menn munu spyrja sig áður en þeir leggja í mikinn kostnað eða taka mikla áhættu t.d. sem frumkvöðlar eða brautryðjendur í kolmunnaveiðum, dýrum veiðum, áhættusömum veiðum, sem einungis mjög sérhæfð og öflug skip geta gert sér vonir um að stunda með árangri: ,,Verður svo farið eins með okkur og þá sem riðu á vaðið við veiðar á norsk-íslensku síldinni? Verður eftir þrjú til fimm ár komið með frv. klippir á ákvæði úthafsveiðilaganna og gerir veiðireynslu okkar að engu?`` (Forseti hringir.) Þetta eru spurningar sem vakna í málinu og það er vont fyrir okkur að fjalla um málið án þess að geta svarað þeim.