Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 18:28:35 (5482)

1998-04-14 18:28:35# 122. lþ. 103.7 fundur 654. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og hæstv. félmrh. Páls Péturssonar er ýmislegt í þeim frv. sem hér eru til umræðu sem horfir til bóta, annað sem er umdeilanlegt og sumt gagnrýnivert. Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að með þessum frv. skuli orðið við þeim tillögum sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir bar fram í þinginu þess efnis að hætt yrði að skerða atvinnuleysisbætur hjá fólki sem fær makalífeyri eftir látinn maka. Þetta var eflaust slys á sínum tíma þegar sú breyting var gerð eins og reyndar kom fram í máli hæstv. félmrh. þegar frv. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur var til umræðu. Hann lýsti því þá yfir að þetta yrði lagfært og það er gert með þessum frv. Ég vil sérstaklega fagna því að það skuli gert.

Af öðrum þáttum sem horfa til bóta í þessum frv. má nefna ákvæði þess efnis að einstaklingum er heimilað að geyma áunninn bótarétt í tvö ár og að sá réttur taki einnig til þeirra sem nýta sér fæðingarorlof. Reyndar mun þetta hafa verið við lýði í fyrri lögum en ekki á eins afdráttarlausan hátt og hér er varðandi fæðingarorlofið. Þessu vil ég einnig fagna.

Þá vil ég taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur varðandi rétt fanga til að geyma bótarétt en vil beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki væri æskilegt að setja í lögin ákvæði þess efnis að fangar gætu áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta með vinnu í fangelsum. Þetta er nokkuð sem mætti taka til athugunar í meðförum þingsins.

Það sem ég tel umdeilanlegast í þessum frv. og gagnrýnivert er ákvæði þess efnis að skerða réttindi hlutavinnufólks. Það kemur fram í frv. að einstaklingar sem hafa unnið fulla vinnu en er þröngvað til að taka að sér hlutastörf, eru þó yfir frítekjumarki sem mun vera rúmar 78 þúsund kr., 78.636, missa réttinn til atvinnuleysisbóta. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hverjar áætlanir séu um fjölda einstaklinga. Hvað er líklegt að skerðing atvinnuleysisbótanna taki til margra einstaklinga?

Í skýrslu Vinnumálastofnunar sem birt var 23. mars sl. kemur fram að 17,6% þeirra sem voru skráðir atvinnulausir í lok febrúar er í hlutastörfum. Hér erum við að tala um rúmlega eitt þúsund manns. Spurning mín til hæstv. ráðherra, sem er að leggja til með þessum frv. að atvinnuleysisbætur hlutavinnufólks sem er yfir því frítekjumarki, sem ég vísaði til áðan, verði skertar, er þessi: Hvað ætlar félmrn. að um marga einstaklinga sé að ræða sem verði fyrir skerðingu af völdum þessarar lagabreytingar, ef af verður?

Við þekkjum að það er mikið kappsmál allra að koma atvinnuleysinu niður, útrýma atvinnuleysi í landinu. Þar í ofanálag er það kappsmál stjórnvalda að koma atvinnuleysistölunum niður. Spurningin er þessi: Hvað gerist þegar farið er að höggva í bæturnar á þann hátt að fólk sjái ekki lengur hag sinn í því að skrá sig atvinnulaust og mun þetta eitt ekki koma til með að gefa okkur falska mynd um ástandið þegar fram líða stundir? Þetta er nokkuð sem hefur tíðkast í fyrirtækjum og einnig stofnunum á vegum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að þegar kreppir að er fólki oft stillt upp við vegg. Ég þekki þess mörg dæmi, t.d. á sjúkrahúsum þar sem starfsstéttir hafa hreinlega verið spurðar hvort þær vilji horfa upp á að félögum þeirra verði sagt upp störfum eða að taka hinn kostinn að minnka við sig vinnu og fara í hlutastörf. Einstaklingur sem er með allsæmilegar tekjur, við skulum segja 150--160 þúsund kr. á mánuði, og færi niður í helmingsstarf fengi engar atvinnuleysisbætur. Við vitum að hrapið úr tekjum sem einstaklingur hefur í fullu starfi niður í atvinnuleysisbætur eða niður í hálft starf, ef því er að skipta, veldur miklum búsifjum hjá fólki og miklum vandræðum.

Hér er á ferðinni lagafrv. sem skerðir kjör þessa fólks í krónum talið. Og spurning mín er: Um hve marga af rúmlega eitt þúsund manns sem er á atvinnuleysisskrá í hlutastörfum er að ræða sem verða fyrir skerðingu af völdum þessara frv. ríkisstjórnarinnar? Því við þurfum að hafa þetta vel kortlagt áður en við göngum frá lagafrv. og áður en við samþykkjum þau á Alþingi.

Ég vil vekja athygli á því að enda þótt atvinnuleysi hafi lítillega minnkað þá er atvinnuleysi á Íslandi mjög mikið. Það er mjög mikið hjá þjóð sem frá stríðslokum og fram á þennan áratug þekkti varla atvinnuleysi, ef undantekin eru árin í lok sjöunda áratugarins. Atvinnuleysi var mjög sjaldan yfir einu prósentustigi. Núna mælist atvinnuleysi 3,7% og á árinu 1997, síðasta ári, þá voru 5.230 manns að meðaltali atvinnulausir á Íslandi. Þetta er mikill fjöldi. 5.200 vinnufærir einstaklingar höfðu ekki atvinnu. Það sem mér finnst vera áhyggjuefni er hve þetta málefni, málefni atvinnulausra, hefur vikið til hliðar í þjóðmálaumræðu á Íslandi. Það er engu líkara en þjóðin sé farin að sætta sig við þetta ástand og það er mjög alvarlegur hlutur vegna þess að rúmlega fimm þúsund manns atvinnulausir eru rúmlega fimm þúsund mönnum of mikið á atvinnuleysisskrá.

Ég vil af þessu tilefni vekja athygli á þáltill. sem flutt var á þinginu fyrr í vetur. 1. flm. var hv. þm. Svavar Gestsson en flm. voru auk hans Kristín Ástgeirsdóttir, sá er hér stendur, og Guðmundur Árni Stefánsson, þar sem við leggjum til að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og vinnumarkaðarins til að semja heildstæða skýrslu um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu, eru að leita sér að vinnu eða hafa misst vinnu, og gera tillögur til að bæta hag þeirra og tryggja þeim skilyrðislaust sömu mannréttindi og aðrir hafa. Í þessari þáltill. eru tilgreind nokkur atriði sem við viljum að verði tekin sérstaklega til könnunar.

Af þessu tilefni vil ég líka rifja það upp að hér heyrast annað veifið úr munni stjórnmálamanna mjög fordómafullar yfirlýsingar í garð atvinnulauss fólks. Þannig var að skilja á hæstv. fjmrh. í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að atvinnuleysisbætur væru of háar. Þær hömluðu því að hægt væri að koma atvinnuleysisstiginu niður í það horf sem það var fyrir þann tíma sem atvinnuleysið hóf innreið sína í stórum stíl. Það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. félmrh. á þessum yfirlýsingum samráðherra hans um atvinnuleysisbæturnar.

Mönnum til upplýsingar eru atvinnuleysisbætur nú tæpar 60 þús. kr. á mánuði, 59.636 kr., og held ég að fæstum finnist það vera of há upphæð og ljóst að enginn lifir góðu lífi af slíkri fjárupphæð, ef menn yfirleitt geta lifað af slíkri fjárupphæð. Þetta lýsir náttúrlega mikilli vanþekkingu á kjörum fólks, það lýsir vanþekkingu á kjörum atvinnulausra og það lýsir vanþekkingu á kjörum láglaunafólks á Íslandi þegar ráðherra leyfir sér að koma fram með fullyrðingar af þessu tagi.

Af þessu tilefni hafa samtök launafólks ályktað og mótmælt þessum yfirlýsingum ráðherrans. Stjórn BSRB samþykkti í byrjun þessa mánaðar ályktun þar sem lagt er til að aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld leggist á eitt um að útrýma atvinnuleysi hér á landi fyrir aldamót. Í þessari ályktun sem kemur frá stærstu heildarsamtökum opinberra starfsmanna er vakin athygli á því að atvinnuleysi hjá konum er umtalsvert meira en hjá körlum, sem er umhugsunarvert í ljósi þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til til að draga úr atvinnuleysi. Þær aðgerðir hafa fyrst og fremst beinst að hefðbundnum karlastörfum á sama tíma og skorið hefur verið niður við störf þar sem konur vinna, t.d. í heilbrigðisþjónustunni, í umönnunarstörfum og annarri þeirri starfsemi þar sem konur eru helst við störf.

Ég ætla að leyfa mér að ljúka máli mínu með því að lesa upp niðurlagið í þessari ályktun sem kom frá BSRB og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Stjórn BSRB hvetur stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins til þess að sameinast um markvissa stefnu til að útrýma atvinnuleysinu fyrir árið 2000. En það verður ekki gert með því að lækka bæturnar heldur einungis með því að auka framboð á störfum fyrir þá hópa sem eru atvinnulausir. Það er m.a. hægt með því að snúa þeirri þróun við sem verið hefur í heilbrigðisþjónustunni þannig að við verðum áfram í fremstu röð í heiminum á því sviði.``

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri um þetta. Ég bíð þess að heyra frá hæstv. félmrh. nánari upplýsingar um hvert sé mat félmrn. á fyrirhuguðum skerðingum á atvinnuleysisbótum til hlutavinnufólks. Það er ljóst að margir einstaklingar verða fyrir umtalsverðum skerðingum. Í máli mínu hefur komið fram að hlutavinnufólk er 17,6% allra þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá, rúmlega eitt þúsund einstaklingar. Hve margir þessara einstaklinga verða fyrir skerðingu vegna þeirra frv. sem hæstv. félmrh. hefur lagt fyrir þingið?