Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:22:12 (5624)

1998-04-21 15:22:12# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki gera þessi mál neitt flóknari en þau eru. Hér er ekki um það að ræða að flugmálaáætlun sé sett á hvolf fjárhagslega út af því sem út af stendur. Ég hef hins vegar þráfaldlega upplýst að það væri yfirlýst í samgn. mörgum sinnum og hæstv. ráðherra hafður fyrir því og meira að segja um það getið að sú ákvörðun hefði verið tekin við ríkisstjórnarborðið sjálft um að þeir fjármunir sem hér er um að ræða til þess að endar mættu ná saman í þeirri áætlun sem við erum að samþykkja væru tryggðir. Hvort breytingar verða gerðar á þessari áætlun á næsta ári eða þar næsta er allt annað mál. Hér erum við að reyna að ljúka frágangi þessarar áætlunar til næstu fjögurra ára með viti bornum hætti. Ég skil ekki hvað það er djúpt á því eina svari sem eftir er leitað, hinu sama og hv. stjórnarþingmenn gáfu í samgn. mörgum sinnum og báru fyrir sig hæstv. samgrh. Jú, það verður tryggt í fjárlögum hvers árs sem framlög úr ríkissjóði að endar nái saman. Þessar 17 millj., þessar 19 millj., þessi 21 millj. þessar 22 millj. Af hverju í veröldinni er svona þungt að fá þetta fram? Eru menn eitthvað að ganga á bak orða sinna? Maður segir: Þetta eru smáar upphæðir. En ef menn geta ekki einu sinni staðið við þessar smáu upphæðir, hvað þá með hin stærri loforð?

En ég sé enga ástæðu til þess að eiga um þetta orðastað við hæstv. ráðherra miklu lengur. Hann ætlar greinilega ekki að gefa þessi vilyrði, gefa þessi loforð sem samflokksmenn hans hafa haldið á lofti í orði hans. Ég held að rétt sé að bíða eftir því að hv. formaður samgn. geri þetta ljóst.