Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 14:23:29 (5609)

1998-04-21 14:23:29# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka nefndinni fyrir hversu vel hún hefur unnið að þessu máli. Eins og fram kemur á þskj. 1139 leggur nefndin til að ályktunin verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Varðandi einstakar fyrirspurnir vil ég svara þessu:

Í fyrsta lagi var eðlilegt að lækka nokkuð framlög til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar þar sem eldsneytisgjaldið var lagt niður og er gert ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur taki á sig 18 millj. kr. á ári af þeim sökum sem flugvöllurinn getur síðan bætt sér upp með sértekjum. Í fyrsta skipti liggur fyrir áætlun um hvernig staðið verði að greiðslum á þeim skuldum sem stofnað var til á sínum tíma vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (GÁS: Hvaða sértekjur eru það?) og einnig nýbyggingar vegna skuldbindinga Schengen og vegna meiri umferðar um Keflavíkurflugvöllinn en áður hefur verið. Gert er ráð fyrir að nýframkvæmdir kunni að kosta upp undir milljarð. Eins og horfir nú er umferð um flugvöllinn vaxandi og meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þá er ég að tala bæði um sértekjur sem verða til vegna flugstöðvarinnar, leigu á henni, og eins vegna flugvallargjalda og annars sem til fellur á flugvellinum sjálfum.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að tilfærslan feli í sér auknar álögur á innanlandsflugið, þvert á móti er gert ráð fyrir að hækka lendingargjöld og aðrar sértekjur á innanlandsflugið sem svarar lækkun á flugvallarskatti.