Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:27:33 (5526)

1998-04-15 18:27:33# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:27]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er eitt í þessari umræðu sem er ekki hægt að skilja við á þessari stundu og á þessum stað án þess að fá það skýrt. Í svokallaðri greinargerð bankaráðs segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í lok greinargerðar Ríkisendurskoðunar kemur fram sú afdráttarlausa skoðun að bankaráð Landsbanka Íslands hafi rækt hlutverk sitt sem eftirlitsaðili með fullkomlega eðlilegum hætti ...``

Virðulegi forseti. Ég er búinn að lúslesa greinargerð Ríkisendurskoðunar. Ég finn hvergi þá einkunnagjöf sem hér er vísað til. Hæstv. forsrh. vísaði einnig til þessa og raunar hæstv. viðskrh. sömuleiðis. Ég kalla eftir því hér og nú að lesið verði upp fyrir mig úr þessari greinargerð Ríkisendurskoðunar hvar er að finna þessa syndakvittun Ríkisendurskoðunar til handa bankaráði Landsbanka Íslands. Á meðan það hefur ekki verið gert eru þetta auðvitað staðlausir stafir sem hér hefur verið haldið fram, bæði í þessari svokölluðu greinargerð og einnig í orðum hæstv. ráðherra. Það er ekki hægt að ljúka við þessa umræðu hér öðruvísi en að fá þetta fullkomlega skýrt. (Gripið fram í: Heyr!)

Að vísu var ýjað að því áðan að ríkisendurskoðandi hefði hugsanlega sagt þetta einhvers staðar. En hvergi er að finna um þetta einn einasta staf og ég bið um að þetta verði lesið fyrir mig ef það er einhvers staðar að sjá.