Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 14:50:43 (5614)

1998-04-21 14:50:43# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja vegna ummæla hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um það fjármagn sem rennur til Keflavíkurflugvallar og Leifsstöðvar að það virðist loða við umræðuna að helst sem minnst fjármagn megi fara af flugmálaáætlun til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eða til reksturs á millilandaflugi landsmanna þrátt fyrir að menn geri sér grein fyrir því að um 80% af öllum tekjum flugmálaáætlunarinnar koma vegna lendingagjalda frá Keflavíkurflugvelli, t.d. fara tekjur af Keflavíkurflugvelli til að byggja upp Reykjavíkurflugvöll.

Samkvæmt hugmyndum sem nú eru í vinnslu hjá Evrópusambandinu verður bannað að flytja tekjur á milli samkeppnisflugvalla þannig að tekjur sem verða til á Keflavíkurflugvelli eiga t.d. ekki að geta orðið til að byggja upp Reykjavíkurflugvöll. Það mundi ekki hafa áhrif á það að gera eitthvað fyrir flugvöllinn á Akureyri hugsanlega eða á Húsavík eða einhvers staðar í kjördæmi hv. þm. þar sem um litla flugvelli er að ræða.

Ég ætla aðeins að minna á að fjárhagsvandi Keflavíkurflugvallar hefur verið gríðarlegur í kringum Leifsstöð og hefur staðið uppbyggingu og starfsemi tengdri vellinum fyrir þrifum í langan tíma og ber að þakka hæstv. ráðherra að hafa þó tekið eitthvað á þessu máli þó að mínu viti sé það ekki nægjanlega mikið.

Að öðru leyti verður að segjast um Schengen, af því hv. þm. kom inn á það, að ef eitthvað styrkir okkur í baráttunni við innflutning á eiturlyfjum og öðrum slíkum skaðlegum efnum, er það aðild okkar að Schengen.