Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 12:33:31 (5502)

1998-04-15 12:33:31# 122. lþ. 104.15 fundur 229. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 230. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er vel við hæfi að ræða þessi frv. í dag því að það hefur sannarlega komið í ljós hve eftirlitshlutverk Alþingis með allri stjórnsýslu, opinberri stjórnsýslu, er mikilvægt einmitt í þeim málum sem hafa verið hvað efst á baugi í dag og undanfarna daga hvað varðar Landsbanka Íslands. Eins og 1. flm. þessara frv. gat um í framsögu sinni má segja að forsaga þessara frv. hafi verið sú að við umræður á Alþingi þegar rædd var hlutafélagavæðing ýmissa ríkisfyrirtækja var kallað eftir því hver réttur þingmanna yrði til upplýsinga um ýmis málefni þessara fyrirtækja eftir að þau væru orðin að hlutafélögum.

Þegar hlutafélagavæðing bankanna var til umræðu upplýsti hæstv. viðskrh., bankamálaráðherra, að hlutafélagavæðingin hefði ekki áhrif á upplýsingagjöf til þingmanna um málefni bankanna.

Þegar ríkisfyrirtækið Póstur og sími var gert að hlutafélagi var síðan látið reyna á upplýsingagjöf um ákveðin málefni fyrirtækisins fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Ég lagði fram á þingi fyrirspurn um ákveðin atriði og þá kom í ljós að unnt var að veita upplýsingarnar um fyrirtækið fyrir hlutafélagavæðingu en ekki að sama skapi um sömu málefni sama fyrirtækis eftir að það var orðið að hlutafélagi.

Í kjölfar þess fór ég fram á utandagskrárumræðu um rétt alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins, sem fór fram fyrir u.þ.b. ári, og í kjölfar þes lét hæstv. forsrh. útbúa skýrslu um þennan rétt og skýrslunni var dreift hér í upphafi þessa þings í haust. Skýrslan hefur ekki verið rædd enn þá þó svo það hafi verið beðið um það að hún yrði rædd hér eins og aðrar skýrslur sem hafa verið lagðar fyrir þingið. Það getur vel verið að ekki þurfi að ræða þá skýrslu ef menn bregðast skjótt við og gera þau frv., sem hér liggja fyrir, að lögum, þá gæti sú umræða orðið óþörf.

Eins og kom fram í máli 1. flm., hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, er þessi breyting á lögunum nauðsynleg til þess að Alþingi geti uppfyllt eftirlitshlutverk sitt. Hann benti á fyrirtæki sem neita upplýsingum, dótturfyrirtæki Landsbankans, um málefni sín vegna þess að fyrirtækið er ekki að fullu í eigu ríkisins. Það gæti ekki átt sér stað ef þessi frv. yrðu að lögum. Það mál sýnir vel hversu nauðsynlegt það er að breyta lögum í þá veru sem hér er lagt til til þess að Alþingi sé gert kleift að fylgja eftir málum eins og þeim sem eru nú komin upp í Landsbankanum. Ef mál verða látin vera óbreytt verður ekki hægt að fylgjast með rekstri opinberra fyrirtækja eins og bankanna eins og gert hefur verið hingað til.

Án þess að ég ætli að lengja umræðuna mjög, sem ég gæti reyndar gert ef ég vildi, vil ég bara leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að þessi frv. verði að lögum. Vissulega verður fylgst með því hvernig menn afgreiða þessi mál þegar þau koma til nefndar og þau mál verða hér til umfjöllunar og vonandi koma þau hingað inn í þingið aftur og verða rædd hér og verða að lögum fyrir vorið. Því að það er ekki hægt að una við það að Alþingi geti ekki fylgst með rekstri þessara fyrirtækja, sérstaklega þegar sú spilling hefur komið í ljós sem hefur viðgengist í opinberum fyrirtækjum þar sem farið hefur verið illa með almannafé. Almenningur mun ekki sætta sig við það og þingið ætti því að sjá sóma sinn í því að samþykkja frv. eftir umfjöllun í allshn. þingsins