Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:44:27 (5562)

1998-04-16 15:44:27# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., TIO (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:44]

Tómas Ingi Olrich (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sú umræða sem hér á sér stað virðist vera til þess gerð að kalla fram yfirlýsingar frá hæstv. heilbrrh. um það hvort hún hyggist beita sér fyrir því að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi. Mig langar til að benda á tvö atriði í sambandi við þetta mál. Fyrir það fyrsta er það óvenjulegt að áður en mælt er fyrir frv. skuli það hafa fengið eins víðtæka umfjöllun í fjölmiðlum og þetta frv. hefur fengið. Það hefur birst ótrúlegur fjöldi af greinum með efnislegum athugasemdum um frv. Þessar greinar eru settar fram sumar hverjar af faglegum sjónarmiðum og eru mjög upplýsandi um málið, a.m.k. nokkrar þeirra.

[15:45]

Ég vil einnig taka fram að það er rétt að þingmenn hugi svolítið að því hvers eðlis þetta mál er. Þetta mál veit að hugvitsiðnaði en sá iðnaður er á alþjóðlegan mælikvarða sá sem einna mestar sviptingar eru á, þar sem hraðinn er mestur og þar sem tíminn er minnstur. (ÖS: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Þetta er um það efni sem hér er búið að vekja upp, (Gripið fram í: Er þetta efnisumræða?) hvort það á að koma efninu fyrir, hvort á að reyna að ... (Gripið fram í.) Ég býst við því að hv. þingmenn sem hér eru að kalla fram í geti gert það sem ég er að gera, að taka þátt í umræðu um fundarstjórn forseta. Þeir geti komið hér upp eins og ég en ekki verið að trufla mál mitt.

Ég vil taka það fram að af efnislegum ástæðum er mjög brýnt að þessu máli verði hraðað.