Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 17:17:44 (5580)

1998-04-16 17:17:44# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[17:17]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó frv. liggi í kössum einhvers staðar í hliðarherbergjum þá er ekki búið að dreifa því fyrir þingið. Það er afar slæmt ef hæstv. ráðherra telur að hún geti sagt að það sé komið í þingið ef það er í lokuðum kössum og þingmenn hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér það. Ég er að tala um að þá fyrst að frv. hefur verið dreift er hægt að tala um að það hafi verið lagt fyrir þingið.

Ég var akkúrat að ræða um rétt sjúklingsins hér áðan. Hjá framkvæmdastjóra tölvunefndar kemur fram að réttur sjúklingsins sé ekki tryggður. Það er alvarlegt. Það hefur margkomið fram, líka frá ýmsum sérfræðingum á sviði tölvumála, að ekki sé hægt að tryggja að persónuupplýsingar fylgi ekki með. Þeir telja að hægt sé að sjá hvaða persóna á í hlut. Þeir telja að þegar öll íslenska þjóðin er mengi í ákveðinni stofnun, þá sé hægt að keyra upplýsingar þannig saman að hægt sé að komast að því hvaða einstaklingur á í hlut. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að skoða mjög vel og taka í það þann tíma sem þarf.

Ég tek það enn og aftur fram að sú gagnrýni sem hér er á vinnubrögð ráðherra kemur innihaldi frv. ekkert við. Ég er ekki að segja það að þetta mál sé alvont. Hins vegar eru mjög margir þættir sem við verðum að skoða áður en það er tilbúið til afgreiðslu.