Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:10:29 (5521)

1998-04-15 18:10:29# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:10]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Mörg þung orð hafa fallið í tengslum við Landsbankamálið á síðustu dögum og í þinginu í dag. Það eru margir kallaðir til ábyrgðar fyrir það sem viðgengist hefur þar og verður ekki flokkað undir annað en spillingu og óstjórn. Þrír bankastjórar hafa sagt af sér. Þeir hafa axlað þá ábyrgð sem á að fylgja ábyrgðarmiklum störfum en er réttlætinu þar með fullnægt? Hverjir eru hinir seku í málinu?

Ég vil aðeins draga athygli manna að því að þó að allir bankastjórarnir þrír hafi sagt af sér er ekki þar með sagt að þeir hafi allir brotið af sér. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir að þar hafa menn staðið mjög misjafnlega að málum og ég held að rétt sé að halda því til haga í umræðunni eins og bent hefur verið á, t.d. varðandi Halldór Guðbjarnason, sem hefur sagt af sér þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun dæmi verk hans ekki hart í skýrslunni. Ábyrgðin er einfaldlega meiri en svo að hún komi aðeins til þegar menn hafa brotið af sér. Hún getur fallið á menn þó þeir hafi ekki vísvitandi brotið af sér í starfi og auðvitað á það sama við um ráðherraábyrgðina, herra forseti, þótt ég ætli ekki að leggja dóm á það hvort hún á við í þessu máli.

Það er hins vegar í hæsta máta undarleg túlkun sem hæstv. forsrh. hélt fram í fyrri umræðu um málið að ráðherra væri ekki ábyrgur fyrir það sem undirmenn hans gera í starfi. Það er þokkalegt siðferði ef ráðherra getur vísað á auman kontórista í hvert skipti sem kallað er eftir ábyrgð hans vegna einhverra verka. Slík ráðherraábyrgð er einskis virði og enn frekar er rétt að vekja athygli á þeirri fráleitu túlkun hæstv. viðskrh. þegar hann heldur því fram opinberlega að ráðherraábyrgðin gufi nánast upp í þeim tilfellum þegar Alþingi tilnefnir fulltrúa í stjórnir og ráð. Þetta er fráleit túlkun og landsmenn hljóta að spyrja hinn eina handhafa hlutabréfsins í Landsbankanum hf., Finn Ingólfsson: Hvað ætlar hann að gera í málinu, hvernig ætlar hann að axla ábyrgð sína? Er hann verðugur gæslumaður þessara fjármuna eða aðeins ábyrgðarlaus sendiboði bankaráðsins og embættismanna eins og hann og hæstv. forsrh. vilja vera láta?

Augu manna beinast óneitanlega í fleiri áttir en að ráðherrum. Það var vægast sagt undarleg upplifun að fylgjast með útsendingu frá blaðamannafundi bankaráðs Landsbanka Íslands þar sem fyrrverandi formaður bankaráðsins og núverandi varaformaður þess lýsti því yfir heilagur í framan að það væri fráleitt að láta sér detta í hug að einhver mundi halda áfram sukkinu í Landsbankanum, rétt eins og nú væri búið að hengja skúrkana og hinir saklausu bankaráðsmenn væru búnir að þvo hendur sínar. Er þetta svona einfalt? Voru bankaráðsmenn virkilega ekki meðvitaðir um það sem þarna átti sér stað? Eru hendur þeirra þvegnar? Hvað voru þeir að gera þann tíma sem þetta gekk yfir og hvað var Kjartan Gunnarsson að gera þann tíma sem hann var formaður bankaráðsins og af hverju var ekki kippt í taumana fyrr? Það er ekki rétt að Ríkisendurskoðun hvítþvoi bankaráðið í skýrslunni fyrir utan það að skýrslan í málinu er enginn stóridómur. Það er fráleitt. Ég held að málinu verði ekki lokið og spurningum sem hafa vaknað verði ekki svarað fyrr en fram hefur farið opinber rannsókn á þessu máli þar sem endanlega verður skorið úr um það hverjir eru hinir seku og hverjir hinir saklausu í málinu.